21. nóvember 2024
Náum framförum með uppbyggingu – ekki niðurrifi
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
„Við verðum að vinna heiðarlega að því að sinna lögbundnum verkefnum og til þess að gera það þá þurfum við að fjármagna lögbundna þjónustu – í þágu þeirra sem þurfa á henni að halda.“
Eftir Björn Leví Gunnarsson
Kannist þið við áróðurinn um fjölda opinberra starfsmanna sem hefur verið hávær á undanförnum misserum? Áróður um gríðarlega fjölgun opinberra starfsmanna á sama tíma og ýjað er að því að það sé einhvern veginn rosalega slæmt?
Ég hef aldrei skilið þann áróður því hvert sem ég horfi, út frá störfum mínum í fjárlaganefnd, þá virðist vera gríðarlegt álag í opinberri þjónustu: Skortur á starfsfólki í heilbrigðiskerfinu. Skortur á starfsfólki í menntakerfinu. Skortur á starfsfólki til þess að sinna lögbundnu eftirliti með samkeppnismarkaðnum, í sjávarútvegi, á byggingarmarkaði og svo mætti lengi telja. Kvartað er yfir því hversu lengi þarf að bíða eftir ýmiss konar úrskurðum eða ákvörðunum frá hinu opinbera – en samt má ekki ráða fólk til þess að sinna þeim verkefnum?
Hvernig gengur þetta upp? Að kvartað sé undan verkefnaálagi annars vegar og hins vegar kvartað undan því að það sé of mikið af starfsfólki að sinna verkefnunum? Er ekki einhver hræsni í því?
Virðist vera um viljandi vanmat að ræða
Píratar hafa lengi gagnrýnt fjárlög fráfarandi ríkisstjórnar í þessu samhengi. Að það sé ekki skýrt hvort fjárlög dugi til þess að sinna lögbundnum verkefnum. Til dæmis eru lög um fullnustu refsinga ekki uppfyllt – það vantar fangaverði og þjónustu til þess að farið sé eftir lágmarkskröfum þeirra laga. Við vitum einnig að Landhelgisgæslan getur ekki sinnt öllum þeim verkefnum sem hún er skuldbundin til þess að sinna. Við vitum að lögreglan, umboðsmaður Alþingis, Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun og fjölmargar aðrar stofnanir eru of fáliðaðar til þess að sinna þeim verkefnum sem lög kveða á um.
Það er einföld staðreynd að þau lög sem Alþingi hefur samþykkt á undanförnum árum hafa ítrekað verið vanmetin að umfangi. Þetta á sérstaklega við um lög vegna farsældar barna og þjónustu við fatlað fólk sem munu kosta ríkissjóð margfalda milljarða á við kostnaðarmat laganna sjálfra – með tilheyrandi álagi á fjárhag sveitarfélaga. Það er ekki annað að sjá á þeim lögum en að um viljandi vanmat sé að ræða. Reykjavíkurborg benti meðal annars á stóraukinn kostnað vegna laganna um þjónustu við fatlað fólk með kostnaðarmati sem hefur staðist miðað við þróun á raunkostnaði.
Opinber stjórnsýsla verði rekin af fagfólki
Við Píratar viljum alls ekki starfa með þessum hætti. Við verðum að vinna heiðarlega að því að sinna lögbundnum verkefnum og til þess að gera það þá þurfum við að fjármagna lögbundna þjónustu – í þágu þeirra sem þurfa á henni að halda.
Píratar vilja einnig efla nýsköpun innan opinberrar þjónustu svo það sé svigrúm til þess að gera meira og betur í staðinn fyrir að setja flatan niðurskurð á allar stofnanir til þess að neyða þær í hagræðingaraðgerðir. Náum framförum með uppbyggingu en ekki niðurrifi.
Píratar hafa lagt fram tillögu um sáttmála vegna þeirra starfa sem sinna grunnstoðum samfélagsins. Þar þarf akkeri vinnumarkaðsins að vera – í sátt um sanngjörn laun fyrir þau mikilvægu störf sem sinna grunnstoðunum. Það er einfalt efnahagsmál sem stuðlar að stöðugleika í hagkerfinu og jafnvægi á launamarkaði. Við viljum að opinber stjórnsýsla sé rekin af fagfólki en ekki pólitískt skipuðum hagsmunaaðilum.
Berum virðingu fyrir faglegri vinnu.
Höfundur er þingmaður Pírata