Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Niðurstöður eftir þáttum

Niðurstöður könnunarinnar eru byggðar á 9 ólíkum þáttum en þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana. Þáttagreining (factor analysis) var notuð til að greina þá undirliggjandi þætti sem eru mældir. Í megindráttum komu fram níu þættir: Stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnrétti. Vægi þáttanna í heildareinkunn ákvarðast af þáttagreiningunni en stofnunum er síðan raðað eftir heildareinkunninni.

Stjórnun

Flestir bera fullt traust til stjórnenda. Ein spurning í þættinum lítur að því hvort fólk beri traust til stjórnenda sinnar stofnunar. Niðurstöður sýna að tæplega 70% svarenda eru sammála því að þeir beri fullt traust til stjórnenda (sjá mynd 8).

 

Mynd 8: Ég ber fullt traust til stjórnenda stofnunarinnar. Allir (ríflega 13.300 svarendur),
ríki og sjálfseignarstofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki borgarinnar

Starfsandi 

Einkunn fyrir starfsanda er 4,20 og stendur einnig í stað milli ára. Mikill meirihluti svarenda gefur starfsanda „góða einkunn“ eða tæplega 85%. Starfsfólk sveitarfélaganna er ánægðast með starfsandann. Þá eru stjórnendur ánægðastir með starfsandann af starfsstéttunum sem eru mældar. Minnst er ánægjan með starfsandann hjá fólki í öryggis-, eftirlitsstörfum og ræstingum. Matið er byggt á þremur spurningum sem lúta að samskiptum og starfsanda, til dæmis hvort fólki komi vel saman við samstarfsfólk sitt og telji starfsanda afslappaðan og óþvingaðan. Nærri átta af hverjum tíu svarendum eru sammála því að starfsandi sé afslappaður og óþvingaður (sjá mynd 9).

Mynd 9: „Starfsandi er venjulega afslappaður og óþvingaður“ – Allir (ríflega 13.300 svarendur)

 

Launakjör 

Þátturinn „launakjör“ er byggður á spurning um um ánægju með laun, sanngirni launa og samanburði á eigin launum og launum annarra á sambærilegum vinnustöðum. Launakjör er sá þáttur könnunarinnar sem ávallt mælist lægstur, þ.e. með minnstu ánægjuna. Einkunn fyrir launakjör hækkar lítillega frá síðustu mælingu. Þátturinn mælist núna með einkunnina 2,85 en mældist 2,76 fyrir rúmu ári. Ríflega 30% gefa launakjörum „góða einkunn“ og er það heldur meira en í fyrri könnunum. Ein spurningin í þættinum er „ánægja með launakjör.“ Álíka margir eru ánægðir með launakjör sín og óánægðir (sjá mynd 10). Mynd 10: Ánægja með launakjör, Allir (ríflega 13.300 svarendur) Launakjör Vinnuskilyrði Karlar eru að jafnaði ánægðari með laun sín en konur og er svo einnig nú í þessari könnun. Yngstu svarendurnir eru ánægðari með laun sín en aðrir aldurshópar. Fólk í sölu- og afgreiðslustörfum og stjórnendur eru ánægðari með laun sín en aðrar starfsstéttir og starfsfólk minni stofnana er einnig ánægðara en starfsfólk stærri stofnana. Þetta er endurtekið mynstur í þessari könnun. Meiri ánægja með laun meðal minni stofnana kann að benda til að launasveigjanleiki sé almennt meiri í minni stofnunum en stærri. Starfsfólk fyrirtækja borgarinnar er langánægðast með laun ef launaþátturinn er skoðaður eftir atvinnurekanda.

Ein spurningin í þættinum er „ánægja með launakjör.“ Álíka margir eru ánægðir með launakjör sín og óánægðir (sjá mynd 10).

