Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

12. febrúar 2024

Aðförin að verkfallsrétti launafólks á Íslandi

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, flytur ræðu á Ingólfstorgi á baráttudegi launafólks 1. maí. Ljósmynd/Hari

Hér á landi ríkir pólítísk paradís þar sem nánast alræði stjórnmálafólks gildir og vegið er að stofnunum sem fara með umboð almennings. Það er gert til að valdefla hagsmunaaðila, m.a. til að ná yfirráðum á auðlindum í efnahagslegum tilgangi.

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Haraldur Jónasson

Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifaði grein á Vísi rétt fyrir jólin. Þar gagnrýndi hún harðlega ímyndarherferð Samtaka atvinnulífsins og þá aðför sem hagsmunasamtök atvinnurekenda standa í til að reyna að svipta launafólk verkfallsréttinum.

Valdaójafnvægi milli launafólks og atvinnurekenda
Formaður BSRB sagði í greininni að það væri lögbrot þegar viðsemjendur mættu ekki til samningafundar, og að hægt væri að sækja framkvæmdastjóra SA með lögregluvaldi á boðaða samningafundi hjá ríkissáttasemjara. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, sagðist í fjölmiðlum ekki ætla að mæta á samningafund með FÍF, Félag íslenskra flugumferðarstjóra, nema stéttarfélag þeirra frestaði verkfallsaðgerðum.

Sonja Ýr sagði að herferð SA fæli í sér hvatningu til stjórnvalda um að auka valdheimildir ríkissáttasemjara til að fresta verkföllum og þannig veikja verkfallsrétt launafólks. Hún sagði að öll samtök launafólks hefðu mótmælt slíkum breytingum harðlega enda myndi það ýta undir valdaójafnvægi milli launafólks og atvinnurekenda.


Sonja Ýr sagði að herferð SA fæli í sér hvatningu til stjórnvalda um að auka valdheimildir ríkissáttasemjara til að fresta verkföllum og þannig veikja verkfallsrétt launafólks.

Formaður SAF (Samtök ferðaþjónustunnar), Bjarnheiður Hallsdóttir, sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi fyrir jólin að hún hefði fyrir hönd sinna hagsmunasamtaka krafist þess að sett yrðu lög á aðgerðir flugumferðarstjóra „og það umsvifalaust“ og benti á í viðtalinu að slíkt væri gert á hinum Norðurlöndunum. Hún sagði að tekjutapið af verkfalli flugumferðarstjóra hlypi á milljörðum króna og að krafist yrði skaðabóta til ríkisins vegna þeirra.

Innviðaráðherra stendur með SA gegn launafólki í kjaradeilu
Undir þessi sjónarmið Bjarnheiðar Hallsdóttur og Sigríðar Margrétar Oddsdóttur tók Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, þegar hann sagði að „engin stemning væri í samfélaginu fyrir verkfalli flugumferðarstjóra“. Þá væru jólin að koma og svona. Á sama tíma greindu fjölmiðlar frá því að frumvarp um lagasetningu á verkfallsaðgerðir væri tilbúið í Innviðaráðuneytinu og að andstaða gegn kjarabaráttu flugumferðarstjóra væri mikil meðal kjörinna þjóna almennings á Alþingi.

„[...] ég hef sagt að það sé mikill ábyrgðarhluti að vera í svona aðgerðum á þessum tíma rétt fyrir jól og beint ofan í þær náttúruhamfarir sem hafa sannarlega kostað samfélagið verulega hluti og ekki síst kannski ferðaþjónustuna,“ sagði Sigurður Ingi rólegri röddu í fjölmiðlum.

Það er auðvitað mjög dapurlegt ef að innviðaráðherrann skuli hafa þennan skilning á hvernig launafólk beitir sér í sínum aðgerðum til að ná fram sanngjörnum kjarabótum, en hann stendur keikur með atvinnurekendum. Tímapunkturinn sem valinn er til að fara í vinnustöðvanir er í eðli sínu ákveðinn til að knýja aðila að samningaborðinu.

Verkfallsréttinum er beitt sem lokaúrræði ef viðsemjendur sýna slíkan trega eins og raun bar vitni í þessu tilfelli. Þannig er verkfallsvopnið það sterkasta sem launafólk getur beitt í sinni kjarabaráttu til að ná fram samtali og knýja á um kjarasamninga og beitir því aðeins að vel athuguðu máli þegar öll sund virðast lokuð.

Methagnaður ferðaþjónustunnar
Hagnaður ferðaþjónustunnar á síðasta ári nam 23,4 milljörðum króna sem var mesti hagnaður í greininni síðan árið 2017. Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 1 milljón á síðasta ári miðað við árið 2021 og voru þeir 1,7 milljón yfir allt síðasta ár. Aukinn fjöldi ferðamanna átti stærstan þátt í að greinin skilaði mettekjum upp á 748 milljarða króna í fyrra.

