Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. maí 2024

Náðum vopnum okkar á ný

„Það hefur ætíð verið eitt af grunngildum okkar, bæði starfsfólksins og mín sem forstjóra, að hafa góðan starfsanda.“ Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson

„Um 90 prósent af umsóknum sem Hugverkastofunni berast eru frá erlendum fyrirtækjum. Stofnunin veitir einnig ráðgjöf á sviði hugverkaréttinda og heldur utan um og framfylgir alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að á þessu sviði.“

Eftir Bjarna Brynjólfsson

Hugverkastofan var hástökkvari ársins í mannauðskönnun Sameykis um Stofnun ársins 2023 og lenti í tíunda sæti yfir ríkisstofnanir með 5–35 starfsmenn. Borghildur Erlingsdóttir forstjóri er ánægð með árangurinn þrátt fyrir að Hugverkastofan hafi oftsinnis skorað enn hærra í könnuninni.

Hjá Hugverkastofunni vinna 35 manns. Stofnunin er eingöngu rekin fyrir sjálfsaflafé þótt hún sé opinber þjónustustofnun á fjárlögum. Starfsemin er fjölbreytt en verkefnin felast fyrst og fremst í að taka á móti umsóknum og skrá vörumerki, einkaleyfi og hönnun, en hátt í 6.000 slíkar umsóknir berast á hverju ári.

Fyrir um ári flutti stofnunin í glæsilegt húsnæði í Katrínartúni og segir Borghildur að það eigi sinn þátt í að lyfta starfsandanum. Hún segir að heimsfaraldur kórónuveiru og ýmsir aðrir þættir hafi haft neikvæð áhrif og því hafi þurft talsverða naflaskoðun til að bæta starfsánægjuna.

Hugverkastofan er ekki með sérstakan mannauðsstjóra og segir Borghildur að stofnunin sé helst til of lítil til þess. „Við erum þrjú í teymi sem heldur utan um mannauðsmálin, en auk mín eru í því sviðsstjóri og starfsmaður rekstrarsviðs.“

Hvernig fóruð þið að því að bæta starfsandann?

„Það hefur ætíð verið eitt af grunngildum okkar, bæði starfsfólksins og mín sem forstjóra, að hafa góðan starfsanda. Ég trúi því að ánægt starfsfólk vinni betur. Í mörg ár í röð vorum við stofnun ársins eða lentum í öðru sæti eða þriðja. Svo féllum við hressilega. Þegar svoleiðis gerist þarf maður að líta í eigin barm, ekki bara stjórnendur heldur allt starfsfólkið. Ein skýring var sú að það var eftirvænting eftir flutningum í nýtt húsnæði sem gengu hægar fyrir sig en vonast var til. Þá var samvera starfsfólks minni eftir covid.“

 

Hún segir að nauðsynlegt hafi verið að fara í greiningarvinnu og ákveðnar aðgerðir til að bæta starfsánægjuna og rifja upp það sem gerði Hugverkastofuna að frábærum vinnustað.

„Við lögðum okkur einfaldlega fram um að bæta starfsandann, horfa inn á við og byggja upp traust, m.a. með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa. Á sama tíma vorum við að flytja. Við vorum einnig að takast á við mjög erfiðar aðstæður sem vinnustaður því einn af okkar lykilstarfsmönnum glímdi við krabbamein og lést í ágúst í fyrra.“

Borghildur segir að í slíkum aðstæðum sé mikilvægt að halda í jákvæðnina eins og kostur er og reyna að hafa gleðina að leiðarljósi.
„Það eru því margir þættir sem hjálpuðu okkur að ná vopnum okkar á ný en fyrst og fremst var það vinna sem starfsfólk lagði á sig til að bæta starfsandann sem gerði útslagið,“ segir hún ákveðin.

Gæfuspor að flytja á eina hæð
Hún segir að húsnæðið sem stofnunin var í áður hafi verið á þremur hæðum og óhentugra en núverandi starfsaðstaða.