Mynd 10: Ánægja með launakjör. Allir (ríflega 13.300 svarendur)

 

Vinnuskilyrði 

Mat á vinnuskilyrðum er fengið með sjö spurningum sem snýr að ánægju með ýmsa hluti í rýminu, t.d.  loftgæði, lýsingu, hljóðvist o.fl. Einkunnin stendur því sem næst í stað frá síðustu mælingu. Ríflega þrír af hverjum fimm gefa vinnuskilyrðum „góða“ einkunn (mjög eða frekar góða, einkunn á bilinu 3,5-5,0) entæplega einn af hverjum tíu gefa vinnuskilyrðum „slæma“ einkunn (á bilinu 1 til 2,4). Karlar eru ánægðari með vinnuskilyrði en konur. Elsti svarendahópurinn er ánægðastur allra aldurshópa og stjórnendur ánægðastir allra starfsstétta. Þá er starfsfólk í minnstu stofnununum mun ánægðara en starfsfólk í þeim stærstu. Mest er ánægja með vinnuskilyrði hjá fyrirtækjum borgarinnar.

Sveigjanleik í vinnu 

Þátturinn um sveigjanleika í vinnu er samsettur úr fimm spurningum. Þar sem spurt er um til dæmis hvort fólk eigi auðvelt með að samræma vinnu og fjölskyldulíf, hvort fólk hafi svigrúm til að útrétta í vinnutímanum, hvort fólk geti farið úr vinnu með litlum fyrirvara og hvort það geti tekið sumarfrí á þeim tíma sem því hentar. Mat á sveigjanleika lækkar frá síðasta ári um 0,10 (mæld á kvarðanum 1-5). Flestir gefa þó sveigjanleika „góða“ einkunn eða um fjórir af hverjum fimm. Einungis um 5% gefa sveigjanleika „slæma“ einkunn.
Skrifstofufólk gefur sveigjanleika mun hærri einkunn en aðrar starfsstéttir en starfsfólk í öryggis-, eftirlitsstörfum og ræstingum gefa sveigjanleika lægstu einkunn starfsstétta.

Sameykisfélagar gefa sveigjanleika heldur hærri einkunn en þeir sem standa utan Sameykis. Þá er ánægja með sveigjanleika töluvert meiri hjá fyrirtækjum borgarinnar en öðrum. Þá dregur úr ánægju með sveigjanleika með aukinni stærð stofnana. Ein spurning sem tilheyrir sveigjanleikaþættinum er „Ég hef svigrúm til að útrétta í vinnutímanum þegar nauðsyn krefur.“ Einkunn þessarar spurningar lækkar um 0,18 (mæld á kvarðanum 1-5) frá því fyrir ári. Þeim sem segjast „alltaf“ eða „oftast“ hafa svigrúm til að útrétta í vinnutímanum fækkar um ríflega 7% milli ára (sjá mynd 11).

Mynd 11: „Ég hef svigrúm til að útrétta í vinnutímanum þegar nauðsyn krefur.“ Allir (ríflega 13.300 svarendur

 

Sjálfstæði í starfi 

Sjálfstæði í starfi er metið með fjórum spurningum. Spurningum eins og hversu góð tök starfsfólki finnst það hafa á starfi sínu, hversu góða yfirsýn það telur sig hafa yfir verkefni og þau áhrif sem fólk hefur í starfi sínu. Sjálfstæði í starfi mælist svipað nú og síðustu ár. Almennt mælist sjálfstæði í starfi mikið en nærri níu af hverjum tíu gefa sjálfstæði „góða“ einkunn (á bilinu 3,5 til 5).

Sjálfstæði í starfi vex með aldri, enda nær fólk yfirleitt betri tökum á starfi sínu með tímanum og oft getur fólk líka með tímanum aðlagað starfið smám saman að styrkleikum sínum. Stjórnendur gefa hærri einkunn á þættinum en aðrar starfsstéttir en sjálfstæði mælist lægst hjá starfsfólki sem starfar við öryggis-, eftirlitsstörf og ræstingar. Sjálfstæði í starfi er meira hjá starfsfólki minnstu stofnananna en í þeim stærstu.

Ímynd 

Mat á ímynd er fengið með þremur spurningum, t.d. hvort starfsfólk telji viðskiptavini hafa jákvæða afstöðu til stofnunarinnar. Hér er því um að ræða mat starfsfólks á ímynd fyrirtækisins. Mat á ímynd lækkar lítillega frá síðustu könnun en hún mælist jafnhá og 2019. Tveir af hverjum þremur svarendum gefa ímynd „góða einkunn“ (á bilinu 3,5 til 5) en einn af hverjum tíu svarendum gefa sinni stofnun slæma einkunn á ímynd. Elsti svarendahópurinn hefur jákvæðustu mynd af ímynd síns vinnustaðar af aldurshópunum. Af ólíkum starfstéttum hafa stjórnendur jákvæðustu mynd af ímyndinni. Starfsfólk lítilla stofnana hefur jákvæðari mynd af vinnustaðnum en starfsfólk stærri stofnana.

