Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

21. nóvember 2024

Mannúð og mannvirðing

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

„Við viljum styrkja opinbera þjónustu með því að fjárfesta í þeim mikla mannauði sem finnst svo víða í því fólki sem vinnur fyrir bæði ríki og sveitarfélög og undirstofnanir þeirra.“

Eftir Ingu Sæland

Flokkur fólksins hefur ávallt sett mikla áherslu á mannúð og mannvirðingu. Við leggjum áherslu á að þessi gildi verði höfð að leiðarljósi í opinberri þjónustu, sem og í samskiptum hins opinbera við starfsfólk sitt. Við höfum ávallt sett velferð fólks í forgrunn í okkar stefnumótun. Varðandi opinbera þjónustu og störf opinbers starfsfólks leggur flokkurinn mikla áherslu á að tryggja gæði þjónustunnar og að hún sé aðgengileg öllum landsmönnum, óháð efnahag eða búsetu. Ljóst er að lykilþáttur í að tryggja gæði opinberrar þjónustu er að skapa gott vinnuumhverfi og góðar starfsaðstæður hjá opinberum starfsmönnum.

Við í Flokki fólksins lítum svo á að opinber þjónusta sé einn af hornsteinum samfélagsins og nauðsynleg til að tryggja jafnræði og velferð. Við viljum styrkja opinbera þjónustu með því að fjárfesta í þeim mikla mannauði sem finnst svo víða í því fólki sem vinnur fyrir bæði ríki og sveitarfélög og undirstofnanir þeirra. Það þarf að tryggja að hlustað sé á opinbera starfsmenn þegar þeir benda á hvaða hnökrar séu á starfsemi ríkisstofnana og hvað mætti gera betur. Það þarf jafnframt að koma í veg fyrir að stofnanir og verkefni séu lögð niður á óbeinan hátt með fjársvelti. Við verðum að veita fólki verkfæri til að sinna störfum sínum á skilvirkan hátt.

Við í Flokki fólksins viljum að ríkisfjármálin séu ábyrg og sjálfbær. Það verður að binda enda á halla ríkissjóðs. Það einfaldlega gengur ekki að reka ríkið með halla 9 ár í röð. En það er hægt að fara ýmsar leiðir til að ná því markmiði, sumar skynsamar, aðrar ekki. Við í Flokki fólksins viljum leggja niður gæluverkefnin og efla grunnþjónustuna. Styrkja þá þætti opinberrar þjónustu sem eru samfélaginu nauðsynlegir, en koma í veg fyrir sífelldar stefnubreytingar, starfshópaskipanir og styrkveitingar, sem koma rakleiðis úr pólitískum loforðum fráfarandi ríkisstjórnar. Við munum ekki skerða grunnþjónustu við borgarana. Við munum þess í stað forgangsraða fjármunum fyrir fólkið fyrst.

Með þessari stefnu vonast Flokkur fólksins til að byggja upp réttlátara og mannúðlegra samfélag þar sem velferð einstaklinga er sett í fyrirrúm og opinber þjónusta er burðarásinn í að tryggja gæði lífs fyrir alla.


Höfundur er formaður Flokks fólksins