Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. september 2024

Staða innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði

Hvergi í Evrópu hefur hlutfall innflytjenda aukist jafn hratt og á Íslandi síðastliðinn áratu samkvæmt rannsóknum OECD.

„Innflytjendur gegna mikilvægu hlutverki á íslenskum vinnumarkaði, en þeir telja nú um fjórðung vinnuafls í landinu. Atvinnuhlutfall þeirra og þátttaka er með hæsta móti meðal ríkja OECD – og atvinnuþátttakan er í raun meiri en innfæddra. Sömuleiðis er minni munur milli hópa en gengur og gerist annars staðar, svo sem milli karla og kvenna, og innflytjenda frá EES og utan þess.“

Eftir Hlöðver Skúla Hákonarson

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) framkvæmdi nýverið úttekt á stöðu innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði. Er þetta fyrsta heildstæða megindlega rannsóknin á stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi og í henni má finna töluvert af áður óséðum niðurstöðum. Hluti gagnanna sem stofnunin nýtti sér var fenginn frá Vörðu – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, en kannanir Vörðu njóta þeirrar sérstöðu að ná einstaklega vel til innflytjenda.


Hlutfall innflytjenda af heildarfjölda í ríkjum OECD, 2011 og 2021.

Hvergi í Evrópu hefur hlutfall innflytjenda aukist jafn hratt og á Íslandi síðastliðinn áratug (Mynd 1). Innflytjendur gegna mikilvægu hlutverki á íslenskum vinnumarkaði, en þeir telja nú um fjórðung vinnuafls í landinu. Atvinnuhlutfall þeirra og þátttaka er með hæsta móti meðal ríkja OECD – og atvinnuþátttakan er í raun meiri en innfæddra. Sömuleiðis er minni munur milli hópa en gengur og gerist annars staðar, svo sem milli karla og kvenna, og innflytjenda frá EES og utan þess. Verða þetta að teljast góðar niðurstöður í alþjóðlegum samanburði.


Víða tækifæri til umbóta
Hvað inngildingu og aðlögun innflytjenda að samfélaginu varðar eru þó víða tækifæri til umbóta. Ljóst er að innflytjendur halda uppi láglaunagreinum á borð við ferðaþjónustu og eru oft of hæfir fyrir störfin sem þeir sinna, sem felur í sér samfélagslega sóun. Rúmlega þriðjungur háskólamenntaðra innflytjenda sinnir starfi sem krefst ekki slíkrar menntunar, en meðal innfæddra er hlutfallið 10%. Bilið á milli þessara tveggja hópa er hvergi meira innan OECD.

Greiningar OECD hafa leitt í ljós að færni í íslenskri tungu hefur mikil áhrif á stöðu innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði. Þannig eru þau sem hafa færni í tungumálinu líklegri til að vera í störfum sem eru í samræmi við menntunarstig þeirra og sömuleiðis er fylgni milli minni tungumálafærni og upplifunar innflytjenda á mismunun. Segja þessar niðurstöður okkur að inngilding skiptir máli og því fylgja kostir fyrir bæði innflytjendur og samfélagið í heild.


Inngildingu ofar á dagskrá stjórnvalda
Fullt tilefni er til að setja inngildingu ofar á dagskrá stjórnvalda. Um helmingur innflytjenda á Íslandi ætlar sér að setjast hér að, og þriðjungur er óákveðinn. Fá ummerki eru um að fólksflutningar hingað til lands muni hægja á sér. Er það samfélaginu öllu til framdráttar að standa betur að inngildingu og stuðla þannig að félagslegri samheldni til lengdar. Þurfa aðgerðirnar sem fylgja að vera hnitmiðaðar og tækla þau vandamál sem blasa við þessum stóra hópi samfélags okkar. OECD hefur til að mynda nefnt tungumálakennslu á vinnutíma og aukinn stuðning í skólum fyrir börn af erlendum uppruna sem dæmi um æskilegar aðgerðir sem stjórnvöld gætu beitt til að bæta stöðu þessa hóps.

Höfundur er rannsóknastjóri Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins