Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

21. nóvember 2024

Niðurskurðarstefnan og viðtal við Clöru Mattei

Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur og fyrrv. ríkisskattstjóri

„Margt í þróun þessara mála á síðustu árum styður kenningar Mattei. Einhliða niðurskurði hefur fyrst og fremst verið beitt af ríkisstjórnum flokka sem hafa hagsmuni fjármagns og fyrirtækja að leiðarljósi. Með niðurskurði opinberrar starfsemi verður umfang einkafyrirtækja meira, framboð á vinnuafli fyrir þau eykst og staða þeirra á vinnumarkaði verður sterkari. Hluti launa í VLF lækkar en hluti fjármagns vex.“

Eftir Indriða H. Þorláksson

Það er viðurkennd aðferð við stjórn efnahagsmála að beita ríkisfjármálum til að hafa áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Hún getur falist í hækkun sem lækkun tekna og gjalda en reyndin er að hún hefur fyrst og fremst verið notuð með lækkun útgjalda eða skatta en síður með hækkun skatta og gjalda. Sú tegund ríkisfjármálastefnu hefur verið nefnd „niðurskurðarstefna“ og er það sem prófessor Clara Mattei ályktar um.

Í viðtalinu við hana í Tímariti Sameykis kemur fram að hún telur að niðurskurðarstefnan þjóni ekki einungis markmiði í ríkisfjármálum heldur sé jafnframt aðferð til að styrkja tök fjármagnseigenda á félagslegum þáttum efnahagslífsins og auka agavald þeirra á vinnumarkaði. Einhliða áhersla á niðurskurð gjalda til aðhalds í ríkisfjármálum í stað hækkunar tekna hefur einnig sætt gagnrýni frá fræðilegu sjónarmiði.

 

Niðurskurður og kreppur
Sú kenning blómstraði um síðustu aldamót að mikill niðurskurður ríkisútgjalda í kreppu leiddi til kröftugs hagvaxtar síðar og var hún m.a. hluti af vopnabúri AGS í stuðningi hans við aðildarríki. Kom það m.a. fram í stuðningsáætlun AGS við Ísland í hruninu en segja má að svo einhliða túlkun hafi verið lögð til hliðar litlu síðar. Áætlanir sjóðsins og íslenskra stjórnvalda haustið 2008 gerðu nánast eingöngu ráð fyrir niðurskurði útgjalda til að vinna á halla ríkissjóðs en eftir ríkisstjórnarskiptin í ársbyrjun 2009 var breytt um stefnu og gert ráð fyrir að um eða yfir helmingi hallans yrði mætt með auknum tekjum auk þess sem meira fé yrði varið í félagslegar aðgerðir, m.a. auknar vaxtabætur og barnabætur. Var það gert með samþykki sjóðsins og skilaði góðum árangri. Hagvöxtur óx fyrr og halli ríkissjóðs minnkaði hraðar en fyrri áætlanir AGS höfðu gert ráð fyrir.

Auðvelt er að benda á önnur tilvik þar sem vikið hefur verið frá kreddufestu í þessum efnum með góðum árangri. Stór hluti endurreisnar Obama-stjórnarinnar í BNA eftir kreppuna 2008 var aukin útgjöld, framlög til uppbyggingar samgönguinnviða svo og aukinn framfærslustuðningur. Í Evrópu ríkti þá fastheldni í ríkisfjármálum sem talið er að hafi seinkað endurreisn efnahagslífs þar. Aðgerðir Biden-stjórnarinnar eftir Covid-áfallið í BNA var einnig að miklu leyti falið í útgjöldum, fjárfestingarhvötum í loftslagsmálum o.fl. Þær aðgerðir þóttu skila nokkuð góðum árangri en hagvöxtur í Evrópu hefur verið dræmur.

