2. desember 2024
Saman að sjálfbærni
„Félagsleg sjálfbærni snýst um að tryggja réttlæti, fjölbreytileika og velferð fólks og byggja lífvænleg samfélög fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Þetta felur í sér að greina og leitast við að stýra jákvæðum og neikvæðum áhrifum ákvarðana á fólk og samfélög. Þegar ákvarðanir eru teknar til að draga úr þenslu eða skera niður er mikilvægt að greina og vinna með margvísleg áhrif þeirra á ólíka hópa samfélagsins.“
Eftir Herdísi Sólborgu Haraldsdóttur og
Heiði Margréti Björnsdóttur
Félagsleg skautun hefur aukist í íslensku samfélagi á undanförnum árum, og á það sérstaklega við um ýmis málefni sem heyra undir sjálfbærni eins og samfélagsleg réttindi, loftslagsmál og efnahagslegar breytingar. Þessi þróun er ekki séríslensk, félagsleg átök og sundrung hafa vaxið víða og skapa þá rými fyrir stjórnmálaleiðtoga sem nýta slíkt ástand sér til framdráttar. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir flóknum áskorunum vegna ósjálfbærs lífernis á jörðinni, áskorunum sem krefjast samvinnu allra til lausnar.
Félagsleg sjálfbærni
Hið opinbera spilar lykilhlutverk í að styðja við sjálfbæra þróun. Leiðin að sjálfbærni er þó ekki einföld. Hugtakið er víðtækt, byggt upp á þremur stoðum: Umhverfi, samfélagi (oft nefnt félagslegir þættir) og efnahagslegri stjórnun.
Í umfjöllun og áherslum um sjálfbærni er félagslegi þátturinn oft vanmetinn, þar sem umræður beinast frekar að umhverfis-, efnahags- og loftslagsmálum. Skýringin er að hluta til fólgin í að mælikvarðar á árangur félagslegrar sjálfbærni eru gjarnan huglægir og flókið að draga þá fram í árangursmiðuðum skýrslum. Hvernig vitum við til dæmis að ákvarðanir okkar ýttu undir félagslega skautun og hvað við nákvæmlega þurfum að gera til að sporna við því? Margt er þegar verið að gera, án þess að það sé dregið fram með sérstökum hætti, en stundum mættum við líka gera betur.
Félagsleg sjálfbærni snýst um að tryggja réttlæti, fjölbreytileika og velferð fólks og byggja lífvænleg samfélög fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Þetta felur í sér að greina og leitast við að stýra jákvæðum og neikvæðum áhrifum ákvarðana á fólk og samfélög. Þegar ákvarðanir eru teknar til að draga úr þenslu eða skera niður er mikilvægt að greina og vinna með margvísleg áhrif þeirra á ólíka hópa samfélagsins. Slíkar aðgerðir geta til dæmis leitt til atvinnumissis og óöryggis í húsnæðismálum. Nauðsynlegt er fyrir opinbera aðila að meta áhrifin og vinna markvisst að því að draga úr neikvæðum afleiðingum á fólk. Þörfin á samtali og raunverulegu samráði eykst, þar sem hlustað er á ólík sjónarmið til að draga úr félagslegri sundrung og bæta ákvarðanatöku.
Samráð og samtal lykilatriði
Hlutverk hins opinbera gagnvart félagslegri sjálfbærni getur orðið viðamikið, og því vert að brjóta verkefnin niður og skoða þau út frá hverju málefni fyrir sig. Ef vinna á markvisst með félagslegan þátt sjálfbærni í afmörkuðu verkefni, eins og virkjanaframkvæmd í sveitarfélagi, er samráð og samtal við íbúa lykilatriði. Einnig þarf að meta áhrif framkvæmdarinnar á störf og velsæld í nærsamfélaginu, auk áhættumats á innviði, svo sem heilsugæslu og skóla. Nauðsynlegt er að tryggja góð starfsskilyrði fyrir öll þau sem koma að framkvæmdinni og veita upplýsingar um starfsskilyrði starfsfólks hjá birgjum og öðrum aðilum sem taka þátt í verkefninu. Gagnsæi er grundvallaratriði og niðurstöðunni þarf að fylgja framvinda með skýrt framsettum og raunhæfum aðgerðum. Nærþjónustan, sem sveitarfélög og aðrir þjónustuaðilar veita, skiptir miklu máli í framkvæmdinni.
