Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

21. nóvember 2024

X við einstaklingshyggju eða samstöðu?

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

„Stjórnmálaflokkarnir sem byggja hugmyndafræði sína á einstaklingshyggju leggja áherslu á niðurskurð, að ríkissjóður skuldi lítið, „að hleypa einkaframtakinu að“ eða auka einkavæðingu og „valfrelsi“, að selja ríkiseignir, að fækka þurfi ríkisstofnunum og vinda ofan af því sem þeirau telja of mikla fjölgun starfsfólks ríkisins. Sumir segja einfaldlega báknið burt.“

Eftir Sonju Ýri Þorbergsdóttur

Kosningar til Alþingis bar brátt að og því gefst minni tími en oft áður til að kynna sér stefnumál flokkanna. Það er áhugavert að fylgjast með umræðunni og hvert flokkarnir vilja beina athygli okkar. Þegar þetta er ritað hefur aðallega verið rætt um tvennt; efnahagsmál og málefni fámenns hóps sem er að flýja stríð, þjóðarmorð eða aðra neyð. Þetta eru málin sem stjórnmálafólk vill setja á dagskrá en spurningin er hvort þetta séu þau mál sem brenna helst á kjósendum.

Innan BSRB eru 19 stéttarfélög launafólks sem einkum starfa hjá ríki og sveitarfélögum ásamt opinberum hlutafélögum eða starfsemi í almannaþágu. Stórir hópar í fjölbreyttum störfum í leikskólum, grunnskólum, sundlaugum og í þjónustu við fatlað fólk. Einnig fólk sem starfar innan nær allra ríkisstofnananna svo sem í heilbrigðisþjónustu og annarri velferðarþjónustu, sem og fagstéttir á borð við sjúkraliða, félagsliða, lögreglumenn, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, tollverði og starfsfólk í flugmálum eða flugumferðarstjórn. Félagslegu kerfin eða innviðirnir, sem okkar fólk starfar í, eru því eðlilega efst í huga í aðdraganda kosninga, hvort heldur sem er út frá stöðu kerfanna, stöðu þeirra sem treysta á þau eða starfsaðstæðum félagsfólks. Ekki síður af þeirri ástæðu að félagsfólk hefur til margra ára bent á að mörg af félagslegu kerfunum eru að þrotum komin.


Neyðarástand í félagslegri stöðu og innviðum
Við hjá BSRB höfum margoft bent á að það blasi við neyðarástand þegar horft er til félagslegrar stöðu fjölmennra hópa samfélagsins og félagslegra innviða. Ísland er ríkt land sem almennt státar sig af öflugri velferð og hefur gjarnan verið fremst meðal jafningja í alþjóðlegum samanburði. En ójöfnuður, stéttskipting og fátækt er að aukast, almannaþjónustan og grunnstoðirnar sem við höfum verið svo stolt af eru fjársveltar og við horfum fram á bakslag í jafnréttisbaráttunni.

Árlegar kannanir Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins sýna með skýrum hætti til hvaða hópa r það eru sem við verðurm helst að líta til; foreldrar, einkum einstæðir, konur og innflytjendur ásamt öryrkjum. Staða foreldra fer sífellt versnandi sem sést meðal annars á því að fleiri en áður hafa ekki efni á til dæmis næringarríkum mat fyrir börnin sín, nauðsynlegum fatnaði, tómstundum eða félagslífi. Um 25% einhleypra foreldra býr við fátækt og um tíu þúsund börn sem þýðir að meira en tíunda hvert barn á Íslandi býr við fátækt. Konur eru síður fjárhagslega sjálfstæðar en karlar og þær eru oftar háðar maka um framfærslu heldur en karlar. Andleg heilsa ungra kvenna og einhleypra mæðra er líka áberandi verri en annarra hópa. Aðrar rannsóknir sýna enn fremur að ungu fólki líður mjög illa, sérstaklega stúlkum. Flest minnast á áhrif samfélagsmiðla í þeim efnum en fá nefna þá staðreynd að 15% stúlkna í 10. bekk og 6% drengja hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu annars unglings. Þá hafa 58% stúlkna orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi og 35% drengja. Ofbeldi í netheimum getur haft jafn alvarleg áhrif og ofbeldi í raunheimum.

