Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

5. júní 2024

Kynferðisleg áreitni á vinnustað brýtur fólk markvisst niður

Myndir frá Jafnréttisstofu af herferðinni undir myllumerkinu #meinlaust? um vitundarvakningu gegn kynferðislegri áreitni.

Eftir Axel Jón Ellenarson

Öll eigum við rétt á að starfsumhverfi okkar einkennist af gagnkvæmri virðingu í samskiptum og felur það m.a. í sér að njóta verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað. Slík hegðun er bæði lögbrot og siðferðilega ámælisverð. Það á við hvort heldur sem um er að ræða hegðun atvinnurekanda, samstarfsfólks eða einstaklinga sem starfsmaður þarf að hafa samskipti við vegna starfs síns. Kynferðisleg áreitni á vinnustöðum er alltof algeng hér á landi. Hún þrífst í myrkrinu, þar sem ekki er talað um hana, eða talið er án þess að vita það að slík hegðun sé ekki til staðar á vinnustaðnum, sem flokka má sem afneitun. Óvænt og óvelkomin símtöl og eða skilaboð til samstarfsfélaga utan vinnutíma eru ein tegund kynferðislegrar áreitni, tvíræð boð og ágengar augngotur er einnig algeng áreitni.

Vinnustaðir eru fjölbreyttir og áreitnin á sér oftast stað þar sem valdamismunur er til staðar. Afleiðingar kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis geta verið margvíslegar. Slík hegðun getur haft mjög slæmar afleiðingar fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélagið allt. Starfsfólk getur meðal annars fundið fyrir verri heilsu, streitu, þunglyndi, niðurlægingu, pirringi og lent í tekjutapi. Á vinnustöðum geta starfsmannavelta og veikindi aukist og framleiðni dregist saman, auk þess sem áhrifin á orðspor vinnustaða geta verið mikil. Í samfélaginu ýtir hegðun af þessu tagi til dæmis undir misrétti, kynbundinn launamun og aukin útgjöld af ýmsu tagi.

 

Starfsfólk hafi meðvitaðar upplýsingar
Ekki er mikill vandi að setja sig í spor einstaklings sem fær óvænta hringingu utan vinnutímans frá yfirmanni sínum eða samstarfsfélaga þar sem ekki er rætt um vinnutengt erindi til að skilja hversu mikið áfall það getur verið. Ótti, vantraust, óöryggi, ráðaleysi og reiði eru þær tilfinningar sem slík áreitni getur valdið fólki, og ef ekki er upplýst umræða á vinnustað um að slík hegðun sé ætíð óásættanleg aukast möguleikarnir á að einhver verði fyrir henni. Afleiðingarnar eru skelfilegar og raunin er sú að oftast kemst slík óásættanleg hegðun ekki upp á yfirborðið og fyrir því liggja margar ástæður.

Vinnustaðir sem ekki hafa samskiptasáttmála eiga erfiðara með að bregðast við kynferðislegri áreitni á vinnustað, þegar hún á sér stað, heldur en þeir vinnustaðir sem hafa slíkan sáttmála. Engin vel hugsandi manneskja kærir sig um að kynferðisleg áreitni viðgangist á sínum vinnustað og vinnustaðir geta með auðveldum hætti nýtt sér fræðslu sem er í boði og aðferðir til að koma í veg fyrir að kynferðisleg áreitni eigi sér stað á vinnustaðnum.

Á vef BSRB kemur fram að bandalagið hefur beitt sér með öflugum hætti í vitundarvakningu um kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, gefið út kynningarefni um kynbundið ofbeldi og fjallað um kynbundna og kynferðislega áreitni á sínum vettvangi. Fáar rannsóknir hafa þó verið gerðar á kynferðislegri áreitni hér á landi, en þær sem þó hafa verið gerðar snúa að starfsfólki í þjónustustörfum, viðhorfi stjórnenda til jafnréttis og mismununar innan stofnana. Niðurstöður þessara rannsókna gefa tilefni til að ætla að brýn þörf sé á vitundarvakningu um málefnið og að viðhalda þurfi fræðslu um þessi mál. Ein leið þess að opna umræðuna er að tryggja að allt starfsfólk vinnustaða hafi meðvitaðar upplýsingar og skýran aðgang um rétt sinn og skyldur vinnuveitanda síns.

 

Kynferðisleg áreitni og kynbundið óréttlæti er óásættanlegt
Þá kemur fram hjá BSRB að í þeim málum sem aðildarfélög bandalagsins hafa leitað eftir aðstoð með, sem teljast til kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni, er einkum að ræða líkamlega snertingu af kynferðislegum toga, svo sem klapp, klípur eða faðmlög. Önnur dæmi eru þegar einstaklingur reynir ítrekað við samstarfsmann þrátt fyrir að skýrt hafi komið fram að viðkomandi hafi ekki áhuga eða kæri sig ekki um slíka hegðun.

Í öllum tilvikum hafa gerendur verið karlar og þolendur konur. Í einu dæmi var þó um að ræða tvo karla en hvorugur þeirra var samkynhneigður. Athugasemdir sem beinast til kvenna af kynbundnum toga byggja á sama grunni, það er að þær séu ekki hæfar eða nægilega góðar til tiltekinna verkefna vegna þess að þær séu konur. Rannsóknir sýna að aðrar algengar birtingarmyndir eru athugasemdir um líkama, klæðnað eða lífsstíl einstaklings eða athugasemdir af kynferðislegum toga, svo sem niðrandi tal og brandarar sem viðkomandi kærir sig ekki um. Upplýstur vinnustaður með virkan samskiptasáttmála er mikil forvörn gegn kynferðislegri áreitni og kynbundnu óréttlæti.

 

Greinin birtist fyrst í 3. tbl. 2023 í Tímariti Sameykis.


Heimildir: BSRB, VIRK Starfsendurhæfingarsjóður.