Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

21. nóvember 2024

Stöndum vörð um almannaþjónustuna

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna

„Því miður er umræðunni um þessi mál stundum snúið á hvolf og því haldið fram að það sé einkageirinn einn sem búi til verðmætin, og ef fjármagnseigendur hafa fengið nóg þá megi af náð og miskunn deila út til launafólks og svo mögulega greiða til samfélagsins í sameiginleg verkefni, en þó með semingi.“

Eftir Svandísi Svavarsdóttur

Öflug almannaþjónusta er grundvöllur góðs samfélags. Hún er forsenda blómlegs atvinnulífs og rennir styrkum stoðum undir innviði samfélagsins. Það er nánast sama hvaða mælikvarði er valinn; efnahagslegir mælikvarðar, velsældarmælikvarðar, svokölluð samkeppnishæfni, lönd þar sem almannaþjónustan er öflug og sterk tróna á toppnum. Það er ekki tilviljun, það er einfaldlega góð pólitík, réttar áherslur sem skapa góð samfélög. VG leggja áherslu á öfluga almannaþjónustu.

Því miður er umræðunni um þessi mál stundum snúið á hvolf og því haldið fram að það sé einkageirinn einn sem búi til verðmætin, og ef fjármagnseigendur hafa fengið nóg þá megi af náð og miskunn deila út til launafólks og svo mögulega greiða til samfélagsins í sameiginleg verkefni, en þó með semingi. Talað er niður til heilu stéttanna, stétta sem starfa í opinberri þjónustu, og ýjað að því að opinberum störfum ætti helst að fækka eins og kostur er. Umræða um báknið og um að of mörg vinni hjá hinu opinbera snýst í raun um atlögu að samfélagsinnviðum og þeirri samfélagsgerð sem leggur áherslu á að velferð, menntun og heilbrigðisþjónusta eigi að standa öllum til boða óháð efnahag. Slík umræða vegur að jöfnuði í samfélaginu.

Almannaþjónustan er samfélagið
Í stefnu VG segir að hlutverk opinberrar þjónustu, mennta- og velferðarkerfisins í að stuðla að jöfnuði og félagslegu réttlæti sé mikilvægt. Tryggja skuli jafnan aðgang að þeirri þjónustu og að gæði hennar séu mikil, og að meginstefnu skuli almannaþjónusta vera á hendi hins opinbera og aldrei í hagnaðarskyni. Þetta eru atriði sem skipta grundvallarmáli – því almannaþjónustan er samfélagið og samfélagið gerir atvinnulífinu kleift að starfa.

Hinn svokallaði frjálsi markaður gleymir því stundum að opinber þjónusta getur ekki valið sig frá verkefnum, Við hættum ekki bara að slökkva elda, sinna sjúkum og slösuðum, sinna börnum, öldruðum, mennta þjóðir og rannsaka og vakta veður, náttúruvá og vistkerfi. Það getur einkageirinn gert, hann bara ákveður að hætta verkefnum ef þau eru flókin eða erfið eða skila ekki hagnaðinum, gróðanum sem lagt var upp með. Almannaþjónustan tekur á öllu hinu, öllu því fjölmarga sem er of mikilvægt til að láta hinn svokallaða markað leysa. Almannaþjónustan er það sem heldur samfélaginu saman.

Virðismat skiptir máli
Í þessu samhengi skiptir virðismat starfa líka máli. Samfélagið metur störf kvenna ekki til jafns við karla, hvorki innan vinnumarkaðarins né utan, og það veldur því að launamunur kynjanna er enn staðreynd hér á landi. Störf, sem sinnt er í meirihluta af konum, eru í mörgum tilvikum störf í opinberri þjónustu og þau störf eru ekki metin að verðleikum. Það er virðismat sem þarf að endurskoða svo jafnrétti verði náð.

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst viðhorf okkar til opinberrar þjónustu um í hvernig samfélagi við viljum búa. VG leggja áherslu á samfélag með öfluga almannaþjónustu, almannaþjónustu sem myndar grundvöll samfélagsins. Samfélag þar sem við fáum öll tækifæri til að blómstra og enginn er skilinn eftir. Fyrir það stöndum við í VG.


Höfundur er formaður Vinstri grænna