Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

23. ágúst 2024

Vitfyrring nýfrjálshyggjunnar

Eftir Þórarin Eyfjörð

Þegar við Íslendingar berum saman lífsgæði okkar við önnur vel sett samfélög lítum við gjarnan til Norðurlandanna og þjóðríkja í Norður-Evrópu. Þetta á sér augljósar skýringar sem liggja meðal annars í skyldleika, tungumáli, menningu og nálægð. Helsti munurinn á okkur og þeim samfélögum sem við viljum bera okkar saman við er mannfjöldinn. Á okkar kæra móðurlandi erum við örþjóð á hvaða mælikvarða sem er. Við eru álíka fjölmenn og íbúar Árósa í Danmörku, en á sama tíma búum við í langtum stærra landi. Þessir tveir þættir, fámenni og stærð landsins, gera alveg sérstakar kröfur til þjóðarinnar. Við sækjumst eftir lífsgæðum og velferð sem á að þola allan samanburð við nágrannalöndin. En ef við ætlum að búa við sterkt, öruggt og velmegandi samfélag, verðum við að gefa spilin rétt og tryggja að öllum sé boðið sæti við borðið. Það má ekki vera innbyggt í leikreglurnar að sumir fái ekki tækifæri til að vera með, það séu alltaf sömu hóparnir sem fái Svarta Pétur – og aðrir alltaf bestu mannspilin. Það má ekki vera þannig að sumir baði sig alltaf í fljótandi kampavíni meðan öðrum sé gert að þvo sér í flórnum.

 

Einstaklingshyggjan vegsömuð
Samfélög algilds jöfnuðar í okkar heimshluta eru ekki til. En það eru til samfélög þar sem áhersla er lögð á jöfnuð. Þar sem markmiðið er að allir eigi möguleika á að njóta velferðar í sínu lífi, og markvisst stefnt að því að grunnstoðir samfélagsins séu sem sterkastar.

Á síðustu fjórum áratugum hefur verið gerð hörð atlaga að jöfnuði, samkennd og samtakamætti almennings, bæði hér á landi og víðar eins og við þekkjum. Með vitfirringu frjálshyggjunnar hefur markvisst verið molað undan grunnstoðum samfélagsins og samheldni. Botnlausum áróðri hefur verið beitt til að vegsama einstaklingshyggjuna, einkavinavæðinguna og tilbeiðslu á ofsagróða einstaklinga. Þessum áróðri hefur hefur verið haldið linnulaust á lofti af boðberum nýfrjálshyggjunnar. Og áróðurinn hefur skilað árangri – eða eigum við að segja afleiðingum. Hér bera stjórnvöld mikla ábyrgð því þjóðin hefur þurft að þola ofsafengna eignatilfærslu frá almenningi til fjármagnseigenda og peningaelítunnar, án þess að stjórnvöld hafi brugðist við með því að tryggja hagsmuni almennings.

Í efnahagshruninu 2008 og eftirmála þess misstu þúsundir heimila aleigu sína. Með vanhugsuðum ákvörðunum Seðlabanka Íslands kringum 2020 er almenningur og fyrirtæki núna að borga fyrir þá sturluðu aðgerð að keyra stýrivexti niður í svo að segja ekki neitt. Ein afleiðingin þess er sú að núna er verið er að brenna upp eigið fé þúsunda heimila. Og stjórnvöld koma ekki almenningi til varnar. Ekki nú frekar en áður.

 

Almenningi haldið í óvissu
Það þarf traust og sátt í samfélaginu til að stuðla að jafnvægi, velferð og vexti. Til að tryggja samfélagslega sátt þarf almenningur að hafa vissu fyrir því að rétt sé gefið í spilinu. Að fólk búi við jafna möguleika til að vinna í haginn fyrir sig og fjölskyldu sína. Það verður ekki gert nema öllum sé tryggt aðgengi að samtryggingu, menntun, þroskandi frístundum og velferðarkerfinu óháð efnahag. Til þess að svo megi verða er dagsljóst að við þurfum að endurskoða og endurhanna skattkerfið á Íslandi. Við verðum að tryggja grunnstoðirnar og samfélagslega innviði með öllum ráðum. Meðal annars með því að koma málum þannig fyrir að stjórnvöld og Alþingi hafi áhuga á velferð almennings.

Það er engum blöðum um það að fletta að skattleggja verður sterkefnaðasta hluta samfélagsins með allt öðrum hætti en nú er gert. Ljóst er að ríkasta fólk landsins er að stórum hluta þau sem hafa haft aðgang að eigum allra landsmanna án þess að greiða til samfélagsins eðlilegan hluta af þeim arði sem þar myndast. Þessu verður að breyta með því að skattleggja sérstaklega arðgreiðslur hjá sjávarútvegsfyrirtækum og öðrum fyrirtækjum sem hafa aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Það á einnig að tryggja að söluhagnaður, sem myndast þegar aðgangur að auðlindum almennings eru seldar milli einkafyrirtækja, renni að stærstum hluta til almennings gegnum skattkerfið.

 

Ríkasta 1 prósentið
Heildareignir einstaklinga á Íslandi eru um 10.000 milljarðar króna. Ríkasta 1%-ið á um 25% af þeim eignum, eða um 2.400 milljarða króna. Í þessum hópi er að finna auðævi sem hafa orðið til vegna nýtingar á eigum almennings. Sá auður hefur að hluta til verið notaður til að kaupa upp 90 prósent af öllu íbúðarhúsnæði sem hefur verið selt á þessu ári, með tilheyrandi hækkunum á húsnæðisverði og verðbólguáhrifum. Með þessu rugli er verið að útiloka ungt fólk og kynslóðir framtíðar frá því að eignast þak yfir höfuðið. Það er verið að koma í veg fyrir eignamyndun hjá því sama unga fólki sem þarf að treysta á stjörnugalinn leigumarkað. Ekki verður séð að stjórnvöld hafi nokkurn áhuga á að regluvæða þennan markað með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Það verður að gefa spilin upp á nýtt og styrkja tekjumódel hins opinbera þar sem auðlegðin liggur. Arður af sameiginlegum auðlindum á að renna að stærstum hluta til þjóðarinar sjálfrar. Það verður einnig að endurhugsa skattlagningu fjármagnstekna og arðs hjá þeim sem hagnast hafa á eigin hugviti, nýsköpun og framtakssemi. Sá hópur verður einnig að greiða sanngjarna skatta til samfélagsins, þó að þar eigi að fara aðra og mildari leið en þegar um arð og söluhagnað af eigum almennings er að ræða.

Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu og 1. varaformaður BSRB.

Greining birtist fyrst í Heimildinni.