1. maí 2022
Breytt hagfræði til bjargar heiminum
Hugmyndaheimur nýfrjálshyggjunnar sem markvisst breiddist út um heiminn áratugina eftir fall Berlínarmúrsins eða hruns Tvíburaturnanna og fram að fjármálahruni fól í sér leiðarstef einkavæðingar og lítið var gert úr opinberum rekstri og flestallri almannaþjónustu,
Markaður án reglna er óskapnaður segir Mazzucato enda byggi grundvöllur hans á réttarríkinu; dómstólum, samkeppniseftirliti, neytenda- vernd og stofnunum sem sjá til þess að leikvöllurinn sé sanngjarn.
Eftir Ásgeir Brynjar Torfason
Þegar nú sér fyrir endann á heimsfaraldri, í okkar heimshluta hið minnsta, þá skellur á innrás í Evrópu. Sú breytta heimsmynd sem nú birtist eftir faraldur og í stríði dregur skýrt fram mikilvægi hins opinbera rekstrar vegna viðbragða og efnahagslegra afleiðinga beggja. Hagfræðin sem lá til grundvallar endurbyggingu síðast þegar við stóðum frammi fyrir breyttri heimsmynd eftir fall Berlínarmúrsins eða hruns Tvíburaturnanna, er ekki endilega sú rétta til þess að takast á við þær áskoranir sem heimurinn stendur nú frammi fyrir.
Hugmyndaheimur nýfrjálshyggjunnar sem markvisst breiddist út um heiminn áratugina síðan þá og fram að fjármálahruni fól í sér leiðarstef einkavæðingar og lítið var gert úr opinberum rekstri og flestallri almannaþjónustu. Þótt þessi áhrifamikla kenning hafi í raun beðið skipbrot árið 2008 þá hefur löskuðu fjármálakerfinu verið haldið á lífi síðan þá með miklum stuðningi og fjármögnun frá helstu seðlabönkum heims. Þegar kom að því að vinda ofan af þeim stuðningi skall á heimsfaraldur sem kallaði á meiri stuðning og síðan stríð sem ekki sér fyrir endann á en mun hafa miklar efnahagslegar afleiðingar. Þá er ótalin loftslagsváin sem er þó stærsta verkefnið að takast á við og hagfræðin hefur ekki enn komið með gagnlegar lausnir á. Allar þessar vár kalla á skjót svör.
Krísur og hagfræði
Alþjóðlega á sér stað mikil og gagnrýnin endurskoðun á hagsögunni og sögu hagfræðikenninga. Hagfræðingar utan við meginstrauminn standa í fararbroddi endurskoðunarinnar og oftar en ekki byggir nýsköpun innan hagfræðinnar á að endurvinna gamlar kenningar sem lent hafa utan við strauminn en hafa fallið betur að raunveruleikanum heldur en hinar viðteknu kenningarnar.
Hagfræðin sem fræðigrein hefur ekki getað skýrt vel orsakir og afleiðingar af krísum undanfarinna ára með einföldum líkönum og kenningagrunni sem byggir á skilvirkni og jafnvægi sem raungerist ekki. Mikið af þeim umbótum sem nú verða innan hagfræðinnar byggjast á því að endurlesa gamlar klassískar bækur og nýta þær til nýsköpunar í ljósi raunverulegrar þróunar hagkerfanna. Eitt skýrasta dæmið um þess háttar gerjun birtist í skrifum hagfræðinga eins og Mariana Mazzucato.
Hverjir geta breytt hagfræðinni?
Mariana Mazzucato er prófessor við University College London og rekur þar rannsóknarstofnun um nýsköpun og almannagildi (Institute for Innovation and Public Purpose) sem veitir ráðgjöf til opinberra aðila samhliða að kenna opinbera stjórnsýslu og stefnumótun. Hún er menntuð í hagfræði og hagsögu, í þremur löndum, fædd á Ítalíu, alin upp í Bandaríkjunum og búsett í Bretlandi. Um árabil hefur hún í ræðu og riti ítrekað nauðsynlega umbreytingu hagfræðinnar og hefur hressileg gagnrýni hennar og skýrleiki gert hana eftirsóttan fyrirlesara um allan heim.
Mazzucato hefur til dæmis með nákvæmum og skapandi lestri sínum á Adam Smith, sem er talinn faðir hagfræðinnar, tekist að leiðrétta vissar mistúlkanir sem liggja vanda hagfræðinnar nú til grundvallar. Hún dregur það til dæmis fram í bókum sínum, um virði og virðismyndun (Value of Everything, 2018) og um endurhugsun kapítalismans út frá sjálfbærni og jöfnuði (Rethinking Capitalism, 2016), hvernig grundvallarhugmynd Smith um hinn frjálsa markað er mistúlkuð. Það sem Smith átti við með frelsishugtakinu var að markaðurinn væri frjáls frá rentusókn. Að það væri öllum til hagsbóta að fyrirbyggt væri að fáir aðilar drægju til sín allan mögulegan hagnað út úr fyrirtækjum og þar með markaðskerfinu.
Markaður án reglna er óskapnaður
Adam Smith sagði að markaðurinn virkaði ekki almennilega nema vegna hinnar reglubundnu umgjarðar sem yrði að vera til staðar. Markaður án reglna er óskapnaður segir Mazzucato enda byggi grundvöllur hans á réttarríkinu; dómstólum, samkeppniseftirliti, neytendavernd og stofnunum sem sjá til þess að leikvöllurinn sé sanngjarn.
