Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. apríl 2023

Kjúklingaborgari með beikonbotni

Kjúklingahakk eða kalkúnahakk eins og í þessu tilfelli er ekki fitumesta kjöt í heimi og þar af leiðandi ekki það bragðmesta heldur. Þessu tvennu er bjargað með því að nota beikon sem fitugjafa og krydd og jurtir til bragðeflingar.

„Það er að sjálfsögðu mælt með að osta en ekki nota bara venjulegan brauðost. Osturinn þarf helst að hafa appelsínugulan blæ til að fá borgaraheimild. Cheddar eða jafnvel amerískur ostur passar einkar vel á plattann.“

Eftir Harald Jónasson

Það er eitt sem sárlega vantar í matvörubúðir á Íslandi, ferskt alifuglahakk. Hakkaður kjúklingur eða kalkúnn er matvara sem er bæði holl og yfirleitt á sanngjörnu verði. Seld í öllum löndum sem við berum okkur saman við og nú þegar alifuglakjöt er búið að velta lambakjöti af stallinum sem mest framleidda afurðin er ekkert í vegi fyrir að ferskt kjúklingahakk verði á boðstólum hér á landi. Alifuglahakk má reyndar stundum finna frosið í verslunum, sér í lagi í kring um stórhátíðir, og þegar það dúkkar upp er kjörið að gera kjúklingaborgara með beikonbotni.

Kjúklingahakk eða kalkúnahakk eins og í þessu tilfelli er ekki fitumesta kjöt í heimi og þar af leiðandi ekki það bragðmesta heldur. Þessu tvennu er bjargað með því að nota beikon sem fitugjafa og krydd og jurtir til bragðeflingar. Svona gerum við þetta:
Kryddið sem fer í borgarann er algerlega smekksatriði. Laukduft, hvítlauksduft, kóríanderkrydd, paprikukrydd, chiliduft, salt og pipar er algerlega klassískt. Svo má æfa sig í suðrænni kryddblöndum sem innihalda krydd á borð við cumin (broddkúmen) eða smá negul. Allt eftir þori og smekk. Kryddjurtir, þurrkaðar eða ferskar, geta verið steinselja, kóríander, oregano, rósmarin eða timjan. Það er hægt að blanda þessu öllu saman og sundur.

Í eitt kílógramm af hakki sem endaði í þessa borgara hérna á myndinni til hliðar fór teskeið af svörtum pipar, teskeið af fínu salti, sama magn af laukdufti og paprikukryddi og hálf teskeið af hvítlauks- og chilidufti. Tvær teskeiðar fóru svo af þurrkaðri steinselju. Það er alveg sérstaklega gott að nota eitthvað af þurrkuðum kryddjurtum í kjötdeigið, þó ekki nema til að sjá hvort kryddið sé ekki að blandast vel í hakkið. Talandi um það er um að gera að blanda því vel saman. Þannig að það „farsist“ pínulítið. Verði örlítið klístrað.

 


Kjúklingaborgari Hara.

Næsta skref er að móta platta. Þessir plattar mega vera sæmilega þykkir og stórir. Rúmlega 150 grömm hver. Þeir munu minnka örlítið við eldun. Næst er að skera beikon niður í litla bita eða jafnvel bara kaupa kurl. Þrýsta því svo undir annan helminginn. Steikja herlegheitin svo á rétt rúmlega meðalheitri pönnu, fyrst með beikonhliðina niður til að mynda skorpu. Á meðan kryddum við topphliðina aðeins meira – en bara með ferskmöluðum pipar og salti. Munum þó með saltið að það fór salt í farsið og beikon er brimsalt. Ef þetta eru þykkir plattar taka þeir þó vel við salti.Steikja svo á „kryddhliðinni“. Séu þetta svo sæmilega þykkir gaurar er um að gera að steikja tvisvar á hvorri hlið. Kjöthitamælir heimilisins þarf svo að skríða yfir 70 gráður á celsíus. Ef enginn er kjötmælirinn er um að gera að steikja plattann bara nógu skrambi lengi. Alifuglahakk er úr brúnu kjötdeildinni og tekur lengi og vel við hita án þess að þorna alveg upp.

Að osta eða ekki osta
Það er að sjálfsögðu mælt með að osta en ekki nota bara venjulegan brauðost. Osturinn þarf helst að hafa appelsínugulan blæ til að fá borgaraheimild. Cheddar eða jafnvel amerískur ostur passar einkar vel á plattann. Á meðan borgarinn hvílir svo aðeins, og já hann þarf að hvíla sig aðeins eftir hitann, þá er um að gera að glóða brauðið á sömu pönnu. Ef til er lok á þessa ágætu pönnu er best að glóða brauðið örlítið, skvetta svo smá vatnsdropa á pönnuna og loka svo gufuna inni með lokinu. Verðlaunin eru dúnmjúkt brauð með stökkri miðju. Meðlætið getur verið eins og á venjulegum hamborgara; mæjó og sinnep á sitt hvort brauðið með lauki, káli og tómötum og súrum gúrkum á milli. Það þarf þó ekki að stoppa þar, hvítlaukssósa væri algerlega stórkostleg og svo er hægt að dressa hann upp í sunnudagsfötin. Hræra í brúna sósu, skella í herlegheitin gulum eða grænum baunum og rauðkáli. Allt eftir smekk og stemningu.