Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

22. nóvember 2024

Súkkulaðimús með franskættaðri vanillusósu

Súkkulaðimús með franskættaðri vanillusósu. Ljósmynd/Hari

„Fátt er betra en að fela sig fyrir stórfjölskyldunni með smá súkkulaði til að seðja sárustu sætutönnina. Dökk súkkulaðimús með vanillukremi er svo næsta borð þar fyrir ofan. Best að borða í einrúmi – helst í myrku herbergi.“

Eftir Harald Jónasson

Fátt er betra en að fela sig fyrir stórfjölskyldunni með smá súkkulaði til að seðja sárustu sætutönnina. Dökk súkkulaðimús með vanillukremi er svo næsta borð þar fyrir ofan. Best að borða í einrúmi – helst í myrku herbergi.

Súkkulaðimús er gjarnan flokkuð sem barnaeftirréttur. Þessi mús á þó meira skylt við súkkulaðisósu heldur en súkkulaðibúðing úr poka. Ofan á búðinginn er svo sett vanillukrem og ofan á það kemur svo piparkökumulningur. Svona rétt til að brjóta upp áferðina og öskra inn jólin.


Súkkulaðimús Hara.

 

Jólamús
Til að gera þessa mús þarf að þeyta saman eggjarauður og sykur yfir vatnsbaði. Vatnsbað er útbúið þannig að rétt rúmlega botnfylli af vatni er sett í lítinn pott og yfir pottinn fer skál úr gleri eða stáli sem ekki snertir vatnsyfirborðið. Hráefnið fer ofan í skálina. Passa að hræra eggin stöðugt svo þau breytist ekki í hrærð egg. Hræra þangað til blandan sirka tvöfaldast að rúmmáli. Þá fer súkkulaðið út í. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað saman við eggjablönduna fer smá rjómadreitill út í ásamt vanilludropum, 30 ml eða svo.

Þegar hér er komið sögu er um að gera að leika sér örlítið með hversu fullorðins þessi mús á að vera. Hægt að bæta nokkrum dropum af kaffi eða skipta vanillunni út fyrir jólalegan líkjör. Næst er að þeyta rjóma í skál og blanda saman rólega við súkkulaðiblönduna. Gott að blanda saman 1/4 af rjómanum fyrst til að kæla blönduna og gera hana meðfærilegri. Þá fer restin af rjómanum út í, varlega til að halda músinni léttri.

Setja músina í skál eða glös og setja inn í kæliskáp. Gott að geyma í kæli í minnst tvo tíma. Hægt að gera daginn áður.

 

Enskur rjómi
Í franska eldhúsinu kallast vanillusósa af einhverjum ástæðum enskur rjómi, Crème Anglaise. Rjóminn sá er látinn þykkna með því að hita vanilluleginn rjóma og eggjarauður upp í nákvæmlega 82 gráður á celsíus. Sá fransk/enski er þó full þunnfljótandi og því er gott að þykkja sósuna örlítið með maísmjöli.

Hita rjómabland að suðu. Ekki sjóða og alls ekki brenna við. Ef það er til vanillustöng á heimilinu fer hún út í blönduna á þessu stigi. Skafa fræin úr belgnum og skutla bæði þeim og stönginni sjálfri út í rjómablandið.

Á meðan blandan hitnar eru eggjarauður léttþeyttar saman við sykur. Þegar eggin eru orðin ljós og samhangandi er maísmjölið hrært saman við. Næst þarf að blanda saman heitum vökvanum og eggjahrærunni. Ef notaður var vanillubelgur þarf að sigta hann frá.


Setja vanillukremið yfir rétt fyrir framburð og strá piparkökumylsnu yfir fyrir framan gestina.

 

Til að koma í veg fyrir að eggin hlaupi í kekki þarf að tempra þau. Það er gert með því að hræra slettu eða tveimur af heitu rjómablandinu saman við eggjablönduna. Þegar rjómamjólkin og eggin eru búin að samlagast fer sú blanda út í pottinn með rjómablandinu heita.

Hræra soppuna vel með písk og skipta svo yfir í sleif eða sleikju. Vanilludropar, mauk eða hvers kyns vanilluvörur aðrar en heill belgur fer hér út í pottinn. Hræra stöðugt í pottinum á miðlungs hita. Hreinsa botninn og alla króka og kima pottsins. Hér er gott að vera með sæmilega þykkan pott og ekki sakar, fyrir óvana, ef hann er húðaður með tefloni eða álíka óhollri húð. Hita blönduna þangað til hún byrjar að þykkna sæmilega án þess þó að sjóða.

Í uppskriftinni er notuð ein matskeið af maíssterkju en það má sleppa henni fyrir þynnri sósu og þá er gott að nota eingöngu rjóma. Nú eða auka maísmagnið örlítið fyrir extra þykka sósu. Þá er jafnvel hægt að komast upp með að nota bara bláa mjólk.

Kæla í að minnsta kosti tvo tíma en gott að gera sósuna í hádeginu ef það á að borða hana um kvöldið. Allt í lagi daginn áður en krafturinn úr vanillunni byrjar að dvína eftir 8 tíma eða svo.

Taka músina út hálftíma áður en hún er borin fram því hún getur verið svolítið þétt ísköld. Setja vanillukremið yfir rétt fyrir framburð og strá piparkökumylsnu yfir fyrir framan gestina – nú eða inni í bílskúr í felum fyrir fjölskyldunni.


Súkkulaðimús
Súkkulaði (50% kakó) 150 gr.
Rjómi 150 ml. (30ml/120ml)
Eggjarauður 4 stk. (meðalstór egg)
Vanilludropar 1 msk.
Salt ¼ tsk.
70 grömm af okkar fínasta danska sykri


Vanillusósa
250 ml nýmjólk
250 ml matreiðslurjómi
Eggjarauður 4 stk. (meðalstór egg)
Sykur 60 gr.
Maísmjöl 1 msk.
Vanilludropar 1 msk. / vanillustöng 1 stk.