Ferðaþjónustan er í 11 prósenta virðisaukaskattsþrepi á meðan aðrar atvinnugreinar eru í 24 prósenta virðisaukaskattsþrepi. Í þessu metári í tekjum kvarta hagsmunaaðilar sáran að þurfa að gera kjarasamninga við flugumferðarstjóra. Einhverjir myndu kalla það græðgi. Sigríður Margrét Oddsdóttir segir að hagkerfið gæti orðið af um 1,2 milljörðum króna í tekjur vegna minni neyslu ferðamanna fyrir hvern dag vegna verkfalls flugumferðarstjóra um leið og samtökin sem hún er í forsvari fyrir vilja ekki semja um að hækka grunnlaun, sem eru rétt undir 700 þúsund krónum, minnka vaktaálag og draga úr óhóflegri yfirvinnu. Hún sagði í fjölmiðlum að ISAVIA og SA myndu ekki þiggja fundarboð frá ríkissáttasemjara nema flugumferðarstjórar aflýstu aðgerðum sínum sem þeir svo gerðu vegna eldgoss á Reykjanesskaga eins og alþjóð veit.

 

Verkfallsrétturinn og störf ríkissáttasemjara á „hinum Norðurlöndunum“
Eins og áður sagði beita bæði ráðamenn og hagsmunaaðilar gjarnan fyrir sig fyrirkomulagi í kjaradeilum á „hinum Norðurlöndunum“ þegar þeir tala fyrir því að veikja verkfallsrétt launafólks með því að auka valdheimildir ríkissáttasemjara til að koma í veg fyrir verkföll. Ef stjórnmálin myndu styðja launafólk í landinu myndi þau auðvitað ekki tala fyrir því að veikja verkfallsréttinn, þvert á móti, tala um hann af sömu virðingu og verkalýðshreyfingin.

Aldrei verið sett lög á verkföll
Í samtali við Thomas Lynge Madsen yfirmann greiningar hjá HK Stat stéttarfélagi í Danmörku sagði hann að þar í landi væri það svo, að ef annar eða báðir aðilar í kjaradeilu biðja um aðstoð ríkissáttasemjara, þá getur hann veitt hana. Ríkissáttasemjari getur líka frestað verkfalli eftir tvær vikur í árangurslausum viðræðum og í sumum tilfellum framlengt frestun verkfalls í tvær vikur til viðbótar. Hins vegar getur ríkissáttasemjari ekki komið í veg fyrir verkföll launafólks lengur en það. Þá verður verkfall þar til aðilar finna sjálfir lausn í deilunni.


Thomas Lynge Madsen hjá HK Stat stéttarfélagi í Danmörku.

Ef svo heldur áfram getur ríkisstjórnin gripið inn í deiluna með lagasetningu, „regeringsindgreb“, og stöðvað verkfallið, en þá þarf að vera meirihluti fyrir því á danska þinginu. Hins vegar hefur ekki komið til þess á dönskum vinnumarkaði að þessu ákvæði hafi verið beitt á danska þinginu.

„Hið svokallaða grunnsamkomulag, „Hovedaftale“, á dönskum vinnumarkaði rekur uppruna sinn aftur til ársins 1899. Vitnað er í grunnsamkomulagið sem „stjórnarskrá“ danska vinnumarkaðarins. Í þeirri sátt um fyrirkomulag á vinnumarkaði (Forligsinstitutionen) segir að launafólk geti farið, eigi rétt á að fara, í verkföll á dönskum vinnumarkaði. Vinnuveitendur í Danmörku styðja þetta grunnsamkomulag enn í dag.

Reynt á sáttina
Fyrir nokkrum árum áttu kennarar í vinnudeilu í Danmörku og kom til álita að setja lög sem hefðu valdið því að þeir gætu ekki farið í verkfall. Frá þessu var fallið en í kjölfarið var ILO, Alþjóða vinnumálastofnuninni, gert formlega viðvart um áform dönsku ríkisstjórnarinnar að veikja rétt launafólks til að hefja verkfall. Sama var uppi á teningnum þegar norskir kennarar fóru í verkfall, og þeir kvörtuðu einnig undan áformum norskra stjórnvalda um að koma í veg fyrir verkföll þeirra til ILO,“ sagði Thomas Lynge.

Stéttarfélagsaðild styrkir samningsstöðu
Þá sagði hann að helstu áhyggjur norrænna stéttarfélaga í tengslum við kjarasamninga snúa að minnkandi stéttarfélagsaðild innan landanna en mikill fjöldi starfsfólks sem fellur undir kjarasamninga stendur utan stéttarfélaga.

