16. september 2024
Ertu að bíða?
„Það sem hentar einum hentar ekki endilega öllum. Þess vegna er gott að afla sér upplýsinga um réttindi sín og þær reglur sem eru í gildi á hverjum tíma, s.s. eins og skattareglur og reglur almannatrygginga, áður en ákvörðun er tekin.“
Eftir Þóru Jónsdóttur
Það er algengur misskilningur að bíða þurfi eftir að hætta í starfi til að byrja á lífeyri, að ná þurfi tilteknum aldri eða að byrja þurfi á lífeyri á sama tíma hjá öllum þeim lífeyrissjóðum sem greitt hefur verið í yfir starfsævina.
Vissulega er almenna reglan sú að við verðum að vera orðin 60 ára til þess að geta byrjað á lífeyri, en við þurfum ekki endilega að bíða til 65 eða 67 ára aldurs. Í flestum tilvikum getum við byrjað á lífeyri samhliða starfi okkar, hvort sem við erum enn í 100% starfshlutfalli eða viljum minnka starfshlutfall að hluta. Einnig getum við ráðið því sjálf hvort við byrjum að taka lífeyri úr einum sjóði eða fleirum, eða öllum á sama tíma.
Margir kjósa að auka ráðstöfunartekjur sínar samhliða starfi með því að byrja á lífeyri hjá lífeyrissjóði/sjóðum þar sem réttindi eru lægri eða voru áunninn á styttra tímabili starfsævinnar, en kjósa að bíða með að byrja á lífeyri úr sínum „aðalsjóði“, þ.e. þar sem eru hærri lífeyrisréttindi eða sem greitt er til í núverandi starfi. Hafa þarf í huga að í einhverjum tilvikum gætum við verið að minnka ávinnsluna okkar ef við byrjum að taka út lífeyri og þegar við byrjum á eftirlaunum gefum við eftir rétt til örorkulífeyris.
Mikilvægt að kynna sér lífeyrisréttindin
Það sem hentar einum hentar ekki endilega öllum. Þess vegna er gott að afla sér upplýsinga um réttindi sín og þær reglur sem eru í gildi á hverjum tíma, s.s. eins og skattareglur og reglur almannatrygginga, áður en ákvörðun er tekin. Við hjá Brú lífeyrissjóði hvetjum þig eindregið til þess að skoða réttindi þín í lífeyrisgáttinni og nýta þér lífeyrisreiknivélina okkar, en hvort tveggja er aðgengilegt á heimasíðu sjóðsins lifbru.is. Einnig hvetjum við þig til þess að fá ráðgjöf hjá okkur með því að bóka samtal á heimasíðunni eða með því að hringja í síma 5 400 700.
Ekki bíða, aflaðu þér upplýsinga og fáðu ráðgjöf.
Höfundur er sviðstjóri réttindasviðs Brúar lífeyrissjóðs