 

Ánægja og Stolt

Mat á ánægju og stolti er byggt á fjórum spurningum, þ.e. ánægju með starfið, líðan í starfi, hvort viðkomandi er tilbúin(n) til að mæla með stofnuninni og hvort viðkomandi er stolt(ur) af stofnuninni. Einkunnin  lækkar lítillega frá síðustu mælingu en einkunnin er enn góð. Ríflega átta af hverjum tíu gefa ánægju og stolti „góða“ einkunn (einkunn á bilinu 3,5 til 5). Konur gefa þessum þætti lítið eitt hærri einkunn en
karlar. Stjórnendur eru lang ánægðastir og stoltastir af öllum starfsstéttunum sem er skoðaðar en það
dregur úr ánægju og stolti eftir því sem vinnustaðurinn stækkar. Meiri ánægja og stolt er hjá fyrirtækjum
borgarinnar og sveitarfélögum en hjá ríki og sjálfseignarstofnunum.

 

Jafnrétti 

Jafnréttisþátturinn byggir á sex spurningum sem snúa að jafnrétti, þá bæði almennt um jafnrétti en einnig jafnrétti kynjanna auk spurningar um fjölbreytni starfsmannahópsins. Jafnréttisþátturinn er sá þáttur sem hefur hækkað mest síðan 2016. Einkunn á þættinum stendur í stað og hefur hún verið svipuð síðustu þrjú ár. Nærri níu af hverjum tíu gefa jafnrétti „góða“ einkunn á vinnustaðnum (einkunn á bilinu 3,5 til 5). Karlar gefa jafnrétti mun hærri einkunn en konur og er það iðulega svo í spurningum um jafnrétti, þ.e. að karlar telja frekar að jafnrétti sé til staðar en konur, jafnt á vinnustaðnum sem og í samfélaginu almennt. Stjórnendur eru lang ánægðastir með jafnrétti ásamt starfsfólki í sölu- og afgreiðslustörfum. Starfsfólk fyrirtækja borgarinnar er langánægðast með stöðu jafnréttis af þeim vinnuveitendum sem eru skoðaðir en starfsfólk annarra stofnana er ekki eins jákvætt. Starfsfólk minnstu stofnananna er ánægðara með stöðu jafnréttis en starfsfólk stærstu stofnananna.

Hvað segja félagsmenn Sameykis?
Ef skoðuð eru svör annarsvegar Sameykisfélaga og svo þeirra sem ekki tilheyra Sameyki kemur í ljós að svör Sameykisfélaga eru lítið eitt jákvæðari en svör annarra svarenda (sjá mynd 12). Einnig má sjá að ef Sameykisfélagar eru skoðaðir sérstaklega að litlar jákvæðar breytingar verða á flestum þáttanna, þó með þeirri undantekningu að veruleg jákvæð breyting varð á mati Sameykisfélaga á launakjörum (+0,24) milli ára. Þessar breytingar verða ekki á safninu í heild, heldur eru bundnar við Sameykishópinn. Á mynd 12 má sjá samanburð á niðurstöðum allra þátta eftir því hvort svarendur tilheyra Sameyki eða ekki. Eins og sjá má á myndinni er ekki ýkja mikill munur á svörum Sameykisfélaga og þeirra sem svara sem ekki tilheyra Sameyki en þó má sjá að félagar í Sameyki eru örlítið sáttari með suma þætti á vinnustaðnum, sérstaklega sveigjanleika vinnu. Sameykisfélagar gefa þeim þætti einkunnina 4,12 en þeir sem ekki eru í Sameyki gefa þættinum að meðaltali einkunnin
3,96.

Mynd 12: Einkunnir allra þátta – Sameykisfélagar (tæp 3.800 svör) og öll önnur svör borin saman (rúmlega 9.500 svör)
– samtals um 13.300 svör

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)