21. nóvember 2024
Stjórnvöld hafa brugðist venjulegu vinnandi fólki á Íslandi
„Stjórnvöld hafa hins vegar að mestu skilað auðu, ef frá eru talin þau útgjöld sem samþykkt var að ráðast í til að liðka fyrir kjarasamningum.“ Ríkis-stjórn Íslands, annað ráðuneyti Bjarna Benediktssonar, 9. apríl 2024. Ljósmynd/Stjórnarráð Íslands
„Frá 2021 og til 2023 jókst vaxtabyrði íslenskra heimila um 40 milljarða króna. Þessi þróun hefur skilað því að um 75 prósent af hreinum tekjum stóru íslensku bankanna þriggja eru vaxtatekjur. Á tveimur árum hafa sameiginlegar tekjur Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka af vöxtum sem þeir rukka viðskiptavini sína aukist um 23 prósent, eða 21,5 milljarða króna.“
Ríkisstjórn síðustu ára hefur ráðist í ófjármagnaðar skattalækkanir sem gagnast fyrst og fremst breiðu bökunum. Fyrir vikið hafa tekjur ríkissjóðs ekki dugað fyrir útgjöldum árum saman og velferðarkerfin hafa verið fjársvelt. Afleiðingin af óstjórninni varð mikil verðbólga og svo svimandi háir vextir, sem hafa lagst sem ofurskattur á venjuleg íslensk heimili. Bankar hafa hins vegar aukið hagnað sinn samhliða, fyrst og síðast vegna vaxtatekna.
Eftir Þórð Snæ Júlíusson
Það er samvinnuverkefni Seðlabanka, ríkisstjórnar og vinnumarkaðar að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Þessar þrjár stoðir þurfa að vinna saman til að halda niðri verðbólgu, halda uppi atvinnustigi og viðhalda kaupmætti. Seðlabankinn gerir það fyrst og síðast með því að hækka eða lækka stýrivexti og ákvarða með því hversu dýrt lánsfé á að vera á hverjum tíma. Sé þörf á örvun í hagkerfinu, líkt og á kórónuveirutímanum, þá lækkar hann vexti til að ýta undir lántöku og neyslu. Sé þörf á kælingu í hagkerfinu, líkt og verið hefur síðustu ár, hækkar hann vexti til að draga úr lántöku og neyslu.
Það er ekki hlutverk Seðlabankans að hugsa um áhrif aðgerða sinna á jöfnuð í samfélaginu. Hvort þær leiði til þess að ákveðnir hópar auki tekjur og eignir sínar beint vegna aðgerða bankans en aðrir hópar sitji eftir með skertan kaupmátt og þann veruleika að hann eigi erfitt með að láta enda ná saman. Þar á ríkið að koma inn, skattleggja þá sem högnuðust umfram það sem eðlilegt er vegna aðgerða Seðlabankans og nýta svo millifærslukerfi til að koma til móts við þá sem urðu verst úti vegna sömu aðgerða. Vinnumarkaðurinn hefur svo það hlutverk að semja þannig að það sé til innistæða fyrir launahækkunum.
Viðvarandi halli en samt fjársvelti
Á Íslandi nú á dögum er Seðlabankinn að gera það sem hann á að gera. Hann er með verðbólgumarkmið sem er 2,5 prósent og verðbólgan hefur ekki verið undir því frá vorinu 2020. Verðbólgan fór raunar um tíma í tveggja stafa tölu og hefur haldist þrálátt mikil nær allt þetta kjörtímabil. Vegna þessa hefur bankinn ráðist í að tólffalda stýrivexti frá því þegar þeir voru lægstir, og í það sem þeir eru núna. Þeir hafa nú verið yfir níu prósent í 14 mánuði. Vinnumarkaðurinn gerði sitt með því að semja um hóflegar launahækkanir í langtímasamningum sem eiga að ýta undir að verðbólga hjaðni og vextir geti lækkað skarpt.
Stjórnvöld hafa hins vegar að mestu skilað auðu, ef frá eru talin þau útgjöld sem samþykkt var að ráðast í til að liðka fyrir kjarasamningum. Ríkissjóður stefndi í að vera rekinn í um 620 milljarða króna halla frá árinu 2020 og út næsta ár. Sú tala hefur nú hækkað um 18 milljarða króna samkvæmt nýrri kynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og því verður hallinn 638 milljarðar króna á tímabilinu. Hér er miðað við verðlag hvers árs. Raunhallinn er miklu meiri, enda verðbólga verið gríðarleg. Samkvæmt fyrirliggjandi fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn í halla alls níu ár í röð. Á þessu tímabili hefur verið ráðist í ófjármagnaðar skattalækkanir upp á tugi milljarða króna sem gagnast helst tekjuhæstu hópum samfélagsins. Samhliða hefur ríkisstjórnin valið að fjársvelta velferðarkerfin þannig að þau geta ekki sinnt þeirri almannaþjónustu sem þeim er ætlað að gera. Það eykur álag á fólkið sem þar starfar.
