Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

19. júní 2024

Rangt gefið frá upphafi

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Í undirbúningi Kvennaverkfallsins síðasta haust mættu skipuleggjendur gjarnan því viðhorfi hvort raunveruleg þörf væri á slíkum mótmælum í því landi þar sem ríkir mest jafnrétti í heimi samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum. Margir efuðust um að konur og kvár myndu finna knýjandi þörf til að taka þátt, leggja niður störf og mæta á baráttufundi. Úr varð fjölmennasti útifundur í sögu Íslands sem vakti heimsathygli.

Lögreglan telur að allt að 100.000 konur og kvár hafi safnast saman á Arnarhóli og við vitum að þúsundir til viðbótar söfnuðust saman á baráttufundum á tuttugu stöðum utan höfuðborgarinnar. Yfirskrift Kvennaverkfallsins var Kallarðu þetta jafnrétti? og sneru megin kröfur verkfallsins að endurmati á virði kvennastarfa og útrýmingu kynferðisofbeldis.

Kröfur fundarins sem lesnar voru upp á Arnarhóli er snúa að launajafnrétti voru:

  • Við krefjumst leiðréttingar á vanmati „svokallaðra“ kvennastarfa!
  • Að atvinnurekendur hætti að veita sér afslátt á launum kvenna og kvára!
  • Við krefjumst sértækra aðgerða til þess að leiðrétta kjör þeirra kvenna og kvára sem lægstar tekjur hafa, því engin á að þurfa að lifa við fátækt!
  • Við krefjumst þess að launamisrétti og mismunun verði útrýmt!
  • Að konur og kvár geti lifað af launum sínum og fái tækifæri til að þróast í starfi til jafns við karla!

Kynbundinn launamunur er félagslegt fyrirbæri sem á sér bæði sögulegar og menningarlegar rætur. Stærsta skrefið sem við getum tekið í átt að því að útrýma þessu launamisrétti er með því að snúa við því virðingarleysi og vanmati sem svokallaðar kvennastéttir þurfa að þola.

Hlutverk kvenna og karla í gegnum aldirnar, þar sem konur sinntu fyrst og fremst skyldum innan heimilisins og önnuðust börn og ættingja, hafa sett mark sitt á áhugasvið, náms- og starfsval kvenna allt til dagsins í dag og þróast yfir í staðalímyndir. Þegar ólaunuð vinna kvenna sem áður fór fram inn á heimilunum flytjast út á vinnumarkaðinn, mest inn á mennta- og heilbrigðisstofnanir, fólst í launasetningunni mikið vanmat á þessum störfum. Þótt laun kvennastétta hafi auðvitað hækkað jafnt og þétt rétt eins og hjá öðrum stéttum, þá var rangt gefið í upphafi. Því eru laun heðbundinna kvennastétta enn talsvert lægri en laun hefðbundinna karlastétta - og kynskiptur vinnumarkaður meginskýringin á þeim launamun sem enn er til staðar. Konur eru ólíklegri til að vera fjárhagslega sjálfstæðar en makar sínir og þar spilar launamunur kynjanna stórt hlutverk. Launamisrétti og kynbundið ofbeldi eru því tvær hliðar á sama peningi, sprottið upp feðraveldinu sem við ætlum að merja.

Launajafnrétti kynjanna hefur lengi verið eitt af helstu baráttumálum BSRB og undanfarin ár höfum við unnið hörðum höndum að endurmati á virði kvennastarfa í góðu samstarfi við fjöldamarga aðila svo sem Forsætisráðuneytið, opinbera launagreiðendur, Ríkissáttasemjara, Jafnlaunastofu og önnur samtök launafólks.

Við færumst sem betur fer í rétta átt, skref fyrir skref. En konur og kvár minntu stjórnvöld rækilega á það að þetta verkefni þurfi að vera í forgangi og að við ætlum ekki að sætta okkur við að það taki allt að 300 ár í að jafnrétti verði náð hér á landi.


Höfundur er formaður BSRB.

Greinin birtist í 19. júní - tímariti Kvenréttindafélags Íslands