Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

18. mars 2019

Baráttan gegn einkavæðingu áberandi á alþjóðavettvangi

Sterkasta birtingarmynd samfélagsábyrgðar fyrirtækja er að þau greiði sinn réttláta hlut af sköttum. 

Einkavæðing opinberrar þjónustu og skaðleg áhrif hennar gengur sem rauður þráður í gegnum umræður kvennanna á fundi kvennanefndar SÞ í ár, en hann stóð yfir 18. - 22. mars. Áherslan á réttlátt skattkerfi og sterka opinbera sjóði er krafa kvenna og grundvöllur jafnréttis. Reynslan og rannsóknir sýna að án opinberrar þjónustu er staða kvenna og viðkvæmra hópa mun veikari. Þetta á ekki aðeins við vegna þess að meirihluti kvenna sinnir störfum innan opinbera kerfisins, heldur sýnir reynslan að þegar t.d. heilsugæsla eða skólar eru einkavædd þá eru það konur með lægri tekjur og börn þeirra sem missa nauðsynlega þjónustu. Baráttan gegn einkavæðingu opinberrar þjónustu er því sameiginlegt alþjóðlegt baráttumál og raddir og reynsla kvenna eru samhljóma, hvort sem þær koma frá stéttarfélögunum, samtökum femínista eða annars staðar frá.

Opinber fjárfesting í góðri þjónustu hins opinbera er nauðsynleg til að binda enda á misrétti kynjanna og skattar eru áhrifaríkasta og sjálfbærasta leiðin sem við getum notað til að byggja upp þjónustu sem er aðgengileg fyrir alla í samfélaginu. Á þessu hefur Rosa Pavanelli, aðalritari PSI (Public Services International) auk annarra, vakið máls á fleiri en einum fundi þessa vikuna. Baráttan gegn skattaundanskotum og krafan um skattagegnsæi og sterka opinbera þjónusta er meðal helstu baráttumála samtakanna. Auk þess hefur PSI meðal annars beitt sér fyrir stofnun stéttarfélaga innan opinbera geirans í Indlandi, Pakistan og Bangladesh og víða aðstoða þau við samninga við stjórnvöld. En það er einnig mikilvægur þáttur þess að styrkja opinbera þjónustu.

Umræðuefnin eru annars næg á jafn stórum fundi og CSW63*. Hér er rætt um kynbundið ofbeldi, mansal, #metoo, launamun kynjanna, réttindi eldri kvenna, ungra, skattamál, aðgengi að heilbrigðisstofnunum, svo fátt eitt sé nefnt. Sendinefnd Íslands hefur staðið fyrir viðburðum hér og hefur áherslan verið á fæðingarorlof og þátttöku karla. Fyrr í vikunni var Katrín Jakobsdóttir hér með fylgdarliði og sagði næsta verkefni íslenskra stjórnmála að tryggja 12 mánaða fæðingarorlof sem myndi skiptast milli beggja foreldra. Staða jafnréttismála á Norðurlöndum vekur athygli eins og svo oft áður þar sem réttindin eru að sumu leyti svo miklu meiri en annars staðar. Þess vegna er svo mikilvægt að við eigum fulltrúa í þessum umræðum öllum, ekki bara fulltrúa stjórnvalda heldur einnig stéttarfélaga og annarra félagasamtaka, því þó við séum sannarlega ekki komin á leiðarenda þá erum við komin svo miklu lengra en aðrir að mörgu leyti. Hlutverk okkar sem fyrirmynd er ótrúlega mikilvægt og setur á herðar okkar ábyrgð sem við verðum að sinna á alþjóðlegum vettvangi.

Á föstudeginum talaði síðan Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um félagslega vernd og íslenskar áherslur á fundi sem skipulagður var af rúmensku ríkisstjórninni og alþjóðlegu Soroptimista-samtökunum.

*CSW63 stendur fyrir 63. fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna.

MAKE TAXES WORK FOR WOMEN

  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd