15. september 2024
Mannauðskönnun sem gagnast opinberum vinnumarkaði
Eftir Jakobínu Þórðardóttur
Eitt af markmiðum Sameykis er að bæta starfsumhverfi félagsfólks, efla starfsþróun þess, styðja við stjórnendur í að vinna að umbótum á starfsumhverfinu og auka starfsánægju.
Stofnun ársins er ítarleg og vönduð mannauðskönnun á starfsskilyrðum, stjórnun og líðan á vinnustað sem Sameyki stendur að í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Reykjavíkurborg. Könnunin nær til launafólks á opinberum vinnumarkaði, ríflega 33 þúsund manns, og er þetta ein af umfangsmestu reglulegu vinnumarkaðskönnunum sem gerðar eru á Íslandi. Niðurstöður könnunarinnar veita bæði afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir. Í könnuninni er hægt að bera saman starfsumhverfi vinnustaða með árangursríkum hætti.
Mikilvægi þátttöku í könnuninni
Könnunin verður send til starfsfólks í október næstkomandi. Gallup vinnur úr gögnunum og 13. febrúar 2025 verða niðurstöðurnar kynntar. Mikilvægt er fyrir vinnustaði, starfsfólk og stjórnendur að vel takist að fá fólk til að taka þátt í mannauðskönnuninni. Með góðri þátttöku fást betri upplýsingar m.t.t. þess að niðurstöðurnar komi að sem mestu gagni þegar litið er til velsældar, kynbundins launamunar og inngildingar, svo dæmi séu tekin, á opinberum vinnumarkaði. Við hjá Sameyki og þau sem standa að þessari mannauðskönnun hvetjum félagsfólk til að taka þátt í könnuninni og fá þar með tækifæri til að hafa áhrif á sinn vinnustað.
Framkvæmd könnunarinnar
Framkvæmd könnunarinnar er alfarið í höndum Gallup sem sendir spurningalista í tölvupósti til starfsfólks vinnustaðanna og vinnur niðurstöður úr svörunum. Starfsfólk getur svarað könnuninni á íslensku, ensku eða pólsku. Starfsfólki sem ekki hefur virkt netfang stendur til boða að fá senda slóð á könnunina með smáskilaboðum (SMS) og getur þá svarað könnuninni í snjallsíma. Einnig getur félagsfólk nálgast könnunina á Mínum síðum Sameykis. Í könnuninni er meðal annars spurt um traust til stjórnenda, virðingu fyrir starfsfólki, stolt gagnvart vinnustað, vinnuálag, launakjör, starfsanda, jafnrétti o.m.fl.
Höfundur er deildarstjóri kjaradeildar Sameykis