1. maí 2019
Jöfnum kjörin – eitt samfélag fyrir alla
Jöfnum kjörin – eitt samfélag fyrir alla - Ávarp dagsins
Nú er stutt síðan að stærsti hluti félagsmanna ASÍ samþykkti nýjan kjarasamning. Grunnur að þeim samningi er að sameiginlegt markmið viðsemjenda um betri og batnandi lífskjör, nái fram að ganga. En því miður þá var blekið vart þornað eftir undirritun þegar atvinnurekendur stigu upp á afturlappirnar og hótuðu launafólki því að þurrka út ávinninginn af launabreytingum með hækkuðu álagi og hækkuðu vöruverði. Metnaðarfullum áformum samningsaðila um vaxtalækkanir og jafnvægis í hagkerfinu til hagsbóta fyrir alla, var mætt með útúrsnúningum og hálfkæringi. Grímulaus hrokinn og hótunin sem í þessari framkomu fólst hræðir ekki launafólk og samtök þeirra. Skilaboðin frá launafólki eru skýr; við höfum stigið fram með það að leiðarljósi að launafólk, stjórnvöld og atvinnurekendur taki höndum saman og hefjist handa við að leiðrétta þann lífskjarahalla sem stór hluti þjóðarinnar hefur búið við. Ef atvinnurekendur og stjórnvöld standa ekki við sinn hluta samkomulagsins og taka til við að kynda ófriðarbál við launafólk, þá mun ekki standa á okkur taka þann slag af fullum krafti.
Þó svo að hluti vinnumarkaðarins sé nú undir nýjum kjarasamningi þá eiga BSRB félögin, KÍ, BHM og iðnaðarmenn innan ASÍ eftir að ljúka við gerða kjarasamninga. Þar er að mörgu að hyggja og hjá samningsaðilum eru ýmis sameiginleg hagsmunamál. Á undanförnum árum hafa öll stéttarfélög fundið það hjá félagsmönnum hvernig álag hefur aukist og kulnun í starfi og langtímaveikindi eru að verða að faraldri. Við verðum að bregðast hratt við fréttum af aukinni kulnun og streitu á meðal launafólks. Við höfum heyrt af viðvarandi skorti á starfsmönnum í almannaþjónustunni, sér í lagi hjá umönnunarstéttum og vaktavinnufólki. Ein ástæða þess er óviðunandi starfsaðstæður og undirmönnun. Nýjar rannsóknir sýna að þeir sem lenda í kulnun geta átt mjög erfitt með að ná aftur fullri starfsorku. Þess vegna verðum við að einbeita okkur að því að koma í veg fyrir kulnun auk þess sem við hjálpum þeim sem í henni lenda. Í nýgerðum kjarasamningum hefur verið lögð áhersla á styttingu vinnuvikunnar og styður sú áhersla við heilbrigðara vinnuumhverfi og betra jafnvægi.Tilraunaverkefni hjá Reykjavíkurborg og ríki sýna fram á þetta svart á hvítu. Í tilraunaverkefnunum var vinnuvikan stytt úr 40 stundum í 36. Með því tókst að draga úr einkennum kulnunar og streitu samanborið við vinnustaði þar sem vinnuvikan var óbreytt. Þá minnkuðu skammtímaveikindi og starfsfólki gekk betur að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Þessi áhersla er hluti af kröfunni um betri lífsgæði öllum til handa. Víða bíður það launafólks og stjórnenda að finna réttu útfærsluna. Verkalýðshreyfingin og stéttarfélögin gera þá kröfu að stjórnendur stofnana og eigendur fyrirtækja leggi sig alla fram um að finna bestu útfærslu á hverjum vinnustað.
Eitthvert mikilvægasta og um leið erfiðasta verkefni launafólks er að koma sér upp góðu, öruggu og heilsusamlegu húsnæði. Við vitum hvernig sendiboðar græðginnar léku okkar félagslega húsnæðiskerfi með einkavæðingu árið árið 2002. Við þurfum á ný að ná samstöðu um húsnæðismarkað sem mætir þörfum allra tekjuhópa. Í því verkefni gegna stjórnvöld meginhlutverki. Þátt fyrir að stjórnvöld lofi breytingum hefur lítið breyst fyrir þá sem eru að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið í dag. Ef launafólk á að geta lifað af laununum sínum verður að grípa til aðgerða tafarlaust. Þar þarf að tryggja ódýrara og hagkvæmara húsnæði um allt land og marktækar aðgerðir þurfa að hefjast strax. ASÍ og BSRB hafa í sameiningu stigið risaskref í þeirri viðleitni að finna leiðir til að byggja hagkvæmar og góðar íbúðir fyrir tekjulágt launafólk. Það er ástæða til að fagna því að nú séu aðeins nokkrir mánuðir í að fyrstu íbúarnir flytji inn í íbúðir hjá Bjargi íbúðafélagi. Bjarg var stofnað af ASÍ og BSRB árið 2016 og nú, þremur árum síðar, eru fyrstu íbúarnir að flytja inn. Markmið félagsins er að byggja ódýrar en góðar íbúðir sem tekjulágir félagsmenn geta leigt til langs tíma. Uppbygging leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, félaga eins og Bjargs, er ein af þeim leiðum sem þarf að fara til að tryggja tekjulægsta hópnum húsnæðisöryggi.
