Í samstarfi við Félagsmálaskólann er boðið upp á trúnaðarmannanám sem er byggt á vottaðri námsskrá þar sem 12 námsþættir eru ákvarðaðir útfrá þörfum hópsins. Einnig býður skólinn upp á styttri námskeið um málefni líðandi stundar, réttindi og kjör. Á haustönn 2023 býður Félagsmálaskólinn upp á trúnaðarmannanámið ýmist í gegnum staðnám, fjarnám, blandað nám og vefnám. Hægt er að taka námsþættina eftir hentisemi, þarf ekki að byrja á 1 o.s.frv. Í staðnáminu eru stundum keyrðir tveir námsþættir saman og þau námskeið eru þá í 2 daga. Líkt og áður eru ákveðnir námsþættir í staðnáminu í samstarfi við BSRB.
- Þjóðfélagið og vinnumarkaðurinn (1. hluti)
- Trúnaðarmaðurinn; starf hans og staða (1. hluti)
- Samskipti á vinnustað (2. hluti)
- Starfsemi félagsins, kjarasamningar og sjóðir (2. hluti)
- Lestur launaseðla og launaútreikningar (3. hluti)
- Túlkun talna - hagfræði (3. hluti)
- Almannatryggingar og lífeyrissjóði (4. hluti)
- Vinnuréttur (4. hluti)
- Vinnueftirlit - vinnuvernd (5. hluti)
- Sjálfsstyrking (5. hluti)
- Samningatækni (6. hluti)
- Að koma máli sínu á framfæri (6. hluti)
Staðnám: Kennsla fer fram í sal/stofu þar sem þátttakendur og kennarar mæta á ákveðnum tíma. Kennari flytur erindi, er með glærur og önnur gögn sem deilt er með þátttakendum. Umræður, verkefnavinnu og hópastarfi.
Fjarnám: Kennsla/námskeið er á ákveðnum tíma þar sem nemendur og kennari skrá sig inn á fjarfund (Zoom). Kennari flytur erindi, er með glærur og önnur gögn sem deilt er með þátttakendum. Möguleiki á umræðum, verkefnavinnu og hópastarfi. Kennsla er í raun hefðbundin að öðru leyti en því að hún fer fram í fjarfundi.
Blandað: Kennsla/námskeið fara fram í sal/stofu og á fjarfundi (Zoom) á sama tíma. Kennari er í sal/stofu en þátttakendur geta valið hvort þeir mæta á staðinn eða taka þátt í gegnum fjarfundabúnað. Kennari flytur erindi, er með glærur og önnur gögn sem deilt er með þátttakendum. Möguleiki á umræðum, verkefnavinnu og hópastarfi.
Vefnám: Námskeið aðgengilegt í LearnCove vefumhverfinu. Þátttakandi skráir sig og hefur aðgang að námsgögnum og kennsluefni í rafrænu umhverfi/LearnCove. Horft er á myndbönd, texti lesinn, gagnvirk verkefni unnin allt á þeim tíma sem viðkomandi hentar best. Gagnvirkni í kerfinu tryggir að einum námsþætti sé lokið áður en farið er í þann næsta. Þátttakendur hafa aðgang að kennara /starfsmanni í gegnum síma og tölvupóst. Almennt er miðað að því þátttakandi ljúki námskeiði á innan við 30 dögum frá skráningu.
Félagsmálaskóli alþýðu (FA) er rekinn af BSRB og ASÍ en meginmarkmið skólans er að auka þekkingu talsmanna stéttarfélaga og efla þá í starfi til að gera þá enn betur í stakk búna til að vinna að bættum lífskjörum launafólks. Unnið er eftir námsskrá sem viðurkennd hefur verið af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu en samtals er námið 96 kennslustundir. Námsskrá fyrir nám trúnaðarmanna má nálgast hér.