21. nóvember 2024
Framfarir í umhverfi hins opinbera
Bjarni benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
„Við verðum þess vegna að nýta tækifærin til að bæta opinberan rekstur, taka tækninni opnum örmum og auka skilvirkni hvar sem hægt er.“
Eftir Bjarna Benediktsson
Það hefur margt gengið vel síðustu ár. Hagkerfið okkar hefur vaxið og dafnað þannig að kaupmáttur hefur aukist um fimm- til áttfalt hraðar en á hinum Norðurlöndunum. Aukningin hefur skilað sér tiltölulega jafnt til launafólks eftir mörkuðum miðað við þróun launavísitölu. Þessi þróun gerist ekki sjálfkrafa. Atvinnulífið hefur dafnað vel og þar skipta nýjar stoðir útflutnings miklu máli. Frá 2019 hefur til að mynda um helmingur vaxtar í útflutningi komið úr greinum á borð við lyfjaiðnað og fiskeldi, eða með öðrum orðum frá annarri starfsemi en rótgrónari greinum eins og stóriðju, ferðaþjónustu og sjávarútvegi.
Vandinn er mikil verðbólga og háir vextir
Þrálát verðbólga og óásættanlegt vaxtastig hefur hins vegar verið mikil áraun fyrir landsmenn. Þó kaupmáttur hafi vaxið stöðugt þá er einfaldlega óásættanlegt til lengdar að greiða 10% húsnæðisvexti. Þess vegna hefur baráttan gegn verðbólgu verið forgangsmál. Verðbólga mælist nú 5,1% en stóð í 7,9% fyrir ári síðan. Allar spár benda til frekari hjöðnunar næstu mánuði og þess vegna getum við verið bjartsýn um að vextir haldi áfram að lækka samhliða því. Þetta er stærsta hagsmunamál íslenskra heimila og fyrirtækja, og við megum ekki raska áframhaldandi árangri.
Forsendur kjarasamninga eru forsendur stöðugleika
Þegar kjarasamningar voru undirritaðir á almennum vinnumarkaði í vor lagði ríkisstjórnin fram myndarlegan aðgerðapakka til að styðja við markmið þeirra. Kjarasamningarnir voru enda til þess fallnir að styðja við minnkandi verðbólgu og þar af leiðandi lækkun vaxta. Til að það takist þurfa forsendur kjarasamninga og þess merkis sem þeir senda að halda fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni. Eða eins og Guðmundur Jaki sagði við undirritun þjóðarsáttarinnar: „Það þýðir ekki að keyra áfram einhverjir sérhópar upp yfir aðra. Þá er þetta hrunið og það hrynur yfir þá hina sömu.“
Jöfnun launa, jöfnun kjara
Mikil vinna hefur átt sér stað í jöfnun launa milli markaða og í fyrra náðist áfangasamkomulag í þeim efnum. Það á þó stundum til að gleymast að horfa verður á kjör í heild sinni, ekki heildarlaun eða grunnlaun án alls samhengis. Taka verður tillit til þess að almennt eru orlof, uppsagnarvernd og önnur réttindi ríkari á opinberum vinnumarkaði. Við jöfnun kjaranna eru því sömuleiðis tækifæri til að skapa sveigjanleika í rekstri hins opinbera sem eykur skilvirkni, nýsköpun og stuðlar að betri kjörum starfsfólks til lengri tíma. Þannig mætti líka auðvelda ungu fólki framgang og tryggja að hæfileikar allra nýtist sem best.
Snýst allt um góða þjónustu
Áskoranir í opinberum rekstri eru margar og fara síst minnkandi eftir því sem þjóðin eldist. Við verðum þess vegna að nýta tækifærin til að bæta opinberan rekstur, taka tækninni opnum örmum og auka skilvirkni hvar sem hægt er. Við sem störfum hjá hinu opinbera erum fyrst og síðast í þjónustuhlutverki við fólkið í landinu. Störf okkar, rekstrarform og fyrirkomulag eiga þess vegna umfram allt að snúast um þetta: Hvernig veitum við betri þjónustu?
Höfundur er forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins