Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. september 2024

Mikilvægi inngildingar á vinnumarkaði í nútímasamfélagi

Mynd gerð með gervigreind AI

„Verkalýðsfélög voru stofnuð til að auka jöfnuð og inngildingu almennings á vinnumarkaðnum. Sögulega hafa margir hópar verið jaðarsettir á grundvelli kynþáttar, uppruna, kyns, kynhneigðar, fötlunar og félagslegrar stöðu. Þessi útilokun á vinnumarkaði og í samfélaginu hefur ekki aðeins svipt einstaklinga réttindum sínum og tækifærum heldur hefur hún einnig viðhaldið hringrás fátæktar, mismununar og félagslegrar ólgu.“

Eftir Axel Jón Ellenarson

Töluvert er fjallað um útlendingamál í íslensku samfélagi og inngildingu þess stóra hóps á vinnumarkaðnum. Hingað til lands kemur útlent vinnuafl m.a. til að hjálpa við að reka opinbera þjónustu; í heilbrigðiskerfinu, menntastofnunum, heilsugæslu, samgöngum, öldrunarheimilum, þjónustu við fatlaða o.fl. Að auki starfa þúsundir fólks af útlendum uppruna á almennum vinnumarkaði í fjölbreyttum þjónustustörfum, í byggingariðnaði og að stórum hluta við ferðaþjónustu. Það blasir við að hér á landi er útlent vinnuafl nauðsynlegt til að halda við innviðum og halda uppi þjónustustigi á opinberum og almennum vinnumarkaði. Þjóðin eldist hraðar og það kallar á aukna þjónustu og öfluga innviði.

 

Meginregla hugtaksins inngilding nær lengra en til umburðarlyndis og hvetur til virkrar þátttöku í samfélaginu
Hugtakið inngilding þýðir samkvæmt Íðorðabók Árnastofnunar samfélag án aðgreiningar: „Skilgreining: Stefna sem felur í sér að allir fái notið sín, óháð uppruna, kyni, hæfni eða fötlun, í skóla, á vinnumarkaði eða á öðrum vettvangi, og séu viðurkenndir sem fullgildir þátttakendur.“ Inngilding á að tryggja að allir einstaklingar, óháð bakgrunni, getu og hæfni, kynferði, trú eða aðstæðum sem þeir eru í, hafi jafnan aðgang að tækifærum og úrræðum í samfélaginu. Það er meginregla hugtaksins sem nær lengra en til umburðarlyndis og mælir þess í stað fyrir virkri þátttöku og samþættingu fjölbreyttra sjónarhorna á öllum sviðum lífsins. Í nútímasamfélagi er ekki hægt að ofmeta mikilvægi þátttöku án aðgreiningar, þar sem það er grundvallaratriði til að skapa jafnara, réttlátara og blómlegra samfélag.


Að tileinka sér hugtakið og innleiða nýja stefnu á vinnustaðnum
Ein mikilvægasta ástæðan fyrir því að efla inngildingu, og þar með samfélag án aðgreiningar, er bein áhrif á félagslegan jöfnuð. Verkalýðsfélög voru stofnuð til að auka jöfnuð og inngildingu almennings á vinnumarkaðnum. Sögulega hafa margir hópar verið jaðarsettir á grundvelli kynþáttar, uppruna, kyns, kynhneigðar, fötlunar og félagslegrar stöðu. Þessi útilokun á vinnumarkaði og í samfélaginu hefur ekki aðeins svipt einstaklinga réttindum sínum og tækifærum heldur hefur hún einnig viðhaldið hringrás fátæktar, mismununar og félagslegrar ólgu (People first – Diversity and inclusion). Þegar vinnustaðir og starfsfólk tileinkar sér hugtakið „án aðgreiningar“ á vinnumarkaðnum getur samfélagið byrjað að afnema þær kerfisbundnu hindranir sem blasa við og boðið öllum sanngjarnt tækifæri til að ná árangri og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Með öðrum orðum; að innleiða stefnuna.


Fjölbreyttari raddir, fjölbreyttara samfélag fyrir alla
Þar að auki eykur þátttaka fólks af ólíkum menningaruppruna ríkidæmi og sköpunargáfu samfélagsins, hvers hóps eða vinnustaðar. Þegar fjölbreyttar raddir heyrast og eru metnar að verðleikum leiðir það til fjölbreyttari hugmynda, sjónarmiða og lausna. Sem dæmi geta vinnubrögð án aðgreiningar ýtt undir nýsköpun, velgengni og velsæld. Vinnustaðir sem setja fjölbreytileika og þátttöku allra í forgang standa sig oft betur en aðrir þar sem þeir eru betur í stakk búnir til að skilja og mæta þörfum nútímasamfélagsins. Það hefur sýnt sig í vinnumarkaðsrannsóknum hér á landi (Varða, 2024) og erlendis. Á sama hátt skapar inngilding án aðgreiningar umhverfi þar sem allir nemendur geta lært hver af öðrum, eflt samkennd, gagnrýna hugsun og dýpri skilning á samfélaginu sem þeir lifa í.


Samfélag þar sem einstaklingar finna að þeir tilheyra og tengjast
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur að markmiði að hlúa að fjölbreyttu og innihaldsríku vinnuumhverfi, án mismununar, þar sem vinnuafl hverrar þjóðar er fulltrúi samfélagsins. Þátttaka í inngildingu gegnir því mikilvægu hlutverki við að efla félagslega samheldni. Samfélag sem metur og er meðvitað um inngildingu án aðgreiningar er samfélag þar sem einstaklingar finna að þeir tilheyra og tengjast (Inclusive labour markets). Stéttarfélög og heildarsamtök (European Commission, e.d.-a) þeirra segja að tilfinningin um að tilheyra á vinnustaðnum sé nauðsynleg fyrir andlega heilsu og vellíðan þar sem hún hjálpar til við að draga úr einangrunartilfinningu og útilokun. Með því að tryggja að allir hafi sess við borðið á vinnumarkaðnum sem og í samfélaginu öllu byggist upp sterkari vinnumarkaður og samfélag þar sem líklegra er að fólk vinni saman að lausn sameiginlegra áskorana sem það stendur frammi fyrir í þessum málum.

Samantekið má segja að meðvituð og virk inngilding án aðgreiningar í samfélaginu, og á vinnumarkaði, sé ekki aðeins siðferðisleg skylda, heldur hagnýt nauðsyn í samfélagi nútímans. Inngilding er lykillinn að því að opna fyrir möguleika einstaklinga og hópa, knýja fram nýsköpun, stuðla að jöfnuði og efla tilfinningu um einingu. Nauðsynlegt er að inngilding verði þannig miðpunktur sameiginlegrar viðleitni okkar til að byggja betri vinnumarkað og betra samfélag – og þar með réttlátari heim.

 

fundur er kynningafulltrúi Sameykis og ritstjóri Tímarits Sameykis.

 

Heimildir:
European Commission. (e.d.-a). Inclusive labour markets. Sjá hér.
European Commission. (e.d.-b). People first – Diversity and inclusion. Sjá hér.
Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins. (2024). Staða launafólks á Íslandi: Niðurstöður spurningakönnunar meðal félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Rafhlaðan. Sjá hér.