Skortur á skýrri framvindu hjá stjórnvöldum
Stjórnvöld á Íslandi hafa sett sér stefnu í sjálfbærri þróun til ársins 2030 og þegar stigið ákveðin skref við að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Við rýni á þeirri stefnu er þó ljóst að nokkuð skortir á skýra framvindu og leiðsögn gagnvart stofnunum. Tækifæri eru fyrir hið opinbera að stíga með afgerandi hætti inn í félagslega hluta sjálfbærninnar með raunhæfri framtíðarsýn, skýrum kröfum og aðgerðamiðaðri framvindu sem er til þess fallin að efla traust, réttlæti, fjölbreytileika og velsæld fólks. Framvindan og leiðsögnin þarf að skila sér til stofnana og hún þarf að vera samræmd. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem eru sameiginlegt verkefni okkar allra og brýnt að tengja við, eru ekki endilega rétti ramminn fyrir stefnumótun í afmörkuðum verkefnum og málaflokkum hins opinbera. Mikilvægi þess að vinna að þeim er þó óumdeilt og brýnt að stofnanir geri það með sínum hætti. Það sem vantar er skýrt og samræmt verklag við sjálfbæra þróun hjá hinu opinbera.
Í sjálfbærnivegferðinni eru engir vinningshafar, þetta er samstarf, samtal og sameiginleg framtíðarsýn. Náið samstarf allra aðila; hins opinbera, atvinnulífs og samfélags, er því lykilatriði.
Upplýsingagjöf ekki valfrjáls heldur skylda
Einkageirinn er í óða önn að tileinka sér ný vinnubrögð byggð á þremur stoðum sjálfbærrar þróunar. Þau eru undirbyggð skýrum, stöðluðum og ítarlegum kröfum Evrópusambandsins um verklag. Það er margt í því verklagi sem á vel við hjá stofnunum og öðrum þeim sem veita nærþjónustu. Stærri fyrirtæki þurfa nú að greina og draga fram stjórnunarleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif viðskiptahátta sinna, þar með talið áhrif virðiskeðjunnar í heild. Ásamt þessu er gerð krafa um að þau lýsi skýrt þeirri vegferð sem þau hyggjast fara til að vinna markvisst með þessa þætti. Staðlar sem undirbyggja sjálfbærniskýrslugerð veita mikilvæga ramma til að styðja við framvindu og gagnsæi. Með nýjum Evrópureglugerðum er markmiðið að gera fyrirtæki ábyrg fyrir allri virðiskeðjunni og öllum ákvörðunum sínum. Upplýsingaleysi getur ekki verið ástæða undanþágu, þar sem krafa um aukna upplýsingasöfnun og upplýsingagjöf er ekki valfrjáls heldur skylda. Þrátt fyrir að enn sé margt óútfært varðandi kröfur á einkageirann er ferlið hafið og ljóst að þessi viðmið hafa víðtæk áhrif.
Stjórnvöld sýni fram á samræmd og markviss vinnubrögð
Nú er kjörinn tími til að rýna verklag innan stjórnsýslu og horfa til þeirra breytinga sem eiga sér stað í einkageiranum. Alþjóðastofnanir geta líka stutt við og varðað leiðina áfram. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD), sem Ísland er aðili að, hefur nýlega gefið út ítarlegar leiðbeiningar fyrir stjórnvöld varðandi sjálfbæra þróun. Þar eru dregnar fram fimm lykiláherslur sem geta hjálpað okkur að sjálfbærri og réttlátri framtíð. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að stjórnvöld sýni fram á samræmd og markviss vinnubrögð, þar sem allir þættir sjálfbærni; félagslegir, umhverfislegir og efnahagslegir eru samþættir í heildræna stefnu. Einnig er vikið að mikilvægi þess að efla getu til að fylgjast með árangri, nýta samlegð og draga úr neikvæðum áhrifum. Lagt er upp með að samstarf sé náið við sveitarfélög, aðila vinnumarkaðarins og frjáls félagasamtök til að tryggja að sjálfbærniaðgerðir skili árangri um allt samfélagið. Stofnanir gegna lykilhlutverki og brýnt er að þeim sé tryggt skýrt verklag til að ná þessum markmiðum.
Sjálfbær þróun er viðamikið verkefni og ekki á færi eins aðila að leysa. Við þurfum öll að bera ábyrgð, læra af hvert öðru, hjálpast að og bæta okkur. Einkageirinn býr nú við ríkar kröfur sem munu hafa mikil áhrif núna og inn í framtíðina. Það eru mikil tækifæri í nærþjónustunni þar sem starfar fagfólk í hverju horni. Stjórnvöld þurfa að ganga fram með góðu fordæmi og koma með skýrar línur byggðar á faglegum viðmiðum sjálfbærrar þróunar.
Höfundar starfa hjá Kveikju hugmyndasmiðju
Heimildir:
OECD. (2024). OECD Contributions to the 2030 agenda and beyond: Shaping a sustainable future for all. Sjá hér.
Stjórnarráð Íslands. (2024). Stefna Íslands um sjálfbæra þróun til 2030. Sjá hér.