„Ef það er ekki nógu margt launafólk með félagsaðild í stéttarfélögum munum við í Danmörku og víðar á Norðurlöndunum eiga í miklum vandræðum, því það veikir samningsstöðuna stórlega. Þá er það sérstakt vandamál að semja fyrir fólk sem starfar sem verktakar, bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði.“

Íslenskir lobbíistar, hvort sem þeir starfa á Alþingi eða ganga erinda sérhagsmunaaðila, reyna að rugla umræðuna, launafólk og almenning, með því að vísa til hinna Norðurlandanna sem fyrirmyndar um hvernig vinnumarkaðnum sé háttað. Þar sé allt svo gott og til fyrirmyndar. Íslensk verkalýðshreyfing gerir það vitaskuld ekki því félagsaðild í stéttarfélögum er sá styrkur sem þarf til að fara í verkfall og krefjast samfélagsbreytinga ef svo ber undir. Það er reyndar svo að verkalýðssamtök á „hinum Norðurlöndunum“ og víðar í Evrópu líta öfundaraugum til Íslands. Á þingi PSI, heildarsamtaka starfsfólks sem starfar í opinberri þjónustu í 152 löndum, sem fram fór síðastliðið haust í Genf, átti fulltrúi BSRB samtal við Dave Prentis þáverandi forseta samtakanna þar sem félagsaðild launafólks í stéttarfélögum bar á góma. „Þú veist herra Prentis að á Íslandi er launafólk næstum allt í stéttarfélögum samkvæmt landslögum?“ Hann sagðist vita það og þannig hefði það verið í Bretlandi þangað til nýfrjálshyggjan komst til valda. „Then the Tories came to power!,“ svaraði Dave og vísaði þar í valdatíð Margrétar Thatcher.


Dave Prentis á þingi PSI sl. haust.

Ríkisfyrirtæki greiða meira en tvö hundruð milljónir króna á ári til samtaka í atvinnulífinu
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni á Alþingi um aðild ríkisfyrirtækja að Samtökum atvinnulífsins námu greiðslur í formi félagsgjalda hjá ríkisfyrirtækjum á árinu 2021 til samtaka í atvinnulífinu tæplega 225 milljónum króna. Í svari til þingmannsins kemur fram að eftirfarandi ríkisfélög eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins og aðildarsamtökum þeirra, þar á meðal Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum iðnaðarins, Samorku, Samtökum ferðaþjónustunnar og Sam-tökum fjármálafyrirtækja: Betri samgöngur ohf., Fríhöfnin ehf., Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf., Isavia ohf., Íslandsbanki, Íslandspóstur hf., Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, Landsbankinn hf., Landsvirkjun, Matís ohf., Neyðarlínan ohf., Orkubú Vestfjarða ohf., RARIK ohf., og Ríkisútvarpið ohf.

Þá vill ráðherra félags- og atvinnumála og þingmenn Sjálfstæðisflokksins ásamt ríkisstjórninni auka valdheimildir ríkissáttasemjara sem gæfi honum völd að jafnvel taka verkfallsréttinn af launafólki sem stendur í kjarabaráttu. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra er með slíkt frumvarp tilbúið samkvæmt þingmálaskrá. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur:

„Styrkja þarf hlutverk ríkissáttasemjara til að bæta undirbúning og verklag við gerð kjarasamninga, fækka málum sem lenda í ágreiningi og tryggja að kjaraviðræður dragist ekki úr hófi fram, til að mynda með standandi gerðardómi í kjaradeilum sem eykur fyrirsjáanleika og réttaröryggi deiluaðila.“

Frumvarp að lögum um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara á þingmálaskrá
Slíkt lagafrumvarp er aðför að sjálfsögðum rétti verkalýðshreyfingarinnar að hefja verkföll, en einnig aðför að lýðræðinu í landinu þegar grasrót vinnandi fólks fer fram og krefst betri kjara og réttlætis fyrir alla. Hvernig á ríkissáttasemjari að gæta hlutleysis og sanngirni með auknum valdheimildum sem geta svipt launafólk réttindum sínum til verkfalla? Hvaða þrýstihópar eru þar að baki?

Í yfirliti um stöðu verkefna í stjórnarsáttmálanum kemur fram að ráðherra hafi skipað starfshóp í júní 2023 sem hafði meðal annars það hlutverk að kanna hvort og þá hvernig rétt væri að styrkja enn frekar hlutverk og heimildir ríkissáttasemjara hér á landi. Þar kemur fram að verkefnið að auknum valdheimildum ríkissáttasemjara og skerðingu á verkfallsréttinum sé hafið. Áður hafði komið fram að hlutverk og heimildir ríkissáttasemjara á Norðurlöndunum hefðu verið skoðaðar en meta þyrfti í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins hvort rétt væri að leggja til breytingar hér á landi.