Nærtækt dæmi um þetta er að finna í hinum sameiginlega markaði Evrópusambandsins. Ísland fær aðild að honum í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið gegn því að innleiða allar reglur og lög sem um markaðinn gilda. Frjáls viðskipti sem því fylgja geta eflt alla dáð, en þau viðskipti eru möguleg og frjáls vegna þeirrar reglubundnu umgjarðar sem tryggir að leikreglurnar nái yfir alla aðila markaðarins og fyrirbyggir að fáir geti dregið til sín of mikinn auð út úr kerfinu.
Tvær bækur í viðbót sem Mazzucato hefur hlotið frægð fyrir er fyrsta bókin hennar, en hún fjallar um nýsköpunarríkið (Entrepreneurial State) frá 2014, og sú nýjasta um markmiðsdrifna hagkerfið (Mission Economy) frá 2021. Í þeirri fyrri sýnir hún fram á hvernig nýjungar og tækniþróun megi iðulega rekja til opinberrar fjárfestingar í rannsóknum. Á síðari stigum tekur viðskiptalífið við og gerir nýjungarnar að markaðsvöru sem ríkisvaldið lagði grunn að. Þetta vindur ofan af ranghugmyndum um að hið opinbera sé aðeins dragbítur á verðmætasköpun sem komi aðeins af hendi einkaframtaksins og varpar nýju ljósi á tengsl hins opinbera og markaðarins.
Nýjasta bók Mazzucato, Mission Economy, kom út fyrir ári síðan og fjallar um hvernig hið opinbera þarf að vera leiðandi og marka efnahagsstefnu samfélagsins í stað sérhagsmunasamtaka og atvinnulífsins. Hún tekur dæmi af tunglferðaáætluninni og löndum sem náð hafa langt í tækniframförum með því að marka þannig stefnu um almannahag sem fyrirtækin síðan njóta góðs af en ekki öfugt. Það liggur fyrir að markaðsfrelsi leiðir ekki sjálfkrafa til þess að nýjungar séu þróaðar. Markaðurinn hentar vel til þess að markaðssetja, selja og stunda viðskipti en ekki endilega til þess að stuðla að nýsköpun, þróun eða annarri þess háttar langtímafjárfestingu.
Efnahagsstefna fyrir almannahag
Eins og sást í heimsfaraldri kórónuveirunnar þá lék ríkisvaldið stærsta hlutverkið í að leiða lönd heimsins út úr faraldrinum, bæði á sviði heilbrigðismála og efnahagslífsins. Þróun bóluefnisins tókst vel hjá nokkrum mismunandi fyrirtækjum, en einmitt vegna grunnrannsókna sem farið höfðu fram áður og voru fjármagnaðar af hinu opinbera. Aðgangur var veittur að öllum upplýsingum og gögnum þvert á samkeppnishugmyndir gömlu kenninganna. Hið opinbera fjármagnaði einnig í raun alla þessa þróun nýrra bóluefna með því að kaupa ótrúlegt magn þeirra fyrir heiminn allan.
Almannahagsmunir voru settir í fremsta forgang þó að samvinna hafi verið með einkafyrirtækjum. Hraðinn í þróun bóluefnisins jókst verulega með þessu samþætta átaki, samvinnu og opnum aðgangi að upplýsingum. Enn frekari áherslur á eftirgjöf hagnaðar í samstilltu átaki má sjá af sjálfviljugum viðskiptaaðgerðum alþjóðlegra stórfyrirtækja sem draga sig nú út úr Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þessar aðgerðir minnka hagnað þeirra og bætast við opinberar viðskiptaþvinganir og fjárhagslegar efnahagsaðgerðir opinberra aðila vegna stríðsins.
Gömul saga og ný hugsun
Það þarf fleiri hagfræðinga sem nýta sköpunarkraftinn til gagnrýninnar endurbyggingar eins og Mariana Mazzucato gerir. Þá verður mögulegt að breyta efnahagsmálum til að bjarga heiminum úr þeim ógöngum sem m.a. loftslagshamfarir munu birtast okkur. Fjármálakrísur, efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldra og viðskiptaþvinganir vegna stríðsrekstrar eru álagspróf til undirbúnings.
Áskoranirnar birtast einnig á sviði ójöfnuðar, framþróunar opinbers rekstrar og nýsköpunar, en það er aðeins í gegnum hið gamla sem okkur er mögulegt að uppgötva eitthvað nýtt. Til þess þurfum við frjálsan huga hugmyndaríkra hugsuða eins og Mariana Mazzucato er gott dæmi um. Með þekkingu sinni sem birtist í bókum hennar dregur hún saman sögulega sýn og hagfræðilega nýsköpun til að gera heiminn betri til framtíðar. Það var upphaflega hugmyndin með hagfræðinni sem fræðigrein, að finna út hvernig stuðla mætti að því að heimurinn yrði betri fyrir okkur öll. Markmiðið getur ekki verið að hámarka fjármálalegan hag fárra og vera föst í kreddum kapítalískra sérhagsmuna. Lestur á bókum hennar er ein leiðin til að losna úr þeim.
Höfundur er doktor í fjármálum.