Byrðarnar lenda misjafnlega á kynslóðum
Þessi staða hefur bitnað gríðarlega hart á skuldurum landsins, og sérstaklega barnafjölskyldum og þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Það er enda þannig að lækningin við verðbólgudraugnum bitnar alltaf á þeim sem minnst hafa á milli handanna áður en hún nær að tempra neyslu þeirra sem raða sér í efstu tekjutíundirnar og bera ábyrgð á flestum utanlandsferðunum. Kaupum á flestum nýju bílunum. Sem hafa bestu tækifærin til að stækka við sig húsnæði og endurnýja innbúið samhliða. Tölur um kortaveltu hafa raunar sýnt að hið háa vaxtastig hefur lítil áhrif á neyslugetu tekjuhæstu hópanna í íslensku samfélagi.
Þessi staða fær stoð í hagtölum. Rannsókn Vörðu – Rann-sóknarstofnunar vinnumarkaðarins á stöðu launafólks, sem birt var í vor, sýndi að fjórir af hverjum tíu eigi erfitt með að láta enda saman um mánaðamót. Einhleypir foreldrar, innflytjendur, lágtekjufólk og þeir sem eru á leigumarkaði eru í meiri vanda en aðrir hópar. Þá er fjárhagsstaða kvenna áberandi verri en karla.
Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar má sjá upplýsingar um að byrðarnar lenda afar mismunandi á kynslóðum. Þar er birt mynd sem sýnir að hlutfall þess hóps sem greiðir yfir 20 prósent af ráðstöfunartekjum sínum – það sem situr eftir á bankareikningnum þegar skattar og önnur opinber gjöld hafa verið greidd – í vexti hefur farið úr ellefu prósentum árið 2019 í 14 prósent í lok árs í fyrra. Þegar fólk undir 40 ára er skoðað einvörðungu þá birtist hins vegar allt önnur mynd. Hlutfall þess hóps sem borgar meira en fimmtung af því sem hann á eftir um hver mánaðamót þegar ríki og sveitarfélög hafa tekið sitt í vexti hefur farið úr 13 í 21 prósent.
Fólkið borgar meira, bankarnir auka hagnað sinn
Samandregið þá hafa vaxtagjöld heimila landsins hafa aukist um 71 prósent frá því sem þau voru á síðasta ársfjórðungi ársins 2021 og í það sem þau voru á öðrum ársfjórðungi yfirstandandi árs. Frá 2021 og til 2023 jókst vaxtabyrði íslenskra heimila um 40 milljarða króna. Þessi þróun hefur skilað því að um 75 prósent af hreinum tekjum stóru íslensku bankanna þriggja eru vaxtatekjur. Á tveimur árum hafa sameiginlegar tekjur Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka af vöxtum sem þeir rukka viðskiptavini sína aukist um 23 prósent, eða 21,5 milljarða króna. Bankarnir fengu stóra skattalækkun árið 2021, þegar bankaskattur var lækkaður. Umfang hennar hefur verið metið á um tólf milljarða króna fram til ársins 2024. Bankarnir notuðu þá lækkun ekki til að minnka vaxtamun – muninn á þeim vöxtum sem bankarnir borga fyrir að fá peninga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum fjármuni — heldur notuðu þeir hana til að auka arðsemi sína.
Þarna er um að ræða ofurskatt á íslenska skuldara, og sérstaklega ungar barnafjölskyldur. Það er helsta kjarabót sem þessi hópur getur fengið – fjölgað peningunum í veskinu mest um hver mánaðamót – að fá ríkisstjórn sem sýnir ábyrgð í efnahagsmálum og nær þannig niður vöxtum og verðbólgu. Samhliða er sanngjarnt að auka tekjur ríkissjóðs með því að setja frekari álögur á fjármagnseigendur, þá sem nýta auðlindir þjóðarinnar og þá sem hafa getað nýtt sér skattaglufur til að endurreisa velferðarkerfin, ráðast í stórátak í atvinnu- og samgöngumálum, að ráðast í bráðaaðgerðir í húsnæðismálum til skemmri tíma og taka ábyrgð á að þau þróist með réttum hætti til lengri tíma.
Það má hins vegar ekki skattleggja venjulegt vinnandi fólk frekar, enda hefur það mátt þola nóg síðustu ár.
Höfundur er blaðamaður og fyrrv. ritstjóri Heimildarinnar og áður Kjarnans