19. febrúar 2025
Hinn fullkomni mið-viku-matur

Þegar malltíminn er liðinn er kjúklingurinn veiddur upp úr og kveikt á ofninum. Stilla á hæsta hita. Blástur og grill ef það er í boði. Grindin fer í næst lægstu stöðu.. Ljósmynd/Hari
„Nú þarf að huga að kjúklingnum. Hann ætti að vera soðinn í gegn og beinin búin að gefa góðan kraft í soðið. En hann lítur sennilega illa út. Fölur og teygður. Við björgum því með því að búa til smá kryddolíu með kryddklípunni sem við geymdum í upphafi. Bleyta upp í kryddinu með því að nappa smá vökva, tveimur matskeiðum eða svo úr pottinum sem verið er að sjóða niður í sósugrunninn og svipuðu magni af olíu. Hræra í soppu og pensla á kjúklinginn.“
Eftir Harald Jónasson
Kjúklingur og hrísgrjón er hinn fullkomni mið-viku-matur. Það er hægt að hreinsa úr grænmetisskúffunni og nota það krydd sem til er. Cumminkrydd, ekki rugla við kúmen, í bland við paprikukrydd og smá chili sendir okkur sem alist hafa upp hér á Fróni beint til Miðausturlanda. En með basilíku, hvítlauk og tómatdós fer rétturinn til Suður-Evrópu. Eldamennskan er samt eins í hvert skipti. Það þarf pönnu sem til er á þétt lok eða þykkan og stóran pott.
Grunnhráefnið er laukur, hvítlaukur, tómatpúrra og kjúklingur á beini. Bringur henta ekki vel en læri og lærleggir einstaklega vel. Eitt ódýrasta próteinið í búðinni og erfitt að ofelda. Beinin eru bráðnauðsynleg. Þau styrkja soðið og úr þeim sogast kollagen sem umbreytist í gelatín við suðu.
Laukur og grænmeti eru skorin í strimla, ég átti hálfa papriku en gulrætur og annað hitaþolið grænmeti virkar líka vel. Svita grænmetið við miðlungshita í hlutlausri matarolíu. Þegar laukurinn er að verða glær er hægt að bæta söxuðum hvítlauk og tómatpúrru út í. Steikja með grænmetinu í hálfa til eina mínútu. Bæta smá olíu ef lítið er eftir. Þá fer kryddið út í og því velt um pönnuna í nokkrar sekúndur. Gott að geyma nokkur kryddkorn til að búa til kryddolíu í lokin á eldamennskunni.
Næst fer út í púrtvínssletta og smá af heitu vatni, sojasósu og kjötkrafti. Ef enginn er til púrtarinn er hægt að nota léttvín, smá mysu eða malt. Bara eitthvað súrsætt. Skafa botninn og skutla kjúklingnum út í. Velta honum aðeins upp úr kryddjukkinu, rétt til að ná mesta hrollinum úr.
Þá heitt vatn yfir allt. Ekki vera hrædd við að sjóða kjúkling, þetta verður allt í lagi, við brúnum hann í kryddolíu á eftir. Láta malla undir loki við miðlungs hita í 40 mínútur eða svo.
Grjón og hiti
Þegar malltíminn er liðinn er kjúklingurinn veiddur upp úr og kveikt á ofninum. Stilla á hæsta hita. Blástur og grill ef það er í boði. Grindin fer í næst lægstu stöðu.
Eftir í pottinum ætti að vera sirka sama magn af vökva og var í upphafi, 750 ml eða svo. Smá hefur gufað upp en kjúklingurinn ætti að hafa gefið á móti. Nú þarf að sigta 250 ml af soði í pott til að nota í sósugrunn. Sjóða soðið niður um helming svo það verði extra kröftugt.
Ef reiknikunnáttan klikkar ekki ættu þá að vera um 500 ml af vökva eftir. Passar akkúrat fyrir 250 gr af hrísgrjónum. Þau fara út í og lokið aftur á. Malla eftir leiðbeiningum. Plús/mínus 20 mínútur alla jafna.
Nú þarf að huga að kjúklingnum. Hann ætti að vera soðinn í gegn og beinin búin að gefa góðan kraft í soðið. En hann lítur sennilega illa út. Fölur og teygður. Við björgum því með því að búa til smá kryddolíu með kryddklípunni sem við geymdum í upphafi. Bleyta upp í kryddinu með því að nappa smá vökva, tveimur matskeiðum eða svo úr pottinum sem verið er að sjóða niður í sósugrunninn og svipuðu magni af olíu. Hræra í soppu og pensla á kjúklinginn.
Fyrst á bakhliðina þannig að skinnhliðin snýr niður í ofnskúffuna. Gott að hafa bökunarpappír í skúffunni svo skinnið festist ekki. Þegar allt er orðið fallega rauðbrúnt þarf að snúa kjúklingnum við, pensla skinnhliðina og skutla aftur inn í ofn. Passa að brenna ekki kjúklinginn mikið en hann má dökkna talsvert.
Þarf alltaf að vera sósa?
Tæknilega þarf ekki sér sósu, grjónin verða nógu djúsí. Það er nú samt bara kurteisi að bjóða upp á sæmilega sósu og við erum hvort eð er byrjuð á henni. Grunnurinn enda að sjóða niður á næstu hellu. Þegar hann hefur rýrnað um sirka helming þarf að slökkva undir og kæla örlítið, því út í grunninn fer grísk jógúrt og við viljum ekki að hún hlaupi í kekki. Hægt að nota skyldar vörur ef engin er jógúrtin. AB mjólk, kefír eða hvað sem er. Allt sama jukkið bara, mismikið síað. Þessu er blandað saman ásamt safa af hálfri límónu og smá steinselju. Ferskri ef hún er til en annars úr stauk.
Þegar grjónin eru tilbúin er börkur af heilli límónu og safinn úr hálfri sett saman við. Gaman að hafa smá ferska steinselju ef hún er til. Loks fer kjúklingurinn yfir grjónin og allt saman borið fram í sama pottinum. Ekki úr vegi að bjóða upp á naan-brauð til að skafa upp sósuna. Svona fyrst við vorum nú að hafa fyrir henni.
Fleiri ljúffengar og skemmtilegar mataruppskriftir Hara má finna á vef Sameykis. Stoppað í matargatið.