21. nóvember 2024
Öflugt velferðarsamfélag hvílir á sterkum opinberum innviðum
Þorgerður katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar
„Við vitum líka sem er að opinberir starfsmenn eiga sífellt erfiðara að ná endum saman í þeirri spilaborg vaxta og verðbólgu sem okkur hefur verið boðið upp á á undanförnum árum.“
Eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur
Við Íslendingar lifum í mikilli návist við kynngimagnaða náttúru. Mörg höfum við upplifað veðurháska og jafnvel slys tengd náttúruöflum, og sú reynsla dregur fram hversu ómetanlegt starf er unnið hjá vísindafólkinu okkar við að sjá fyrir og vara við háska. Þetta er lítið dæmi um ómetanlegt framlag opinberra starfsmanna í okkar landi en dæmin eru fleiri. Þeir eru óteljandi kennararnir sem breyta lífum nemenda sinna, fólkið í umönnunarstörfum sem dimmu í dagsljós breytir og viðbragðsfólkið okkar sem hleypur að hættu sem við hin hlaupum frá.
Ég heyri í samtölum mínum við fólk í opinberri þjónustu að þeim finnist umræðan oft neikvæð gagnvart þeim og sárnar, skiljanlega, sú orðræða. Mér finnst tímabært að snúa þessu við og byrja að tala upp þá sem skara fram úr í að veita landsmönnum frábæra opinbera þjónustu.
Á hverju ári eru í Bandaríkjunum veitt verðlaun sem heita „The Sammies“ (eða „Samuel J. Heyman Service to America Medals“). Þau eru veitt bandarískum opinberum starfsmönnum sem hafa sýnt framúrskarandi hæfni, frumkvæði og samfélagslega þýðingu í starfi sínu. Verðlaunin draga fram mikilvægi þessara starfa og það áhrifamikla framlag sem opinberir starfsmenn leggja til samfélagsins. Mér finnst þetta fallegt framtak og eitthvað sem við eigum að taka okkur til fyrirmyndar. Að hampa fólkinu sem skapar þær fallegu grunnstoðir sem samfélagið okkar og atvinnulífið byggir á. Við heyrum stundum stjórnmálamenn halda því fram að það sé einungis atvinnulífið sem skapi verðmæti en þá gleymir viðkomandi einu: Án opinberra innviða og þjónustu þá er ekkert umhverfi til staðar til þess að skapa verðmæti. Viðreisn vill sjá lifandi stjórnsýslu, þar sem frumkvæði og sveigjanleiki eru hluti af menningunni. Þetta er nauðsynlegt til að mæta áskorunum nútíðar og ekki síður framtíðar. Markmið okkar er að einfalda stjórnsýslu og innleiða nýsköpun til að bæta þjónustu við almenning og minnka jafnframt álag á starfsfólk.
Þannig sköpum við umhverfi þar sem opinberir starfsmenn geta nýtt sína krafta og þekkingu í að veita þjónustu en ekki í skriffinnsku og óþarfa umstang. Við vitum líka sem er að opinberir starfsmenn eiga sífellt erfiðara að ná endum saman í þeirri spilaborg vaxta og verðbólgu sem okkur hefur verið boðið upp á á undanförnum árum. Þeim hópi er ekki hægt að bjóða betri kjarabót en hagstæðari kjör af íbúðaláninu.
Þá er það einnig vel þekkt að álag á opinbera starfsmenn er oft gríðarmikið og eru þeir í áhættuhópi að missa úr vinnu vegna andlegra veikinda. Þetta er áhyggjuefni og höfum við í Viðreisn sett geðheilbrigðismál í sérstakan forgang. Hlutverk okkar sem vinnum í stjórnmálum gagnvart opinberum starfsmönnum er að tryggja þeim umhverfi þar sem þeir geta unnið störf sín á sem bestan hátt. Þegar opinberir starfsmenn búa við gott starfsumhverfi, hafa tækifæri til starfsþróunar, eru í skapandi umhverfi og njóta sanngjarnra kjara þá skilar það sér í bættri þjónustu sem allir njóta góðs af. Það er leið Viðreisnar!
Höfundur er formaður Viðreisnar