6. febrúar 2023
Heitt kakó
Snilldin við að búa til sitt eigið duft er að hlutföllin verða að smekksatriði. Góður staður til að byrja á eru þrír desilítrar af mjólkurdufti, tveir af sykri og einn af kakó. Teskeið eða svo af salti og hálf af maísmjöli. Blanda þessu saman og bingó & Gröndal! Það er komið kakóduft.
Eftir Harald Jónasson
Í kuldatíðinni undanfarið er fátt betra en að dreypa á heitu kakói – hvort sem það er eftir að hafa skundað á gönguskíðunum yfir hálfa Hólmsheiðina eða einfaldlega þegar ekki er þorandi undan teppinu.
Suma hluti borgar sig ekki endilega að reyna í eldhúsinu heima. Kakóduft er þó eitt af því sem er alveg þess virði að prófa – alla vega einu sinni. Það flóknasta við duftgerðina er að verða sér úti um mjólkurduft. Það er þó ekki flóknara en svo að rölta út í næstu asísku búð og kaupa það. Sennilega til í þeim austur-evrópsku líka.
Þegar heim er komið með duftið er að sækja kakóið, sykur, salt og helst maísmjöl líka. Þeir sem vilja prófa mið-amerísku útgáfuna ná í cayenne-kryddstaukinn sem aldrei er notaður en var óvart keyptur í staðinn fyrir paprikuduft.
Snilldin við að búa til sitt eigið duft er að hlutföllin verða að smekksatriði. Góður staður til að byrja á eru þrír desilítrar af mjólkurdufti, tveir af sykri og einn af kakó. Teskeið eða svo af salti og hálf af maísmjöli. Blanda þessu saman og bingó & Gröndal! Það er komið kakóduft.
Þeir sem vilja svo koma kakógerðinni upp um borð rista aðeins mjólkurduftið í bakarofninum. Dreifa duftinu á bökunarplötu og baka við 175 gráðu hita í 15 mínútur eða svo. Hræra reglulega í og passa að ekkert brenni. Duftið fær á sig karamellublæ og bragðið magnast upp í 11 – hvorki meira né minna.
Til að hella svo loks upp á bolla þarf 2–3 matskeiðar af dufti á móti einum desilítra af vatni. Líka smekksatriði. Búa til smá mauk í botninn með því að hella fyrst örlitlu af heitu vatni og hræra. fylla svo á bollann. Þá hleypur ekkert í kekki. Rjómi eða sykurpúðar eru svo vinsæl ofan á en ekki vanmeta að skutla léttri smjörklípu út í drykkinn – og náttúrulega gleymda cayenne-duftinu.