Kannanir Vörðu sýna líka að innflytjendur búa við verri stöðu en Íslendingar sem eru fæddir hér á landi. Þau vinna lengri vinnudaga, eiga erfiðara með að ná endum saman og sjá fyrir börnum sínum, fá sjaldnast störf í samræmi við menntun sína ásamt því að þau flytja oftar þar sem þau eru frekar á leigumarkaði með tilheyrandi óöryggi. Þá hefur nær fjórði hver einstaklingur á íslenskum vinnumarkaði sem er með erlent ríkisfang ekki kosningarétt til Alþingis. Okkur í verkalýðshreyfingunni ber að standa með þeim.

Frá aldamótum hefur ríkt aðhalds- og niðurskurðarstefna á stofnunum ríkis og sveitarfélaga. Á sama tíma hefur átt sér stað veruleg fólksfjölgun. Þjóðin er einnig að eldast og lifa lengur ásamt því að fjölgun ferðamanna hefur aukið álag á heilbrigðisþjónustuna og biðlistar lengjast eftir hjúkrunarheimilum. Í menntakerfinu hefur álag aukist vegna aukinna og þyngri félagslegra þarfa barna og ungmenna. Það er nær sama hvar er drepið niður, félagsfólk innan BSRB lýsir djúpstæðum áhyggjum af stórauknu álagi, skorti á starfsfólki eða stuðningi við stofnanirnar eftir því sem þarfir fólks fyrir þjónustu breytast og hversu lengi fólk þurfi að bíða eftir þjónustu. Þetta kemur hvað skýrast fram hjá félagsfólki sem starfar í framlínunni, þ.e. í nánum persónulegum samskiptum við annað fólk.

Flestir stjórnmálaflokkar hafa tekið undir að við séum í innviðaskuld, þ.e. að styrkja þurfi við stöðu þessara mikilvægu stofnana í velferðarkerfinu. Engu að síður einkennist stjórnmálaumræða gjarnan af mýtunni um að eina leiðin til að bregðast við verðbólgunni sé með niðurskurði. Þessi hugmyndafræði um að niðurskurður sé eina svarið er ástæðan fyrir stöðunni eins og hún er núí dag – og ef hún verður það áfram mun það bara einungis dýpka vandann.


Á krossgötum
Í þessum kosningum stöndum við á krossgötum. Valið stendur á milli enn frekari einstaklingshyggju eða aukinnar samstöðu og félagshyggju.

Stjórnmálaflokkarnir sem byggja hugmyndafræði sína á einstaklingshyggju leggja áherslu á niðurskurð, að ríkissjóður skuldi lítið, „að hleypa einkaframtakinu að“ eða auka einkavæðingu og „valfrelsi“, að selja ríkiseignir, að fækka þurfi ríkisstofnunum og vinda ofan af því sem þeirau telja of mikla fjölgun starfsfólks ríkisins. Sumir segja einfaldlega báknið burt.


Þeir stjórnmálaflokkar sem byggja á félagshyggju tala fyrir styrkingu almannaþjónustunnar og vilja skipta sameiginlegum verðmætum okkar á borð við arðinum af auðlindunum með réttlátari hætti í þágu almennings og hætta að gefa breiðu bökunum afslátt af sínu framlagi til samfélagsins til að við getum aukið velferð. Þeir hafna frekari einkavæðingu hjúkrunarheimila, í heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu enda sýnir fjöldi rannsókna að aukin einkavæðing eykur ójöfnuð og bitnar sérstaklega á þeim sem hafa lægri tekjur og íbúum landsbyggðarinnar.

BSRB hefur ítrekað bent á að efnahagsstjórn sem þjónar fjármagni frekar en fólki ýtir undir óstöðugleika og óróleika í samfélaginu og grefur undan öryggistilfinningu. Að niðurskurður í velferðarþjónustu hefur neikvæð áhrif á líðan fólks og eykur veikindi. Rannsóknir sýna að aðgerðir sem að grípa þarf til gegn auknu ofbeldi meðal ungs fólks felaist í því að vinna gegn fátækt, tryggja öruggt húsnæði fyrir barnafjölskyldur, gera konum og börnum auðveldara að komast út úr heimilisofbeldi og auka stuðning í skóla við börn sem standa illa að vígi námslega og eiga við hegðunarerfiðleika að stríða.

