Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

29. janúar 2019

Með lögum skal félag byggja

Ný lög Sameykis stéttarfélags voru samþykkt síðast liðinn laugardag. Lögin má finna hér að neðan og hvetjum við félagsmenn okkar til þess að kynna sér þau. Helst er að nefna að trúnaðarmannaráð og fulltrúaráð félaganna eins og við þekktum þau taka breytingum á þann veg að trúnaðarmenn á vinnustöðum sem nú gætu orðið allt að 350-400 talsins mynda trúnaðarmannaráð. Það mun funda að lágmarki tvisvar á ári samkvæmt lögunum. Fulltrúaráð er hins vegar skipað stjórn félagsins, formönnum sjóða og 90 fulltrúum sem kosnir eru af trúnaðarmannaráði. Í lögunum eru sérstök ákvæði þar sem þess er gætt að fulltrúarnir komi frá ákveðnum landshlutum og þeir séu einnig fulltrúar allra kjarasamninga félagsins. Núverandi trúnaðarmannaráð SFR og fulltrúaráð St.Rv. skal hins vegar starfa áfram þar til kosning um nýja trúnaðarmenn fer fram í maí 2019 og næstkomandi haust verður síðan kosning í fulltrúaráð Sameykis.

Fimmtán manns munu skipa stjórn Sameykis, formaður og fjórtán meðstjórnendur og skulu þeir kosnir til þriggja ára. Í lögunum er útskiptiregla, þ.e. sami maður má ekki gegna störfum formanns lengur en fjögur kjörtímabil og meðstjórnendum er ekki heimilt að sitja samfellt í stjórn lengur en þrjú kjörtímabil.

Í bráðabirgðaákvæði laganna er meðal annars gert ráð fyrir því að stjórnir SFR og St.Rv. myndi stjórn Sameykis til næstu tveggja ára og formaður SFR verði formaður og formaður St.Rv. verði varaformaður. Þá verða Orlofs- og verkfallssjóðir félaganna sameinaðir fljótlega og mun stjórn sameinaðs félags ákveða hverjir verða formenn stjórna sjóðanna til næstu tveggja ára. Fyrirkomulag starfsmenntunarsjóða og styrktar- og sjúkrasjóða verður hins vegar óbreytt enn sem komið er.

Á aðalfundinum var einnig ákveðið að félagsgjöld skulu vera 1% af heildarlaunum sem skiptast þannig að í Félagssjóð fari 87% og í Vinnudeilusjóð 13%. 

Lögin í heild sinni má finna hér.


  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd