Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

1. júlí 2022

Vel heppnaðar ferðir um söguslóðir Reykjaness

Félagsfólk Lífeyrisdeildar Sameykis. Ljósmynd/Kristín Erna

Þrjár skipulagðar ferðir um Reykjanes með Lífeyrisdeild Sameykis er nú lokið. Uppselt var í allar ferðirnar þar sem fólk naut leiðsagnar Harðar Gíslasonar um svæðið. Alls voru farnar þrjár ferðir, 60 manns í hverri ferð. Félagsfólk hittist í félagamiðstöðinni á Grettisgötu 89 og þaðan var haldið af stað að Kleifarvatni í Krísuvík og jarðsaga þessa náttúruundurs sögð. Athygli gesta var vakin á því að ekkert ferksvatn rennur í né úr vatninu.

 

Humarsúpa og eldgos
Þá var haldið frá Krísuvík til Grindavíkur og snædd var hin fræga humarsúpa Bryggjunnar. Eftir kræsingarnar á veitingastaðnum Bryggjunni var ekið áleiðis vestur á Reykjanesið í kringum fjallið Þorbjörn sem hefur verið undir smásjá jarðfræðinga og eldfjallafræðinga vegna jarðhræringa undanfarið og eldgoss eins og alþjóð veit.

Ekið var áfram, til að skoða fleiri fyrirbæri meðfram vesturströndinni, að brúnni yfir Evrópu og Amerkíku, en samkvæmt jarðfræðikenningum þrýstast Evrasíu og Norður Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur eftir Íslandi.

 

„Hún skal bera nafnið Eldey“
Reykjanesviti var því næst heimsóttur og gestir fengu að heyra sögu hans og tilurð. Í fjarska stendur Eldey út í hafi og fengu fróðleiksfúsir að heyra söguna af því þegar söngkonan dáða, Ellý Vilhjálms, fæddist og hvernig hún fékk nafnið Eldey. Það vildi þannig til, að á þeim tíma sem hún kom í heiminn í Höfnum, tíðkaðist ekki að feður stæðu gapandi yfir fæðingum barna sinna. Faðir hennar gekk úr húsum á meðan á fæðingu hennar stóð og horfði til hafs. Við blasti Eldey og ákvað þá faðir hennar, Vilhjálmur Hinrik Ívarsson, að hún skyldi bera nafn eyjunnar að millinafni, en Ellý var skírð Henný Eldey.

Þaðan var ekið til sjávarþorpsins Hafna og Kirkjuvogskirkja skoðuð. Kirkjan var byggð 1860-1861. Stórbýli sveitarinnar munu hafa verið þrjú á miðöldum á þessum slóðum, Kirkjuvogur, Kotvogur og Kalmanstjörn. Þá áttu sókn að kirkjunni nokkur önnur stórbýli sem mestu hlunnindin höfðu eins Sandhöfn og Kirkjuhöfn og mun nafnið Hafnir vera dregið af þeim.

 

Allt er gott sem endar vel
Hin fagra Hvalsneskirkja sunnan Sandgerðis var skoðuð. Kirkjan er vígð 1887 og er staðsett á vestanverðu Reykjanesi og er kirkja Sandgerðinga. Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar kostaði kirkjubygginguna. Hún er byggð úr tillhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í næsta nágrenni. Að því loknu var ekið að Garðskagavita og byggðasafnið skoðað, molasopi þeginn og notið veðurblíðunnar undir vegg. Þá var tekið að líða á daginn og nokkrar garnir farnar að gaula.

Endað var á að heimsækja veitingastaðin Ránna þar sem boðið var upp á hlaðborð. Vertinn þar á bæ hélt uppi stuðinu með dansi og almennum hressleika sem því miður náðist ekki á mynd. Að loknum kvöldmat var klukkan farin að ganga að kvöldfréttatíma og því var ekið til baka að félagamiðstöðinni á Grettisgötu og ferðfélagar kvaddir með brosi á vör eftir vel heppnaða ferð um söguslóðir Reykjaness.

Ljósmyndir úr ferðunum má skoða hér.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)