25. september 2024
Einfalt eggjasalat
Einfalt eggjasalat. Ljósmynd/Hari
Góð egg eru grundvallarþáttur og kappsmál að mæjónesið sé líka úr efstu hillunni.
Eftir Harald Jónasson
Ein af grunnstoðum skólalífsins fram undan er að hafa aðgang að góðu nesti. Eggjasalat er grunnurinn að góðu salatbrauði – sem er grunnurinn að góðu nesti.
Til að gera einfaldan rétt eins og eggjasalat á brauð þarf hráefnið að vera gott. Góð egg eru grundvallarþáttur og kappsmál að mæjónesið sé líka úr efstu hillunni. Best er auðvitað að búa til sitt eigið en það er kannski fulllangt gengið. Margir eru hrifnir af sætu mæjónesi frá Japan. Það er ljómandi ljúffengt í eggjasalat og það er meira að segja til japönsk útgáfa af eggjasalati – en það er önnur saga.
Salatgerðin
Byrjunin er að sjóða egg. Það eru til ansi margar leiðir til að gera það og getur verið vesen, enda einföld eldamennska oft erfiðust. Suðutíminn fer líka svolítið eftir því hversu stór eggin eru og hve köld þau eru í upphafi eldamennskunnar. Betra að elda eggin aðeins minna en meira.
Ein aðferð er að setja egg í sjóðandi vatn og sjóða í 10 mínútur. Önnur er byrja með kalt vatn, ná upp suðu og sjóða í sex mínútur, slökkva þá undir og bíða í aðrar 6 mínútur. Kæla hvoru tveggja strax með köldu vatni.
Á meðan eggin eru að sjóða er tilvalið að saxa örlítið af lauk mjög fínt. Bleyta laukinn upp í sirka einni teskeið af ediki og láta pæklast á meðan eggin sjóða. Þessi aðgerð gerir tvennt; dregur úr hráu laukbragðinu og færir okkur sýru til að vinna á móti mæjónesinu. Þarf ekki að skera mikinn lak. Ein kúfuð teskeið dugir.
Fyrst þversum og svo langsum
Þegar búið er að kæla eggin og klæða þau úr skurninni þarf að skera þau. Flestir eiga eggjaskera og það er tilvalið að saxa þau með honum. Fyrst þversum og svo langsum svo útkoman verði nettir bitar. Ef enginn er eggjaskerinn er hægt að nota gróft rifjárn eða saxa eggin gróft með hníf og kremja svo með höndunum. Allt í lagi þótt rauðan verði að mauki svo lengi sem hvítan helst sæmilega heil.
Næst er að hræra mæjónesi út í eggin. Sirka þremur sæmilega kúfuðum matskeiðum á móti sex eggjum. Þá fer edikblandaður laukurinn út í og krydd. Hálf teskeið af salti eða eftir smekk og einn þriðji af hvítum pipar. Sama magn af hvítlauksdufti. Gott að flækja ekki grunnuppskriftina um of en auðvitað hægt að bæta út í alls konar kryddi og jurtum. Að síðustu fara nokkrar slettur af eldpiparsósu eða góðu Dijon-mæjónesi. Hræra vel saman og þá er allt klárt og ekkert eftir nema að rista beyglu eða hvítasta brauð hússins.
Salatið verður svo bara betra eftir því sem það eldist í ísskápnum, innan skynsamlegra marka þó. Ef það endist meira en þrjá daga þá er gott að byrja upp á nýtt og þá þarf líka greinilega að breyta uppskriftinni.
Uppskrift
6 stk meðalstór egg
3 msk mæjónes
1 tsk saxaður laukur
1 tsk edik
1/2 tsk eldpiparsósa
1/2 tsk salt
1/3 tsk hvítur pipar
1/3 tsk hvítlauksduft
Fleiri skemmtkilegar mataruppskriftir úr þætti Hara, Stoppað í matargatið, má sjá hér.