Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

16. september 2024

Hugað að starfslokum

Hálf eftirlaun eru góður valkostur fyrir þá sem vilja hefja eftirlaunatöku fyrir 67 ára. Þá er helmingur eftirlaunaréttinda greiddur mánaðarlega, með þeirri lækkun sem fylgir því að taka eftirlaun snemma. Hinn helmingur réttindanna þróast áfram í takt við reglur sjóðsins þar til sjóðfélagi sækir um útgreiðslur á heildareftirlaunum.

Eftir Dísu Björg Jónsdóttur

Meðalævi Íslendinga hefur lengst síðustu áratugi og það eru góðar fréttir. Lengri ævi þýðir að árum eftir starfslok fjölgar og til að njóta þeirra sem best er gott að huga tímanlega að eftirlaunaárunum.


Svigrúm til töku eftirlauna
Sjóðfélagar í A-deild LSR (Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins) hafa talsvert svigrúm við töku eftirlauna og með því að kynna sér vel þá kosti sem í boði eru er hægt að sníða eftirlaunin að högum hvers og eins.

Hjá A-deild LSR er almennur eftirlaunaaldur 67 ára. Lífeyristaka getur þó hafist hvenær sem er á aldrinum 60 til 80 ára með tilheyrandi lækkun eða hækkun eftirlaunagreiðslna eftir því hvort farið er á eftirlaun fyrir eða eftir 67 ára. Ekki er nauðsynlegt að láta af störfum samhliða eftirlaunatöku úr A-deild og launatekjur skerða ekki eftirlaunagreiðslur úr sjóðnum. Sjóðfélagar sem halda áfram í starfi samhliða eftirlaunatöku greiða áfram í sjóðinn en þau réttindi bætast við eftirlaunagreiðslur frá 70 ára aldri.


Kostir og gallar hálfra eftirlauna
Hálf eftirlaun eru góður valkostur fyrir þá sem vilja hefja eftirlaunatöku fyrir 67 ára. Þá er helmingur eftirlaunaréttinda greiddur mánaðarlega, með þeirri lækkun sem fylgir því að taka eftirlaun snemma. Hinn helmingur réttindanna þróast áfram í takt við reglur sjóðsins þar til sjóðfélagi sækir um útgreiðslur á heildareftirlaunum. Þá bætist sá helmingur við eftirlaunagreiðslurnar auk þeirra réttinda sem bæst hafa við ef sjóðfélagi hélt áfram vinnu. Þetta getur haft ýmsa kosti í för með sér, eins og t.d. að ekki þarf að bíða fram að sjötugu þar til réttindi sem ávinnast samhliða lífeyristöku bætast við eftirlaunagreiðslur.

LSR hvetur sjóðfélaga til að kynna sér valkosti við töku eftirlauna tímanlega inn á vefsvæði LSR, lsr.is. Á mínum síðum sjóðsins er hægt að sjá hvernig fjárhæð eftirlauna hækkar eða lækkar eftir mismunandi lífeyristökualdri. Jafnframt er starfsfólk sjóðsins ávallt reiðubúið að aðstoða og svara fyrirspurnum sjóðfélaga.

Höfundur er deildarstjóri lífeyrisdeildar hjá LSR