9. júní 2022
Háhitareykt kjúklingataco
Þetta Taco á frekar ættir að rekja í Mosfellsbæinn en til Mexíkó.
Trixið er þetta: Þið eruð að heitreykja við háan hita og kjúklingurinn er ekki tilbúinn þegar hann nær 72 gráðu hita eins og venjulega heldur erum við viljandi að ofelda kjúklinginn til að rífa hann svo niður.
Eftir Harald Jónasson
Þetta Taco á frekar ættir að rekja í Mosfellsbæinn en til Mexíkó. Kjúklingalæri heitreykt á grilli í rúman klukkutíma. Borið fram í úrklippu af hveititortíu með fersku þurru hrásalati og kóríander-hvítlaukssósu og er tilvalið að skella í sig áður en farið er í 1. maí kröfugöngu.
Þurrt hrásalat
Skerið slatta af blöðum eða kannski um ¼ af hvítkálshaus í þunnar ræmur, hálfan lauk líka þunnt skorinn og svo eins og einn chilialdin. Því næst er uppáhalds súru gúrkukrukkan tekin fram og 5-10 skífur, eftir smekk, saxaðar smátt. Þetta er allt hrært saman í skál ásamt klípu af salti og slettu af safanum af gúrkunum. Ekki stórri slettu, þetta á að vera frekar þurrt. Þetta er svo geymt í að minnsta kosti klukkutíma, best yfir nótt. Súru gúrkurnar og saltið draga vökva úr lauknum og hvítkálinu sem mýkist og blandast allt í ferskt draumasalat.
Hvítlauks- kóríandersósa
Majónes, fimm matskeiðar eða svo blandað við tvær af rjómaosti, eitt kreist hvítlauksrif og lúkufyllli af söxuðu kóríander. Þeim sem finnst kóríander bragðast eins og sápa nota steinselju eða eitthvað annað grænt sem þeim þykir gott. Blandað saman með safa úr hálfu lime eða svo ásamt smá af berkinum. Skafa það af með fínu rifjárni og passa að ekkert af þessu hvíta sem er undir þessu græna komi með. Það er biturt. Gott að láta sósuna standa í að minnsta kosti klukkutíma til þess að þetta blandist allt saman. Fínt líka að gera daginn áður.
Reykur er bragð
Til að reykja á grilli þarf eitthvað sem skapar reyk og einfaldast er að verða sér út um harðviðarspæni eða kubba. Það er til í öllum búðum sem selja grill. Ekki nota neitt úr garðinum. Þeir sem ætla að reykja nágrennið í spað í allt sumar geta keypt sérstök box til að setja spæninn í en þeir sem rétt eru að dýfa stóru tánni í reykinn pakka þeim inn í álpappír með nokkrum götum á. Sumir leggja viðinn í bleyti en hver nennir því? Passa bara að það kvikni ekki mikið í og þá erum við að dansa.
Kjúllinn
Kjúklingalæri, einn bakki eða svo, eru smurð örlítið með hlutlausri olíu og svo hjúpuð í blöndu af eins og matskeið af chilidufti, pipar og salti, teskeið af cummindufti, laukdufti, hvítlauksdufti og koríanderfræjum í duftformi. Herlegheitin eru svo sett á sirka 150-180 gráðu heitt grill á óbeinan hita. Það þýðir að hitinn er ekki undir matnum heldur í við hliðina. Hægt að gera bæði á gas- og kolagrilli. Reykboxið eða álpappírspokinn er hins vegar settur beint á eldinn til að skapa reykinn.
Trixið er þetta: Þið eruð að heitreykja við háan hita og kjúklingurinn er ekki tilbúinn þegar hann nær 72 gráðu hita eins og venjulega heldur erum við viljandi að ofelda kjúklinginn til að rífa hann svo niður. Kjúklingalæri þolir vel að vera ofeldað. Þess vegna notum við ekki bringur í þennan rétt. Kjúklinginn þarf að reykja í að minnsta kosti hálftíma og eldast í um einn og hálfan tíma.
Þegar kjúklingurinn er klár þarf að taka kjötið af beinunum og passa litlu mjóu leiðinlegu beinin. Rífa svo og tæta í litla bita. Saxa svo skinnið sem að ætti að vera pínu sigt en samt smá krispí og alveg fullt af bragði. Blanda svo öllu saman og raða á tacoið. Kjúklingurinn neðst, hrásalatið og svo sósan ofan á. Fullkomið til að starta grillsumrinu mikla.
Tortillurnar
Það er næsta ómögulegt að fá góða hveititortillu út í búð á þessu skeri. Best er að búa þær til sjálfur en það næstbesta er að létt grilla þær. Svona til að fela svampáferðina og efnabragðið. Í taco þarf litlar tortillur og það besta er að kaupa stórar úti í búð og skera svo annað hvort tvær eða þrjár litlar úr henni. Grilla svo og geyma í álpappír til að halda mýktinni þangað til kjúklingurinn er klár.
Hari stappar í matargatið.