Frumvarpið nefnist Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (störf ríkissáttasemjara) og verður lagt fram á vorþingi. Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem meðal annars verður litið til vinnu starfshóps sem fengið hefur það hlutverk að leggja fram tillögur til að skýra formlegt gildi miðlunartillagna ríkissáttasemjara, forsendur framlagningar og heimildir embættis ríkissáttasemjara til að knýja á um atkvæðagreiðslu um slíkar tillögur eftir að þær hafa verið lagðar fram. Jafnframt er hlutverk starfshópsins að kanna hvort, og þá hvernig, rétt sé að styrkja enn frekar hlutverk og heimildir ríkissáttasemjara hér á landi, samanber markmið sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Á mannamáli þýðir þetta að ríkisstjórnin og varðhundar hagsmuna atvinnulífsins, sem svo oft eru kallaðir, styðja aðförina að verkfallsrétti launafólks á Íslandi.

Alþjóðasamtök vara við aðför stjórnmálanna að launafólki
PSI hefur bent á að stjórnmálafólk sé ekki hornsteinn lýðræðisins heldur fólkið sjálft og hreyfingar þess. Ísland sé þar ekki undanskilið. Hér á landi ríkir pólítísk paradís þar sem nánast alræði stjórnmálafólks gildir og vegið er að stofnunum sem fara með umboð almennings. Það er gert til að valdefla hagsmunaaðila, m.a. til að ná yfirráðum á auðlindum í efnahagslegum tilgangi, samanber sjávarútvegsauðlindina sem t.d. fyrrv. ríkisskattstjóri, Indriði H. Þorláksson, hefur ítrekað fjallað um í greinarskrifum í fjölmiðlum og á vefsíðu sinni, indridih.com, að sé arðrænd.

Þá vinna stjórnvöld að því að treysta alfarið hinum „frjálsa markaði“ fyrir heilbrigðiskerfinu, orkuverum, vatnsveitu og raforkusölu á Íslandi. Hér á landi hefur átt sér öflug samfélagsleg umræða í grasrót stéttarfélaga undanfarin ár um skipan samfélagsins, stofnanir, grunnþjónustu og tilfærslukerfin. Stjórnvöld beita aftur á móti valdi til að réttlætismál nái ekki fram að ganga fyrir almenning, hafa skorið niður fé til reksturs ríkisins og með skipulögðum hætti lagt niður stofnanir sem gegna mikilvægu aðhaldi fyrir valdhafa og miðla áríðandi upplýsingum til almennings. Á sama tíma fjölgar ríkisstjórnin ráðuneytum.
Löggjafarþingið er þeirra verkfæri til að ná þessum markmiðum fram.

Vel má færa rök fyrir að eina baráttan fyrir betra samfélagi og varðstöðu um þau réttindi sem náðst hafa með mikilli baráttu komi úr grasrót vinnandi fólks – stéttarfélögum launafólks á Íslandi, en ekki frá stjórnmálafólki eða hagsmunasamtökum atvinnulífsins sem jafnvel neita að mæta á samningafundi. Saga verkalýðsbaráttunnar sýnir að árangur næst með samstöðu launafólks. Eins og formaður BSRB og fleiri innan verkalýðshreyfingarinnar hafa sagt er verkfallsrétturinn heilagur í huga verkalýðshreyfingarinnar.

Verkfallsrétturinn mætti því að vera varinn í stjórnarskrá sökum þess hve hagsmunaaðilar og stjórnmálin leggja sig hart fram í að veikja hann.


Höfundur er kynningarfulltrúi Sameykis og ritstjóri tímarits félagsins.


Heimildir:
Dansk Industri. (e.d.). Hovedaftalen. Sjá hér.
Forligsinstitutionen. (e.d.). Om Forligsinstitutionen. Sjá hér.
Kristján Kristjánsson [umsjónarmaður]. (2023, 17. desember). SAF krefst laga á verkfall flugumferðarstjóra [brot úr útvarpsþættinum Sprengisandi, Bjarnheiður Hallsdóttir viðmælandi]. Sjá hér.
Riise, A. B. (2014, 26. nóvember). ILO støtter DLF: Lærerne blev holdt udenfor. Folkeskolen. Sjá hér.
Samtök atvinnulífsins. (2023, 16. desember). Gífurlegt tjón af völdum verkfalls flugumferðarstjóra. Sjá hér.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir. (2023, 13. febrúar). Afvegaleiðing atvinnurekenda. Vísir. Sjá hér.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir. (2023, 18. desember). Ímyndarherferð Samtaka atvinnulífsins. Vísir. Sjá hér.
Stjórnarráð Íslands. (e.d.). Þingmálaskrá 154. löggjafarþings 2023–2024. Sjá hér.
Vilja ekki „kippa undan“ langtímasamningum. (2023, 18. desember). Mbl.is. Sjá hér.
Þingskjal nr. 919/2021–2022. Svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um aðild ríkisfyrirtækja að Samtökum atvinnulífsins. Sjá hér.