Verði ekki snúið af braut úreltrar efnahagsstjórnar mun misskipting tekna og eigna vaxa enn meirafrekar. Samþjöppun auðs mun hafa enn skaðlegri afleiðingar, stéttskipting aukast og félagsleg samheldni minnka enn frekar. Það er eitt að hafa val um hvar eigi að versla í matinn en það er ekki, og verður aldrei, hægt að tala um „valfrelsi“ einstaklinga þegar kemur að því við að fá grunnþörfum sinnt eða nauðsynjar á borð við heilbrigðisþjónustu og pláss á hjúkrunarheimili.

Rannsóknir sýna einnig að aukin einkavæðing í nauðsynlegri þjónustu sé þvert á vilja meirihluta fólks sem hér býr. Þær sýna einnig að flest telja ójöfnuð of mikinn, og vilja ekki að örfáir einstaklingar geti grætt á neyð fólks. Þrátt fyrir það er fjöldinn allur af fjárfestum að undirbúa miklar áætlanir um hvernig megi græða sem mest á aukinni einkavæðingu í menntakerfinu og heilbrigðisþjónustunni og bíða eftir tækifærum til þess með nýrri ríkisstjórn.


Hvernig samfélag viljum við?
Greina má mörg stef í umræðunni sem eru til þess fallin að draga athygli okkar frá kjarna málsins. Enn er haldið að okkur þeim áróðri, byggðum á hugmyndafræði um einstaklingshyggju, að hver sé sinnar gæfu smiður og það sé einstaklingsins að tryggja eigin lífsgæði. Sömu áróðursmeistarar hunsa þá staðreynd að án sterks sameiginlegs velferðar- og menntakerfis hefur fólk ekki jöfn tækifæri og möguleika í lífinu.

Einnig er látið að því liggja að ekki sé hægt að auka velferð fólks því það kosti of mikið, e. En þá er ekki rætt hvað það myndi kosta að gera ekki neitt. Og ábendingum verkalýðshreyfingarinnar um að afla tekna með því að skattleggja breiðu bökin er iðulega fálega tekið. Þvert á móti er reynt að mála upp þá mynd að hærri skattar séu fráleit hugmynd.

Þá er gjarnan kynt undir þá mýtu að það sé svo hættulegt að skulda. Í engu er minnst á að í bæði sögulegu og alþjóðlegu tilliti er skuldastaða ríkisins hér á landi góð. Vandamálið eru vextirnir. Háir vextir eru vegna hárrar mikillar verðbólgu en meginástæða hennar er skortur á húsnæði. Vítahringur húsnæðisskorts, verðbólgu og hárra vaxta er síendurtekið og þrálátt mynstur sem við búum við. Það er neyðarástand á húsnæðismarkaði en viðbrögð stjórnvalda láta á sér standa. EÞað getur enginn annar en ríki og sveitarfélög getur stigið inn og tryggt að byggt sé nægilega mikið – það er eitt mikilvægasta verkefnið sem þau standa frammi fyrir.

Mýtan um að það sé svo hættulegt að skulda er notuð til að rökstyðja að ekki sé hægt að setja aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, menntamál, húsnæðismál eða aðrar aðgerðir til að stuðla að samheldni, jafnrétti og jöfnuði. Þetta eru verkefni sem eiga það almennt sameiginlegt að vera af félagslegum toga, þau skipta okkur öll máli og ættu að vera í forgangi. Þessi ríka áhersla á niðurgreiðslu skulda og niðurskurð endurspeglar skakka forgangsröðun og drepur alla von um að hlutirnir geti breyst.

Viðfangsefni þessara kosninga á að snúast um fólk og lífsgæði þeirra – að fólk búi við frið, hafi fjárhagslegt sjálfstæði, sé öruggt, að komið sé fram við það af virðingu, það búi við jafnrétti og njóti mannréttinda. Að hér verði frábært að búa, mennta sig, starfa, ala upp börn, annast og styðja við ástvini, fara á eftirlaun og eldast. Það eru þau mál sem standa okkur næst og kjósendur eiga rétt á að fá skýr svör frá frambjóðendum um hvernig framtíðarsamfélag þeir vilji byggja upp, hvernig þeir ætli að gera það og hvort þeirra áætlanir byggi í grunninn á einstaklingshyggju eða samstöðu.


Höfundur er formaður BSRB