21. nóvember 2024
Opinber þjónusta er ekki markaðsvara
Unnur Rán Reynisdóttir skipar 1. sæti á lista Sósíalistaflokksins í komandi alþingiskosningum
„Útvistanir leiða eingöngu til lægri launa, verra starfsumhverfis sem og verri þjónustu. Í leiðinni þarf að tryggja að bæði starfsaðstæður og kjör opinberra starfsmanna séu góð.“
Eftir Unni Rán Reynisdóttur
Eitt af því sem einkennt hefur norræn velferðarsamfélög er hátt hlutfall opinberra starfa. Þorri þessara starfa snýr beinlínis að grunnstoðum samfélagsins. Sósíalistaflokkurinn leggur áherslu á að þessar stoðir séu ekki markaðsvara, krafan sé ekki um arðbærni heldur að öll þjónusta sem lýtur að heilsu, öryggi og velferð fólks, andlegri sem líkamlegri, skuli vera gjaldfrjáls og rekin af opinberum aðilum eða óhagnaðardrifnum félagslegum samtökum, ef það á við. Það sama á við um almenningssamgöngur, menntun á öllum skólastigum og frístundir barna. Þessar grunnstoðir skulu allar félagsvæddar, þannig að okkur sé gert kleift að lifa frjáls frá heilsuspillandi aðstæðum, fjárhagskvíða og afkomuótta.
Samspil tekna, starfsaðstæðna og heilsu starfsfólks
Fjarvera vegna veikinda er mun meiri í opinbera geiranum heldur en hjá einkareknum fyrirtækjum, það segir okkur að bæta þarf starfsumhverfi þeirra sem þar starfa. Mikið álag er á starfsfólki og endurskoða þarf starfsaðstæður opinberra vinnustaða í heild, þetta eiga að vera aðlaðandi vinnustaðir. Einn liður í því er að greiða fólki mannsæmandi laun. Ljóst er að kjör hafa áhrif á félagslega stöðu fólks, t.a.m. hafa launatekjur áhrif á veikindatíðni. Sé litið til svars við fyrirspurn borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, árið 2021, um hlutfall veikinda starfsfólks hjá Reykjavíkurborg eftir launatekjum, má sjá samspil tekna og veikinda síðustu ára. Ef meðalheildarlaun voru yfir 550 þúsund krónur á mánuði voru færri veikindadagar en hjá þeim sem höfðu lægri heildarlaun. Starfsfólk á ætíð að hafa áhrif á starfsþróun og umbætur innan sinna vinnustaða, ekki gengur að láta stjórnmálafólk skipuleggja slíkt umhverfi ef það hefur aldrei eða sjaldan komið nálægt slíkri starfsemi. Það gildir jafnt um skólakerfi, heilbrigðiskerfi, löggæslu, félagsþjónustu eða hvaða opinberu þjónustu sem hugsast getur.
Afnemum láglaunastefnu hins opinbera
Nauðsynlegt er að nægt fjármagn sé tryggt til þeirra stofnana sem halda uppi opinberri þjónustu. Sósíalistaflokkurinn leggur ríka áherslu á að láglaunastefna verði lögð af í rekstri ríkis og sveitarfélaga. Allri útvistun skuli hætt, þannig að starfsfólk vinni beint fyrir hið opinbera. Útvistanir leiða eingöngu til lægri launa, verra starfsumhverfis sem og verri þjónustu. Í leiðinni þarf að tryggja að bæði starfsaðstæður og kjör opinberra starfsmanna séu góð. Í stefnu Sósíalistaflokks Íslands segir m.a.: „Að hæstu laun séu aldrei hærri en þreföld lægstu laun innan hins opinbera.“ Þar er ekki átt við að verið sé að ráðast í stórfelldar launalækkanir í öllum opinbera geiranum. Það þarf að lyfta upp lægstu launum til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi. Laun séu aldrei svo lág eða skert að það dansi á viðmiðunarmörkum fátæktar. Til að efla þessar grunnstoðir landsins er nauðsynlegt að skattleggja fjármagnstekjur, nú er það hópurinn sem á mest sem kemst upp með að borga ekki útsvar til sveitarfélaga til að mynda því þeirra tekjur koma inn sem fjármagnstekjur, þannig greiðir þessi hópur ekkert inn í ýmsa opinbera þjónustu, s.s. leik- og grunnskóla, sundlaugar o.fl. Auðlindir landsins t.d. sjávarútvegur o.fl. skapa gífurleg auðæfi, sem samfélagið í heild sinni á að njóta mun meira góðs af. Sósíalisminn vinnur gegn þessu ójafnvægi í skattlagningu og arðsemi samfélagsins. Þannig er hægt að bæta kjör opinberra starfsmanna ásamt vinnuaðstæðum þeirra og bjóða upp á gjaldfrjálsa grunnþjónustu við samfélagið á sama tíma.
Höfundur skipar 1. sæti á lista Sósíalistaflokksins í komandi alþingiskosningum, hún er hársnyrtimeistari og kennari