21. nóvember 2024
Opinber störf
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
„Opinber störf eru því stór breyta í efnahagslegu tilliti. Það er mikilvægt að fjárveitingar séu í samræmi við raunverulega þarfir samfélagsins og að fjármagnið sé nýtt sem best.“
Eftir Sigurð Inga Jóhannsson
Grunnþjónusta er hornsteinn samfélagsins. Forsenda velferðar og stöðugleika er að opinber þjónusta sé aðgengileg og skilvirk, að allir óháð búsetu, uppruna, kyni, fötlun eða efnahag hafi jafnan aðgang að heilbrigðis- og velferðarþjónustu, að menntun sé án aðgreiningar, að löggæsla sé til staðar og félagsleg úrræði. Slíkt stuðlar að bættum lífsgæðum og er oft fyrsta skrefið í að tryggja velferð og öryggi einstaklinga. Góð opinber þjónusta eykur einnig traust í samfélaginu. Opinber þjónusta krefst fjárfestinga og útgjalda sem hafa áhrif á ríkissjóð, en hún stuðlar einnig að jöfnuði og styður við atvinnusköpun og hagvöxt.
Mannauðurinn
Hið opinbera hefur það meginhlutverk að standa undir nauðsynlegri grunnþjónustu sem við njótum öll daglega. Á bak við hverja þjónustu er starf og mannauðurinn er dýrmætasta auðlindin sem styðja þarf við. Án hans verður framþróunin engin. Þjálfun og endurmenntun eru nauðsynleg til að tryggja þekkingu og hæfni opinbers starfsfólks, svo hægt sé að mæta þörfum samfélagsins. Gervigreindin kemur nú inn á ógnarhraða og mun verða eðlilegur og ómissandi þáttur í þjónustunni á næstu árum.
Mikilvægi opinberra starfa
Engin tækni getur þó komið í stað mannlegrar greindar og því munu opinber störf áfram stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði. Opinber störf halda uppi skólum landsins, heilbrigðis- og velferðarkerfinu, löggæslunni og tryggja traust mennta- og velferðarkerfi. Þau hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið. Í efnahagslægðinni sem fylgdi Covid-19 voru störf á vegum hins opinbera mikilvægt jafnvægistæki til að draga úr áhrifum samdráttar og voru sveiflujöfnun í hagkerfinu. Opinber störf eru því stór breyta í efnahagslegu tilliti. Það er mikilvægt að fjárveitingar séu í samræmi við raunverulegar þarfir samfélagsins og að fjármagnið sé nýtt sem best.
Bætt þjónusta
Áherslan þarf að vera á nýsköpun, stafrænar lausnir og endurmat ferla sem getur dregið úr sóun sé það til staðar. Það gildir um allan rekstur. Framsókn hefur lagt áherslu á að blandað rekstrarform henti í sumum tilvikum til að auka þjónustu við almenning. Gott dæmi um þetta er heilbrigðiskerfið sem er í fremstu röð hér á landi. Þar þarf áfram að vinna að lausnamiðuðum nálgunum. Í því sambandi þá má nefna að þjónustutengd fjármögnun verði innleidd í auknum mæli sem og tækifæri nýtt í ýmiss konar sérfræðiþjónustu, svo sem fjarheilbrigðisþjónustu. Þróun mannfjölda og aukin eftirspurn eftir velferðarþjónustu, einkum vegna fjölgunar eldra fólks, kallar á breytingar en mikilvægt er að hið opinbera standi vörð um nauðsynlega grunnþjónustu, og nýti möguleika til að auka skilvirkni með áherslu á hágæða þjónustu sem styður við velferð og öryggi. Þetta er ekki aðeins mikilvægt fyrir núverandi kynslóð heldur einnig fyrir komandi kynslóðir, þar sem góð opinber þjónusta er grundvöllur fyrir sjálfbærni og vöxt í íslensku samfélagi.
Höfundur er fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknarflokksins.