1. maí 2022
Þjóðin sem neitaði að gefast upp
Flestir karlmenn fara í herinn en þó eru um 15 prósent liðsmanna konur og aðrir styðja við þá eins og þeir geta. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson
Um tíu milljón Úkraínumenn hafa lagt á flótta, þar af fjórar milljónir til annarra landa. Sumir hafa tekið að snúa aftur þar sem ólíklegt virðist að landið allt falli. Rússar beina nú sjónum að austurhéruðunum í kringum Donbass og fólk er farið að flýja þaðan, enda ekki von á góðu. Ekki er líklegt að Úkraínumenn vilji semja frið á öðrum forsendum en þeim að Rússar yfirgefi landið.
Eftir Val Gunnarsson
Ljósmyndir: Óskar Hallgrímsson, Gleb Garanich
Natalia frá Kyiv segist á Facebook-síðu sinni um síðustu áramót vonast eftir að árið 2022 verði gott og að helst af öllu langi hana til að ferðast, og vissulega hefur hún ferðast þó varla geti nokkur sagt að árið sé gott. Eftir að hafa farið í gegnum þrjú lönd dvelur hún nú í Portúgal en þráir helst af öllu að snúa aftur heim.
Ilona er nýkomin til Íslands. Hún segist hafa valið landið þar sem fólk með börn vilji helst vera sem næst heimahögunum, svo sem í Póllandi, og vill hún ekki taka pláss frá þeim þar. Sjálf á hún son sem er við nám í Finnlandi en 74 ára móðir hennar kaus að vera eftir.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ilona flýr stríð. Hún bjó áður í Donetsk og þegar barist var um flugvöllinn þar árið 2014 hljómaði það eins og átökin væru í næsta húsi. Þá flutti hún til höfuðstaðarins Kyiv en kaus aftur að búa sem næst flugvelli, ef vera skyldi að hún þyrfti að flýja á ný – og sú varð reyndin. Hún segist sakna þess að fara í göngutúra í skóginum en langt verði þar til hægt sé að gera það aftur. Skógarnir í kringum Kyiv eru enn fullir af ósprungnum sprengjum þótt Rússarnir séu farnir á brott.
Spilling, bylting, stríð
Stríðið sem nú geisar hófst í reynd árið 2014. Hinum spillta forseta Janúkóvits sem var hallur undir Rússa var steypt af stóli af milljónum mótmælenda í Kyiv sem kusu fremur nánari samskipti við Evrópusambandið. Rússar tóku yfir Krímskaga og í framhaldinu var rússneskumælandi fólk í suður- og austurhéruðum landsins hvatt til að segja sig úr lögum við Úkraínu. Aðeins í þriðjungi tveggja héraða, Donetsk og Luhansk, var kallinu svarað. Aðskilnaðarsinnar tóku yfir stjórnarbyggingar og í kjölfarið braust út stríð.
Úkraína var illa farin eftir spillingu Janúkóvits-áranna og er reiknað með að um fimm milljarðar evra af ríkisfé hafi horfið. Nú kom einnig í ljós að herforingjarnir voru búnir að selja hergögnin og herinn að mestu óstarfhæfur. Í staðinn héldu sjálfboðaliðar af stað. Það tókst að endurheimta Mariupol en þá hófu Rússar að styðja aðskilnaðarsinna með hergögnum. Samið var um vopnahlé en enn var barist, þó víglínan hafi staðið í stað. Allt þar til að kvöldi 21. febrúar þessa árs að Pútín formlega viðurkenndi sjálfstæði aðskilnaðarhéraðanna tveggja og sendi herinn inn. Rúmum tveim sólarhringum síðar hófst allsherjarinnrás í Úkraínu.
Ef til vill hefur það komið mörgum á óvart hve mikill viðnámsþróttur Úkraínumanna hefur verið. Líklega hefur Pútín sjálfur reiknað með því að þetta yrði eins auðvelt og það var að leggja undir sig Krímskagann, sem aflaði honum mikilla vinsælda á heimavelli en endurkoma hans í forsetastól árið 2012 hafði verið afar umdeild og var mikið mótmælt.
Þjóð sameinast
Síðan þá hefur margt breyst. Úkraínuher hefur verið endurreistur, endurþjálfaður og endurvopnaður. Á sama tíma virðist rússneski herinn hafa átt við mikla spillingu að stríða, sögur berast af trukkum sem hafa hvorki dekk né bensín og hermönnum sem fá mat sem rann út fyrir áratug en herforingjarnir hafa keypt snekkjur við Miðjarðarhaf fyrir margföld laun sín.
Meira máli skiptir þó að úkraínska þjóðin var orðin andlega undirbúin fyrir átök. Þó fólk hafi vonað það besta voru flestir meðvitaðir um að þetta gæti gerst, eins og hún Ilona sem kom sér fyrir í grennd við flugvöllinn. Um helmingur þjóðarinnar talar rússnesku að móðurmáli en telja sig Úkraínumenn eins og nú má vera orðið ljóst. Ekkert hérað, enginn bær eða borg hafa boðið Rússa velkomna. Mariupol, þétt uppi við rússnesku landamærin og að langmestu leyti rússneskumælandi, hefur enn neitað að gefast upp þegar þetta er skrifað í byrjun apríl.