Þrátt fyrir sterk fræðileg mótrök og augljós dæmi um lítinn árangur lifir trúin á niðurskurð víða góðu lífi. Fastheldni við hana í Þýskalandi og andstaða þar við að auka tekjur ríkisins stendur þar nú í vegi fyrir virkri efnahagspólitík og hefur það áhrif víðar um álfuna. Hér á landi hafa þessi sömu viðhorf ráðið ferðinni síðan 2013. Litið er á viðbrögðin við Covid og eldgosum sem tímabundin frávik en ríkisfjármálaáætlunin hefur eftir sem áður það að höfuðmarkmiði að skera ríkisútgjöld niður um 2–3% af VLF. Með því er byrðin af þessum áföllum lögð á herðar launafólks og notenda opinberrar þjónustu.

Margt í þróun þessara mála á síðustu árum styður kenningar Mattei. Einhliða niðurskurði hefur fyrst og fremst verið beitt af ríkisstjórnum flokka sem hafa hagsmuni fjármagns og fyrirtækja að leiðarljósi. Með niðurskurði opinberrar starfsemi verður umfang einkafyrirtækja meira, framboð á vinnuafli fyrir þau eykst og staða þeirra á vinnumarkaði verður sterkari. Hluti launa í VLF lækkar en hluti fjármagns vex.

 

Hagvöxtur og samneysla
Kenning niðurskurðarsinna er að með því að skerða opinbera starfsemi aukist umsvif einkarekstrar og hagvöxtur aukist. Þeir líta fram hjá þeirri mikilsverðu staðreynd að eftirspurn almennings, og reyndar atvinnuveganna líka, eftir þjónustu á markaði annars vegar og opinberri þjónustu hins vegar hefur breyst í tímans rás í takt við aukna framleiðni og hagsæld.

Hlutur hins opinbera í VLF hefur á síðustu 100 árum vaxið frá því að vera innan við 20% um 1920 upp í um og yfir 50% í flestum ríkjum Vesturlanda. Þessi hækkun er ekki tilviljun og er ekki komin til vegna pólitískra duttlunga heldur vegna þess að æ fleiri verkefni í nútímasamfélagi eru þess eðlis að þau verða ekki leyst á frjálsum markaði. Aukin framleiðsla vöru og þjónustu vegna tæknilegra framfara, meiri framleiðni, skilvirkara skipulags og auðveldari viðskipta milli landa hefur náð því að svara að mestu eftirspurn til að uppfylla brýnustu þarfir til lífsviðurværis en samhliða hefur eftirspurn vaxið eftir gæðum sem ekki eru í boði á markaði eða ekki er á færi markaðsaðila að veita. Má í því samhengi nefna heilbrigðisþjónustu, framfærsluöryggi, menntun, öryggismál, rannsóknir og vísindi o.m.fl. Eftirspurn eftir opinberri þjónustu hefur vaxið umfram eftirspurn eftir vörum og þjónustu á markaði. Við það bætast lýðfræðilegar breytingar. Framfarir í heilbrigðisvísindum og félagsleg þróun hafa aukið álagið á mörg hinna opinberu kerfa og saman veldur það aukinni hlutdeild hins opinbera í verðmætasköpun og VLF.

Niðurskurðarstefna er því ekki einungis lóð á vogarskál ójöfnuðar. Hún verður líka til þess að ríkið verður ekki í stakk búið til að veita þá þjónustu sem fólkið í landinu vill fá og nauðsynleg er fyrir framfarir og hagsæld til lengri tíma. Stjórnvöld með forpokuð viðhorf til samfélagsins og þarfa þess hafa látið úreltar kennisetningar ráða gerðum sínum í stað þess að horfa til raunveruleikans og leggja mat á alla kosti með hagsmuni heildarinnar í huga.

Þekking og skilningur margra stjórnmálamanna, einkum í flokkum á hægri væng stjórnmála, á þessari félagslegu og hagfræðilegu þróun er takmarkaður. Þeir virðast ekki skilja samhengi skatta og opinberrar þjónustu þegar þeir tuða síbylju sína um lækkun skatta og aðhald. Af ótta við upplýsta kjósendur sem krefjast betri þjónustu þora þeir ekki að nota hugtakið niðurskurður þótt inntakið sé hið sama.


Höfundur er hagfræðingur og fyrrv. ríkisskattstjóri