1. mars 2019
Heilbrigðisgagnafræði – nýtt starfsmiðað grunnnám á háskólastigi
Starf læknaritara hefur þróast hratt á undanförnum árum og er ánægjulegt að segja frá því að næsta haust hefst nám í heilbrigðisgagnafræði sem er í takt við þá þróun, en það kemur í stað náms í læknaritun hjá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Þetta er afar ánægjulegur áfangi þar sem kallað hefur verið eftir meiri fjölbreytni í starfsmiðuðu grunnnámi við íslenska háskóla. Lengi hefur staðið til að færa nám í læknaritun yfir á háskólastig, en haustið 2017 komst skriður á það þegar skipaður var samráðshópur og síðar starfshópur á vegum Háskóla Íslands (HÍ) sem hefur unnið að því verkefni, en þá fékk HÍ styrk til að þróa fagháskólanám frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Fagháskólanám er hér skilgreint sem starfstengt háskólanám sem lýkur með diplómaprófi. Um er að ræða 90 ECTS-eininga fræðilegt nám og starfstengt nám sem veitir réttindi til að starfa sem heilbrigðisgagnafræðingur. Námið er skipulagt sem 60 eininga fræðilegt nám í hlutanámi í tvö ár, í framhaldi af því er 30 eininga starfsnám (15 vikna) sem fram fer á heilbrigðisstofnun. Fyrirkomulag námsins verður blandað og verður m.a. notast við fjarnám með staðlotum. Námið er skipulagt sem sérstök námsleið innan Læknadeildar og er á stigi 1.1 (þrepi 5.1 samkvæmt hæfniramma um íslenska menntun). Starfsnám mun fara fram á LSH og heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Stjórn og skólanefnd Félags íslenskra læknaritara hélt fjölmennan kynningarfund á fagháskólanámi í heilbrigðisgagnafræði 24. janúar sl. Hægt verður að kynna sé námið nánar á Háskóladeginum 2019 sem haldinn er laugardaginn 2. mars. Einnig má nálgast meiri upplýsingar um heilbrigðisgagnafræði hér.
Á myndinni má sjá hluta af fulltrúum í samráðshópnum en þeir komu frá Háskóla Íslands (frá Heilbrigðisvísindasviði og Félagsvísindasviði auk miðlægrar stjórnsýslu), Félagi íslenskra læknaritara, Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Heilbrigðistofnun Vesturlands, Landspítala og SFR stéttarfélagi. Hópurinn hittist í gær til að fara yfir vinnuna og hvernig kynna á námið.
Hér má nálgast kynningarbækling um heilbrigðisgagnafræði.