Lengi var litið svo á að úkraínska þjóðin væri klofin í tvennt og mátti sjá merki þess í stjórnmálunum. Janúkóvits sótti fylgi til austurhéraðanna en keppinauturinn Júsjenkó (sem eitrað var fyrir í aðdraganda kosninganna 2004) til vesturhéraðanna þar sem flestir tala úkraínsku – en síðan gerðist eitthvað.
Selenskij í hlutverki lífs síns
Líklega má rekja það til 2014. Hin endanlega þjóðaratkvæðisgreiðsla var haldin þegar Rússar hvöttu héruð til að segja sig úr Úkraínu en svo til allir kusu að tilheyra landinu enn, nema í Donetsk og Luhansk. Reynslan þar hefur síðan ekki verið til að afla Rússum mikils fylgis. Úkraínumenn eru og vilja vera Úkraínumenn.
Það hefur lengi loðað við úkraínska stjórnmálamenn að vera spilltir og sjást með Rolex úr og Prada töskur þrátt fyrir að vera með sem nemur íslenskum lágmarkslaunum á mánuði. Þegar Selenskij var kosinn forseti árið 2019, leikari með litla reynslu af stjórnmálum en fékk mikið fylgi, átti það einmitt að vera til að ráða bót á þessu. Hvorki gekk né rak hjá honum fyrstu árin, hæstiréttur ógilti lagasetningu gegn spillingu og vinsældir Selenskijs dvínuðu.
En þegar stríðið hófst kom á daginn að Selenskij var einmitt maðurinn sem þjóðin þarfnaðist. Sumir forsetar hefðu líklega flúið í þyrlu með fullar töskur fjár eins og Janúkóvits gerði árið 2014, en Selenskij kaus að vera um kyrrt. Það aflaði honum mikillar virðingar og hefur hann stappað stálinu í fólk. Sem rússneskumælandi úr austurhéruðunum er hann einmitt rétti maðurinn til að sameina þjóðina og þar sem hann er gyðingur slær það á helstu samsæriskenningar um meintan nasisma Úkraínumanna.
Fjöldamorð og flóttamenn
Á meðan geisar stríðið. Fyrstu dagana hernámu Rússar um tíu prósent landsins en síðan hefur hvorki gengið né rekið hjá þeim. Þar sem Pútín getur hvorki knúið Úkraínumenn til uppgjafar né sigrað þá í beinum bardögum beitir hann sömu brögðum og áður í Téténíu, að leggja borgir í rúst með tilheyrandi hörmungum fyrir óbreytta borgara. Jafnvel Rauði krossinn segist hafa haft betri aðgang að afskekktum hlutum Jemen en umsetnum borgum Úkraínu.
Rússar drógu sig til baka frá svæðinu norðan við Kyiv enda ljóst að þeir gætu ekki hertekið borgina. Í ljós kom að hryllileg fjöldamorð höfðu verið framin í bænum Bucha og mörg hundruð manns tekin af lífi með köldu blóði. Ekki er líklegt að þetta geri annað en að stappa stálinu enn frekar í Úkraínumenn. Bærinn Irpin hefur einnig verið frelsaður og þar hefur tiltektarstarf þegar hafist.
Um tíu milljón Úkraínumenn lögðu á flótta, þar af fjórar milljónir til annarra landa. Sumir hafa tekið að snúa aftur þar sem ólíklegt virðist að landið allt falli. Rússar beina nú sjónum að austurhéruðunum í kringum Donbass og fólk er farið að flýja þaðan, enda ekki von á góðu. Ekki er líklegt að Úkraínumenn vilji semja frið á öðrum forsendum en þeim að Rússar yfirgefi landið. Pútín er ólíklegur til að samþykkja slíkt. Stríðið hefur verið kostnaðarsamt og eitthvað verður hann að sýna fram á að hann hafi áorkað, enda ferill hans að öllum líkindum í húfi.
Upp á líf og dauða
Strax frá fyrsta degi stóð öll úkraínska þjóðin á móti og allir íbúarnir vinna nú að sigri með einum eða öðrum hætti. Flestir karlmenn fara í herinn en þó eru um 15 prósent liðsmanna konur og aðrir styðja við þá eins og þeir geta. Ekkert sambærilegt er líklegt að gerist í Rússlandi, enda tilvist þjóðarinnar ekki í húfi. Fólk þar tekur helst eftir hækkandi vöruverði og nærist annars á falsfréttum í sjónvarpi sem segja Bandaríkjamenn framleiða kórónuveiru í verksmiðjum í Úkraínu.
Vonandi verður stríðinu lokið þegar þetta birtist og það tekið sinn stað í sögubókunum við hlið allra hinna hörmunganna. Ef ekkert slíkt kraftaverk gerist og barist verður áfram þekkir sagan þó fá dæmi þess að hægt sé að undiroka þjóð sem ekki vill láta undiroka sig.
Í millitíðinni hafa hundruð Úkraínumanna komið hingað til lands. Ilona, líkt og Natalia í Portúgal, búa svo vel að vinna netleiðis og geta því flutt starfið með sér. Aðrir eru ekki svo heppnir en nánast allir óska eftir að komast í vinnu sem fyrst. Flesta dreymir um að komast á endanum heim, en við skulum taka vel á móti þeim meðan á dvölinni stendur.