Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

18. apríl 2024

Staða kjaraviðræðna rædd á trúnaðarmannaráðsfundi

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, setti fund í Trúnaðarmannaráði félagsins í gær sem haldinn var á Grand Hótel í Reykjavík. Fór hann yfir gang kjaraviðræðna við hið opinbera og sagði að þær gengju því miður ekki nógu hratt fyrir sig að sínu mati.

„Töluvert mikið púður hefur farið í umræður um útfærslur á Betri vinnutíma í dagvinnu hvað varðar kaffi- og matartíma en líka styttingu vinnuvikunnar.“

Þórarinn sagði að fyrirkomulag hvað varðar vaktahvatann hefði ekki gengið hnökralaust fyrir sig.


Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.

„Útfærsla vaktahvatans og vaktavinnufyrirkomulagsins er í endurskoðun í þessum kjaraviðræðum. Skipulagið þarf alltaf að taka mið út frá sanngirni og sátt á hverjum vinnustað fyrir sig. Annars er ekki mikill hraði í viðræðunum en þetta þokast og margt er að falla með okkur, en annað ekki,“ sagði Þórarinn.

Ingólfur Björgvin Jónsson, deildarstjóri kjaradeildar Sameykis, greindi frá stöðu sameiginlegra viðræðna Félags flugmálastarfsmanna ríkisins og Sameykis við Isavia, sem greint hefur verið frá í fréttum á vef Sameykis.


Ingólfur Björgvin Jónsson fór yfir stöðuna í kjaraviðræðum FFR og Sameykis við Isavia.

Jenný Stefánsdóttir, lögfræðingur hjá Sameyki, fór yfir réttindi hvað varðar orlofsmál. Hún hvatti trúnaðarmenn til að vera upplýsta um orlofsréttindi og skyldur atvinnurekenda hvað varðar orlofstöku. Þá fjallaði hún um þegar veikindi verða í orlofi og sagði að tilkynna ættu þau án tafar til vinnuveitanda.


Jenný Stefánsdóttir, lögfræðingur hjá Sameyki.

„Yfirmanni er skylt að verða við óskum starfsmanna um hvenær orlof skuli veitt enda verði því við komið vegna starfsemi stofnunar. Ákvörðun um sumarorlof skal liggja fyrir svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 31. mars ár hvert og tilkynnt starfsmanni með sannanlegum hætti, svo sem í tímaskráningarkerfi vinnustaðarins. Veikindi í orlofi þurfa að vera með þeim hætti að ekki sé hægt að njóta orlofsins vegna þeirra. Starfsmaður getur þá krafist orlofs á öðrum tímum og skal orlofið ákveðið í samráði atvinnurekanda við starfsmanninn eins fljótt og auðið er eftir að veikindum lýkur,“ sagði Jenný.


Gunnsteinn R. Ómarsson hvatti trúnaðarmenn til að fjölmenna í kröfugönguna 1. maí.

Skrifstofurstjóri Sameykis, Gunnsteinn R. Ómarsson, tók til máls á fundinum og hvatti alla trúnaðarmenn og fjölskyldur þeirra til að fjölmenna í kröfugönguna 1. maí og minnti á kaffiveitingar í boði Kvennakórs Reykjavíkur að loknum útifundi í BSRB-húsinu.

„Skemmtiatriðin verða ekki heldur af verri endanum, Bríet og Úlfur Úlfur munu skemmta okkur og svo heldur formaðurinn okkar ræðu ásamt Sólveigu Önnu hjá Eflingu. Mætum öll og sýnum samstöðu,“ sagði Gunnsteinn.


Jakobína Þóarðardóttir á fundinum.

Eftir kaffihlé var efnt til umræðna með þjóðfundarfyrirkomulagi sem Jakobína Þórðardóttir, deildarstjóri félagsdeildar, sá um til að ræða fyrirkomulag og skipulag trúnaðarmannaráðsfundanna og komu fram ýmsar hugmyndir sem unnið verður áfram með, eins og að funda í sitt hvoru lagi með dagvinnufólki og vaktavinnufólki og vinna markvisst með ákveðin málefni á fundunum í framtíðinni.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)