7. febrúar 2025
Kvennaár 2025

Kvennafrídagurinn 1975. Ljósmynd/Borghildur Óskarsdóttir
„Við búum enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við er að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt að framlag kvenna og kvára til samfélagsins er gróflega vanmetið sem endurspeglast í launamun kynjanna.“
Eftir Sonju Ýri Þorbergsdóttur
Ljósmyndir: Kvennasögusafn, Mbl/Ólafur K. Magnússon
Hátt í 50 samtök launafólks, kvenna, hinsegin fólks og fatlaðs fólks hafa tekið höndum saman og boða Kvennaár 2025. Við höfum ákveðið að flétta saman baráttu okkar enn á ný og leggja árið undir okkur rétt eins og konur gerðu fyrir 50 árum.
Kvennaár 1975
Aðdragandann að fyrsta stærsta samstöðu- og baráttudegi þess tíma, Kvennafrídeginum 1975 má rekja til þess að Sameinuðu þjóðirnar höfðu lýst yfir að árið yrði alþjóðlegt kvennaár. Hér á landi voru konur búnar að fá nóg af því misrétti sem þær bjuggu við frá vöggu til grafar og nýttu því árið til hins ítrasta í þágu kvennabaráttunnar með afar fjölbreyttum hætti. Hluti þess var á vegum Kvennaársnefndar, sem Rauðsokkahreyfingin og önnur samtök kvenna áttu sæti í, ásamt stjórnvöldum og samtökum launafólks. Annað var að frumkvæði fjölda samtaka eða kvenna vítt og breitt um landið.
Kvennafrídagurinn var haldinn 24. október 1975 undir kjörorðunum „jafnrétti, framþróun, friður“. Ljósmynd/Ólafur K. Magnússon
Á Kvennaári 1975 voru m.a. haldnar ráðstefnur um lág laun og dagvistunarmál. Kröfur voru sendar til alþingismanna um frelsi til þungunarrofs og gerðar kröfur um lagabreytingar til að stuðla að jafnrétti. Fyrsta jafnréttisnefnd sveitarfélags var stofnuð í Kópavogi að frumkvæði Rauðsokku. Haldinn var hátíðarfundur um sögu kvenna í 1100 ár, sendar ályktanir og áskoranir auk þess sem Kvennasögusafn var stofnað. Listakonur létu ekki sitt eftir liggja og buðu upp á leik- og myndlistarsýningar. Gefin var út bók um jafnrétti kynjanna, gerðir útvarpsþættir, leikþættir og leikrit og hljómplatan Áfram stelpur kom út.
Rauðsokkahreyfingin 55 ára
Á þessu ári eru ekki aðeins 50 ár frá því að konur lögðu niður launuð sem ólaunuð störf í fyrsta skipti til að sýna fram á mikilvægi framlags síns til samfélagsins. Það eru einnig 55 ár frá upphafi Rauðsokkahreyfingarinnar en þeirra fyrsti viðburður var eftirminnileg þátttaka í kröfugöngu verkalýðsins í Reykjavík. Konur sperrtu eyrun við hádegistilkynningu í útvarpinu 1. maí 1970: „Konur á rauðum sokkum, hittumst á Hlemmi klukkan hálf eitt.“ Þær hópuðust niður á Hlemm til að sameinast með sínar kröfur í verkalýðsgöngunni, reyndar í óþökk Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, sem skipaði þeim aftast í gönguna eftir þónokkrar samningaviðræður. Þar gengu þær glaðbeittar með hvatningarspjöld með slagorðunum „Vaknaðu kona“ og „Konur nýtum mannréttindin“ og báru á öxlum sér stóra Venusarstyttu sem á stóð „Manneskja ekki markaðsvara“ til að vekja athygli á því misrétti sem konur bjuggu við. Lögreglan reyndi að koma í veg fyrir að styttan yrði með í för en Rauðsokkur létu ekki segjast og héldu á styttunni alla gönguna1.
„Þar gengu þær glaðbeittar með hvatningarspjöld með slagorðunum „Vaknaðu kona“ og „Konur nýtum mannréttindin“ og báru á öxlum sér stóra Venusarstyttu sem á stóð „Manneskja ekki markaðsvara“ til að vekja athygli á því misrétti sem konur bjuggu við.“ Ljósmynd/Kvennasögusafn
Kvennaár 2025
Þessi magnaða kvennasamstaða skilaði smátt og smátt stórum áföngum í átt að auknu kynjajafnrétti og ruddi brautina að auknum tækifærum og frelsi kvenna. Þótt mikið hafi áunnist með þrotlausri baráttu kvenna eru engu að síður ærin verkefni við að glíma nú 50 árum síðar.
Við búum enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við er að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt að framlag kvenna og kvára til samfélagsins er gróflega vanmetið sem endurspeglast í launamun kynjanna. Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir fram á sláandi tölur um misrétti, fátækt og ofbeldi, sem fatlað fólk, fólk af erlendum uppruna og hinsegin fólk er í meiri hættu á að búa við en önnur. Rannsóknir sýna einnig fram á vanlíðan ungs fólks, ekki síst stúlkna og hinsegin fólks þar sem staðalmyndir og stafrænt ofbeldi hafa verulega neikvæð áhrif á líðan þeirra.
Metþátttaka var í Kvennaverkfallinu árið 2023.
Metþátttaka í Kvennaverkfallinu árið 2023 á 21 stað um land allt og stærsta útifundi Íslandssögunnar í Reykjavík, sýndi svo ekki verður um villst að við erum tilbúin að taka við keflinu frá baráttukonunum sem á undan okkur gengu. Valdefling, baráttugleði og skýrt ákall um breytingar einkenndu þessa gríðarlegu samstöðu rétt eins og árið 1975. Samfélag sem rís svo sterkt upp gegn ójafnrétti hefur alla burði til að verða raunveruleg jafnréttisparadís.
Til að halda baráttunni áfram munum við í framkvæmda-stjórn Kvennaárs 2025 skipuleggja viðburði, aðgerðir og vitundarvakningu og aðstandendur okkar verða með viðburði í tilefni Kvennaárs. Við vonum að sem flest leggi baráttunni lið og finni leiðir til að setja Kvennaárið á dagskrá í sínu nærumhverfi – með því að leggja til eða skipuleggja viðburði, fræðslu, aðgerðir eða hvaðeina sem vekur samtal, samstöðu og stuðlar að jafnrétti kynjanna. Við getum, þorum og viljum!
Höfundur er í framkvæmdastjórn Kvennaárs 2025
Upplýsingar um viðburði og dagskrá ársins verða birtar á samfélagsmiðlum okkar, Kvennaverkfall á Facebook og Instagram og vefsíðunni kvennaar.is
1Sjá einnig vefnum kvennasogusafn.is