21. nóvember 2024
Nýtt upphaf
Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, formaður Sameykis. Ljósmynd/BIG
„Verkalýðshreyfingin hefur verið mikilvægasta afl umbóta og breytinga á Íslandi, og við megum ekki missa sjónar á því hlutverki okkar í verkalýðshreyfingunni að vera umbótaafl í samfélaginu.“
Eftir Ingibjörgu Sif Sigríðardóttur
Nú er þetta ár senn á enda. Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Sameyki það sem af er; kjarasamningar við okkar stærstu viðsemjendur – ríki, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga í júní síðastliðnum og samþykktir af félagsfólki í atkvæðagreiðslu í kjölfarið. Vinna stendur yfir að ganga frá þeim kjarasamningum sem eftir eru og vinna við stofnanasamninga er í fullum gangi.
Meginforsendur kjarasamninganna sem undirritaðir voru snemmsumars eru að ríkisstjórnin nái tökum á stjórn efnahagsmála; að stuðla að því að minnka verðbólgu og lækkun vaxta sem er mikið hagsmunamál alls launafólks á vinnumarkaði. Einnig er markmið kjarasamninganna að auka kaupmátt launafólks, skapa fyrirsjáanleika í efnahagslífinu og draga úr verðbólguvæntingum.
Verkalýðshreyfingin hefur verið mikilvægasta afl umbóta og breytinga á Íslandi, og við megum ekki missa sjónar á því hlutverki okkar í verkalýðshreyfingunni að vera umbótaafl í samfélaginu. Misskipting þjóðarauðsins hefur skapað fámenna og ofurríka yfirstétt sem lagt hefur drög að lénskerfi í landinu. Það blasir við að stjórnmálaöflin hafa skapað þessa stöðu ójöfnuðar. Með samstöðu verkalýðshreyfingarinnar og upplýstri umræðu um þetta kerfi og efnahagsstefnu sem við höfum búið við er hægt að snúa af þessari óheillaleið. Það er mikið í húfi fyrir allan almenning í landinu að við jöfnum skiptingu þjóðarauðsins.
Tímaritið er að þessu sinni tileinkað efnahagsmálum. Á síðum þess er fjallað um efnahagsmál, launafólk og samfélag, hvernig hægt er að breyta og snúa við stöðunni með samtakamætti. Clara Mattei, prófessor í hagfræði, er í viðtali í tímaritinu og fjallar um kapítalismann og áhrif þeirrar stefnu á launafólk og allan almenning. Hún segir þetta alls ekki tapaða baráttu fyrir almenning, að snúa af leið niðurskurðarstefnunnar sem íslensk stjórnvöld hafa innleitt, og segir stjórnmálaleiðtoga sem aðhyllast þessa stefnu niðurskurðar hrædda við að almenningur krefjist breytinga. Hún segir í viðtalinu: „Reyndar eru leiðtogarnir í þessu kapítalíska kerfi hræddir við að tapa þessari baráttu. Í þessu sambandi skipta tölur máli og þegar þú skoðar þá staðreynd að meirihluti íbúa heimsins er algjörlega kúgaður af kapítalísku kerfi og almenningur þarf að rísa upp og benda á að þetta sé hvorki náttúrulegt né heilagt kerfi, heldur bara tiltekið kerfi sem við erum í, þá getum við breytt því saman.“
Ég vona að orð hennar veki upp von og baráttuhug til að breyta því hvernig við viljum fara með stjórn efnahagsmála og blása okkur byr í brjóst til að krefjast nauðsynlegra breytinga. Formenn stjórnmálaflokkanna skrifa í tímaritið um velferðarkerfið okkar, almannaþjónustuna og opinber störf. Þar kemur margt fram um hvaða leið við getum valið okkur til framtíðar.
Viljum við nýtt upphaf eða viljum meira af því gamla?
Ég vil að lokum óska félagsfólki í Sameyki og fjölskyldum þeirra gleðilegrar komandi hátíðar með ósk um bjarta framtíð.
Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu