Ávinningur vinnustaðar af því að hlúa að starfsþróun sinna starfsmanna er mikill. Þar má meðal annars nefna minni starfsmannaveltu og ánægðari starfsmenn sem eru tilbúnir til að leggja meira á sig en ella. Einnig kemur starfsþróun í veg fyrir stöðnun og kulnun í starfi og stuðlar að frumkvæði. Vinnustaður þar sem virk starfsþróunaráætlun er til staðar skapar umhverfi sem stuðlar að faglegri þróun starfsmanna og auknum árangri.
Stjórnandi á vinnustað getur sótt um styrk vegna starfsþróunarverkefna fyrir félagsmenn Sameykis. Um er að ræða þrjá mismunandi sjóði sem samið hefur verið um í mismunandi kjarasamningum.
- Mannauðssjóður er fyrir Akraneskaupstað, Dvalarheimilið Höfða, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Slökkviðlið höfuðborgarsvæðisins og Seltjarnarneskaupstað. Sjá nánar
- Starfsmenntunar- og starfsþróunarsjóður er fyrir Akraneskaupstað, Faxaflóahafnir, Félagsbústaði, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Strætó og Seltjarnarneskaupstað.
- Þróunar- og símenntunarsjóður er fyrir Ás styrktarfélag, Fríhöfn, Isavia, Matís, Rarik, ríkisstofnanir, SÁÁ, SFV, sjálfseignastofnanir, Skálatún og sveitarfélög.
Þá geta forsvarsmenn vinnustaðar þíns leitað til Starfsmenntar sem veitir stofnunum fjölbreytta þjónustu til að greiða leið lærdóms á vinnustað og efla mannauð stofnana. Hægt er að sérsníða námsleiðir, fá mannauðsráðgjafa að láni og panta farandfyrirlestra um fjölbreytt viðfangsefni. Þjónustan er án endurgjalds fyrir alla félagsmenn Sameykis, sem áður tilheyrðu SFR, óháð vinnustað. Einnig fyrir þá félagsmenn Sameykis sem áður tilheyrðu St.Rv. og eru ríkisstarfsmenn sem og þeir sem eru starfsmenn Akranesskaupstaðar, Seltjarnarness, Dvalarheimilisins Höfða, Innheimtustofnunar sveitarfélaga og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Allar nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Starfsmenntar í síma 550-0060.