7. maí 2024
„Ekkert kjaftæði“ á aðalfundi ROM
Ólafur Hallgrímsson, formaður Rekstrarfélags orlofshúsa í Munaðarnesi, færði Þórveigu Þormóðsdóttur blóm í þakklætisskyni fyrir góð og farsæl störf í þágu ROM.
Ólafur Hallgrímsson, formaður Rekstrarfélags orlofshúsa í Munaðarnesi (ROM), setti aðalfund félagsins sem haldinn var í félagamiðstöðinni í BSRB-húsinu 13. mars síðastliðinn.
Á dagskrá fundarins var skýrsla stjórnar, tillögur að breytingum á félagasamningi, tillögur um árlegt framlag til reksturs fyrir árið 2024 og framkvæmdaáætlun fyrir árið, kosning stjórnar ásamt framlögðum reikningum félagsins til samþykktar.
Ný stjórn kosin og framkvæmdum á svæðinu stillt í hóf
Á fundinum var borin upp tillaga um að Ólafur Hallgrímsson yrði formaður ROM og var hún samþykkt. Aðrir stjórnarmenn voru kosnir Rut Ragnarsdóttir, Guðlaug Hreinsdóttir, Ingunn Jóhannesdóttir, Gunnar Örn Gunnarsson og til vara Atli Backmann og Guðrún Skagfjörð.
Breytingar voru samþykktar á félagasamningi þar sem í orðalagi var BSRB skipt út fyrir ROM vegna kaupa aðildarfélaganna á Munaðarneslandinu. Bætt var inn málsgrein þar sem ákveðið var að ef nýtt orlofshús bættist við þá myndu eigendur þess borga hlutdeild í eignum ROM á svæðinu, t.d. Munaðarneslandinu, áhaldahúsi, tjaldsvæði, vegum, sparkvelli, leiktækjum o.fl.
Framkvæmdum verður stillt í hóf á þessu ári vegna mikilla útgjalda stéttarfélaganna sökum landakaupanna. Þó þarf að laga veginn neðst í Eyrarhlíð, við tjaldsvæði og fara í slitlagsviðgerðir á öðrum vegum. Þá hefur Sameyki sett upp öryggisskilti á sín orlofshús sem fleiri félög ætla að gera líka. Einnig þarf að flytja leiktæki og setja leikvallaperlu á leiksvæði við Stekkjarhól.
Þjónustumiðstöðin í Munaðarnesi heyrir brátt sögunni til
Undir liðnum önnur mál sköpuðust umræður á fundinum um framtíð þjónustumiðstöðvarinnar á svæðinu sem er komin til ára sinna. Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags, tók til máls á fundinum og lagði fram tillögu um að skipa vinnuhóp um þjónustumiðstöðina í Munaðarnesi þar sem yrði skoðað hvort rífa mætti hluta hennar eða láta einhvern hluta hennar standa og að nefndin myndi skila áliti fyrir lok maí.
Sú tillaga var felld á fundinum með þeim rökum að húsið væri illa farið, krefðist mikils viðhalds og hlutverki þess væri lokið. Þá væri búið að ákveða að rífa þjónustumiðstöðina og enginn vilji væri fyrir því að reka húsið áfram að hálfu ROM, enda hefði rekstrarfélagið skilað henni til BSRB sem hefði ákveðið að láta rífa hana. Rætt var um að þjónustumiðstöðin væri hætt að gegna sínu gamla hlutverki og að auki útséð með að einhver rekstraraðili væri tilbúinn til að standa í að reka þar einhverja þjónustu.
Í lok fundar sté Ólafur Hallgrímsson í pontu og þakkaði Þórveigu Þormóðsdóttur fyrir sín störf og fundarstjórn hjá ROM síðastliðin 13 ár. Hann sagði að hún hefði alltaf stýrt fundum félagsins af mikilli röggsemi – þar væri tímanum ekki eytt í „neitt kjaftæði“ eins og hann orðaði það, og samstarfið með Þórveigu hefði ávallt verið mjög farsælt.