„Eftir covid vorum við að hringlast svolítið mikið á þessum þremur hæðum. Ég held að sumir hafi hreinlega upplifað sig eina inni á vinnustaðnum. Nú eru allir í einu opnu rými á sömu hæð. Þetta var gæfuspor og allar boðleiðir miklu styttri. Áður en við fluttum hingað héldum við vinnustofur um hvernig við vildum hafa nýja húsnæðið. Mér heyrist að fólki líði mjög vel hérna.“

Hvað gerið þið til að halda uppi gleðinni þegar þið lítið upp frá vinnunni?

„Við erum með öflugt starfsmannafélag sem heitir Stella og stendur reglulega fyrir skemmtilegum uppákomum. Félagið keypti m.a. borðtennisborð sem er mjög vinsælt. Gott kaffi er alltaf mikilvægt. Þegar við fluttum hingað var svo nýjung fyrir okkur að vera hluti af stærra umhverfi því hér eru tvö frábær mötuneyti sem við getum valið á milli.“

Að sögn Borghildar hefur starfsfólkið lagt sig fram um að nýta vísindastyrki frá stéttarfélaginu til að fara til útlanda annað hvert ár og heimsækja systurstofnanir. „Þetta er mikil hvatning sem eflir bæði starfsfólkið og starfsandann,“ segir hún.

Um 90 prósent af umsóknum sem Hugverkastofunni berast eru frá erlendum fyrirtækjum. Stofnunin veitir einnig ráðgjöf á sviði hugverkaréttinda og heldur utan um og framfylgir alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að á þessu sviði.

Lögfræðingur með listræna taug
Eins og gefur að skilja vinna margir lögfræðingar hjá Hugverkastofunni þar sem eðli starfseminnar krefst slíkrar þekkingar. Borghildur er lögfræðingur frá Háskóla Íslands en sérhæfði sig í hugverkarétti við Stanford-háskóla í Kaliforníu. Hún hefur verið forstjóri Hugverkastofunnar síðan 2012 en var áður yfirlögfræðingur.

„Hugverkaréttur hefur verið svona rauði þráðurinn hjá mér síðan ég lauk námi í lögfræði. Kannski vegna þess að ég var að læra arkitektúr en tók síðan U-beygju og fór í lögfræðinám og þá kviknaði þessi áhugi hjá mér á hvernig haldið væri utan um skapandi greinar og hvernig það væri gert með hliðsjón af reglum samkeppnisréttarins. Ég hef alltaf haft áhuga á listum og sköpun svo ég brenn fyrir faginu. Svo leiðir eitt af öðru í þessu lífi og ég var svo lánsöm að geta sótt um starf forstjóra.“

 

Borghildur kveðst hafa hugleitt þá ákvörðun vel hvort hún ætti að sækja um forstjórastöðuna og segir ekki sjálfgefið að sérfræðingar verði góðir stjórnendur.

En af hverju varðstu ekki arkitekt?

Hún dæsir. „Oh, þarna kemur flókna spurningin. Það voru persónulegir hagir sem spiluðu inn í það. Ég bjó úti í Bandaríkjunum og var að læra og svo fluttum við heim því ég átti von á mínu fyrsta barni. Ég lauk tveggja ára námi í arkitektúr í Los Angeles. Kalifornía togaði samt alltaf mjög sterkt í mig og þegar ég kláraði lögfræðina hér heima fór ég í meistaranám við Stanford-háskóla í Kaliforníu.“

Borghildur er fjögurra barna móðir og segir fjölskylduna vera í fyrsta sæti hjá sér. „Ég var að eignast mitt fyrsta barnabarn,“ segir hún sæl á svip. „Við fjölskyldan erum mjög samheldin. Ég spila golf með manninum mínum og vinkonum,“ segir hún og bætir við. „Ég er mjög rík af vinkonum.“

Hún stofnaði kraftlyftingadeild Gróttu fyrir tíu árum og var um tíma formaður Kraftlyftingasambands Íslands. „Ég var með fyrstu konunum sem kepptu í þessari íþrótt hér á landi og er nýfarin að lyfta aftur eftir nokkurt hlé. Svo mála ég í frístundum og hef mjög gaman af því þótt sýning á verkum mínum bíði betri tíma,“ segir hún brosandi.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)