2. október 2023
Glæsileg uppbygging nýrra orlofshúsa hefst á Úlfljótsvatni
Nýju orlofshúsin við Úlfljótsvatn.
Við sögðum frá uppbyggingu orlofsbyggðar á Úlfljótsvatni í maíútgáfu Tímarits Sameykis; að búið væri að deiliskipuleggja svæðið og hönnun á ellefu nýjum orlofshúsum lokið. Nýju húsin á svæðinu verða 105 fermetrar að stærð, með þremur svefnherbergjum fyrir allt að sex manns, baðherbergi, eldhúsi og borðstofu í opnu rými og þægilegri setustofu og sjónvarpi. Heitur pottur verður við hvert hús og 90 fermetra verönd. Önnur þægindi eins og gasgrill, rúmgóð geymsla og rúmgóðir fataskápar verða í hverju herbergi. Útgengt verður út á verönd úr baðherberginu. Orlofshúsin munu falla vel að umhverfinu og eru með gólfsíðum gluggum sem hleypir inn birtu auk þess sem hægt er að njóta fallegs útsýnis úr þeim. Eitt hús verður sérhannað með þarfir fatlaðs fólks í huga.
Samkvæmt nýju deiliskipulagi fyrir orlofssvæðið verða orlofshúsin að vestanverðu staðsett ofar í landinu en þau sem fyrir eru og lóðirnar stækkaðar. Áætlað er að fjögur hús af þeim ellefu sem verða reist verði staðsett þar sem stærri húsin þrjú eru nú að austanverðu. Samkvæmt teikningum er reiknað með að hvert og eitt orlofshús standi á rúmlega 5000 fermetra lóð með góðu útsýni yfir dalinn til vesturs og þau sem verða staðsett ofar í hlíðinni hafi útsýni yfir Úlfljótsvatn til norðurs. Fjarlægðin á milli nýju orlofshúsanna verður mun meiri en þeirra eldri og næðið því betra.
Áætlað er að verkefnið taki um tvö ár frá því vinna hefst við að reisa fyrsta húsið. Nýju húsin verða byggð á steyptum grunni með hita í gólfi. Byrjað verður að reisa fyrstu húsin í orlofslandinu að vestanverðu þar sem nú er verið að auglýsa þau gömlu til sölu. Óskað eftir eftir tilboðum í þau gömlu og þurfa þau að vera fjarlægð fyrir 1. nóvember á kostnað kaupanda.