Við búum nú við fordæmalaust góðæri að sögn stjórnmálamanna, en lítum aðeins á hvernig þetta svokallaða góðæri lítur út. Í samráðsgátt stjórnvalda er nú til umsagnar Skýrsla um stöðu Íslands gagnvart heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að 30 þúsund landsmenn lifa undir fátæktarmörkum, þar á meðal eru 9 þúsund börn. Á Íslandi finnast alls um 130 þúsund heimili, þarf eru 50 þúsund sem ekki tekst að láta enda ná saman og 17 þúsund þeirra eru í vanskilum. 6 þúsund heimili í landinu þurfa á fjárhagsaðstoð að halda, en samanlagt búa 112 þúsund einstaklingar á heimilum sem glíma við fjárhagsvanda. Og okkur er sagt að við búum við fordæmalaust góðæri. Sannleikurinn er sá að ójöfnuðurinn og misskipting gæðanna hefur aldrei verið meiri. Á sama tíma og við sjáum auðmenn raka til sín fé og eignum í friði og ró, þá eru fjölskyldur hér á landi sem vart eiga fyrir skólabókum fyrir börnin sín. Þessum órétti verður að linna og við verðum að jafna aðgang fólks að sjálfsögðum lífsgæðum.
Í heilbrigðu samfélagi þar sem fólk lítur á sig sem eina þjóð, þá er það grundvallarkrafa að gæðum sé réttlátlega skipt. Að fólk geti litið á þátttöku sína í samfélaginu sem framlag til réttláts samfélags, þar sem reglan er ekki sú að fámennur hópur auðmanna og pólitískara gæludýra fái að láta greipar sópa um sameign þjóðarinnar. Í samfélagi sem byggir upp samstöðu þá er notast við mörg verkfæri til að tryggja að allir sitji við sama borð. Öflugasta verkfæri þar er skilvirkt skattkerfi þar sem hinir auðugu borga miklu hærra hlutfall tekna sinna til samfélagsins heldur en þau efnaminni. Við krefjumst þess í dag að virkur auðlegðarskattur verði tekinn upp á eignir umfram 200 milljónir, að nýtt skattþrep verði innleitt á launatekjur umfram 2 milljónir á mánuði, að fjármagnstekjur og arður verði skattlagður með sama hætti og launatekjur og að útsvar til sveitarfélaga verði greitt af þeim sömu tekjum. Við krefjumst þess að hraðferð auðmanna frá virkri og sanngjarni þátttöku í rekstri samfélagsins, verið stöðvuð.
Í dag er það skylda okkar sem nú erum virkust í rekstri samfélagsins, að hugsa til framtíðar og spyrja okkur að því hvernig við, hvert og eitt okkar, tryggjum hagsmuni barna okkar á þessari jörð og á þessu landi. Fyrir utan það sem að ofan er talið, þá er það skylda okkar að taka risaskref í umhverfismálum. Þar má enginn láta sitt eftir liggja. Einnig verðum við að tryggja að Ísland og okkar sameiginlegu auðlindir verði áfram í eigu þjóðarinnar og að hún njóti arðsins af þeim, en ekki einhverjir auðkýfingar, innlendir jafnt sem erlendir. Eins og aðrar þjóðir hafa gert þá verðum við að stöðva jarðar,- og auðlindauppkaup stórkapítalista og við verðum að stöðva hverja tilraunir aðumannaelítunnar á Íslandi til að koma almannaeigum í einkaeign. Við skulum ekki gleyma orðræðunni og aðferðarfræðinni við einkavinavæðinguna sem hófst fyrir 30 árum og endaði með skelfilegum afleiðingum í bankahruninu fyrir 10 árum. Við þekkjum óþefinn og handbragðið. Það er skylda okkar að tryggja að auðlindir þjóðarinnar, orkan, sjávarauðlindir, almannaþjónustan, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og samgöngur verði ekki einkavætt, svo að gæludýr auðspillingarinnar geti rifið þau í sig og haft almenning að féþúfu. Ef við ætlum að skila góðu og réttlátu samfélagi til barnanna okkar er eins gott að við stöndum í lappirnar. Nú sem aldrei fyrr.