Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

21. nóvember 2024

Sterk almannaþjónusta er grundvöllur góðs samfélags

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands.

„Raunar hefur þetta verið rauður þráður í vinnubrögðum fráfarandi ríkisstjórnar í velferðarmálum: Kostnaði við grunnþjónustu er velt yfir á sveitarfélög og óvissu viðhaldið um hvar fjárhagsleg og fagleg ábyrgð skuli liggja. Þetta er kostnaðarsamt fyrir samfélagið allt.“

Eftir Kristrúnu Frostadóttur

Í kosningunum þann 30. nóvember stendur valið milli ólíkra stjórnmálahreyfinga og sýnar á samfélagið: Annars vegar þeirra sem líta á opinbera þjónustu og ríkisrekstur sem illa nauðsyn, og hins vegar þeirra sem telja að sterk almannaþjónusta á vegum ríkis og sveitarfélaga sé órjúfanlegur hlekkur í verðmætasköpun samfélagsins.

Við í Samfylkingunni teljum að einhver besta lífskjarabót sem hægt er að hugsa sér felist í sterkri heilbrigðisþjónustu og öruggu aðgengi að henni um allt land. Þess vegna höfum við sett fram heildstæða áætlun um Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Þar leggjum við áherslu á að á næstu tíu árum verði öllum Íslendingum tryggður fastur heimilislæknir og heimilisteymi, að ráðist verði í þjóðarátak í umönnun eldra fólks með eflingu heimaþjónustu og fjölgun hjúkrunarrýma og sambýla, og að stoðþjónusta við heilbrigðisstarfsfólk verði styrkt til muna.

Samfylkingin leggur líka áherslu á almannaöryggi og sterka löggæslu. Þess vegna höfum við gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að halda Landhelgisgæslu Íslands, lögreglunni og refsivörslukerfinu í fjársvelti. Það er óboðleg staða að í dag séu að jafnaði 20 almennir lögreglumenn að störfum á hverjum degi á höfuðborgarsvæðinu. Það er sami fjöldi og var eingöngu í Reykjavík árið 2007. Íbúum svæðisins hefur á sama tíma fjölgað um meira en 50 þúsund og fjöldi ferðamanna sem sækir landið heim hefur rúmlega fjórfaldast á 15 árum.

Það er líka óboðleg staða að menn sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi gangi lausir án refsingar vegna þess að það er ekki pláss í fangelsum landsins. Þá hafa fjölmiðlar fjallað um hryllilegar afleiðingar af skorti á úrræðum vegna manna sem lokið hafa afplánun í fangelsi en eru taldir hættulegir sjálfum sér og öðrum.

Það er óboðleg staða að ríkið hafi fært þjónustu við fatlað fólk yfir til sveitarfélaga fyrir 13 árum án þess að hafa nokkru sinni tryggt fulla fjármögnun þjónustunnar. Í Reykjavík einni og sér hefur kostnaður við þessa lögbundnu þjónustu verið 48 milljörðum króna meiri en tekjur á þessu tímabili og þrátt fyrir að viðbótarfjármagn hafi verið fært til málaflokksins á síðustu árum á enn eftir að fjármagna ríflega þriðjung af hallanum. Þessi vanfjármögnun hefur bein áhrif á aðstæðurnar sem starfsfólki eru sniðnar.

Kostnaði við grunnþjónustu velt yfir á sveitarfélögin
Sami vandi hefur verið uppi í þjónustu við börn með fjölþættan vanda þar sem ríkt hefur áralangt reiptog milli ríkis og sveitarfélaga. Raunar hefur þetta verið rauður þráður í vinnubrögðum fráfarandi ríkisstjórnar í velferðarmálum: Kostnaði við grunnþjónustu er velt yfir á sveitarfélög og óvissu viðhaldið um hvar fjárhagsleg og fagleg ábyrgð skuli liggja. Þetta er kostnaðarsamt fyrir samfélagið allt.

Það er mikið í húfi í alþingiskosningunum þann 30. nóvember. Næsta ríkisstjórn verður að vera skipuð flokkum og fólki sem lítur ekki á hið opinbera sem einhvers konar byrði heldur hefur metnað til að styrkja almannaþjónustu og beita ríkisvaldinu til að bæta líf okkar allra


Höfundur er formaður Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands