Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. maí 2019

Er allt að kafna úr stressi í vinnunni?

Spurningunni í þessari yfirskrift málþings Sameykis sem haldið var í tengslum við Stofnun ársins í gær geta því miður margir svarað játandi. Könnun Sameykis sýnir að mun fleiri upplifa álag og streitueinkenni nú en áður og því var ákveðið að bjóða forstöðumönnum stofnana, mannauðsstjórum og fulltrúum Sameykis og annarra opinberra stéttarfélaga á málþing um efnið. Helgi Héðinsson sálfræðingur hjá Lífi og Sál fjallaði í upphafi um muninn á milli streitu og kulnunar og lagði áherslu á að örlítil streita í stuttan tíma væri ekki hættuleg. Stuttu streitu- eða álagstímabili mætti jafnvel líkja við það þegar fólk æfir stíft líkamsrækt. Það væri hollt en hvíldin væri jafn mikilvæg fyrir andlegu hliðina og þá líkamlegu. Löng streitutímabil væru hættuleg og gætu leitt til veikinda og því væri mikilvægt að vinna markvisst að því að lágmarka streituvalda í umhverfinu okkur og tryggja að við fengjum næga hvíld á milli, að við gefum okkur tíma til að hvíla líkama og huga.

Auk Helga komu fram nokkrir stjórnendur stofnana sem hafa verið að vinna markvisst gegn streitu og streitutengdum þáttum í vinnuumhverfinu. Ragnheiður E. Stefánsdóttir mannauðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur sagði frá verkefni sem þau vinna í samstarfi við Institue of Stress Medicine í Svíþjóð þar sem fókusinn er settur á vinnustaðinn og því sem hægt er að breyta þar. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem markvisst var unnið með stjórnendahóp nokkurra vinnustaða, m.a. með því að leggja áherslu á að skoða ákveðna afmarkaða þætti í einu og þeim. Ragnheiður sagði engu minna mikilvægt að skoða þætti eins og skipurit, starfslýsingar og skipulag vinnunar en samskipti svo dæmi sé tekið, allt miði verkefnið að því að minnka núning og streitu. Nú í kjölfarið er verið að undirbúa áframhaldandi verkefni í sama dúr sem nær þá til fleiri staða. Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Íslands sagði frá áhrifum styttingu vinnuvikunnar á streitu og vellíðan starfsmanna. Hún sagði reynsluna í heild góða en mikilvægt væri að vanda slíkar breytingar, til dæmis þyrfti að huga vel að félagslegu hliðinni á vinnustaðnum. Hún hvatti stjórnendur í þessum sporum einnig til að nota tækifærið og endurskipuleggja verkferla og vinnulag. Það hefði verið gert hjá Þjóðskrá í takt við straumlínulagaða stjórnun og framleiðni hefðu aukist í kjölfarið, meðal annars fengu erindi fljótari afgreiðslu. Ákveðið hafði verið í upphafi að skerða ekki þjónustuna eða þann tíma sem opið væri fyrir síma og afgreiðslu en niðurstaðan væri í raun sú að þjónustan hefði batnað við þessar breytingar. Lóa Birna Birgisdóttir deildarstjóri starfsumhverfis og starfsþróunar hjá Reykjavíkurborg sagði frá afar skemmtilegu verkefni hjá borginni, Heilsuleikunum. Í því felst allsherjar hvatning og áskorun til starfsmanna borgarinnar sem í alls eru 9000 manns Þeim er boðið að taka þátt í heilsutengdum atburðum, heilsufarsmælingum, ráðleggingum með matarræði o.fl. í tengslum við verkefnið.

Hjá fyrirlesurum kom nokkuð sterkt fram að verið væri að hverfa frá þeirri stefnu að setja alla ábyrgðina á streitu og vanlíðan tengdri henni, eingöngu á starfsmanninn. Það væri mikilvægt að leita leiða til þess að endurskipuleggja vinnuhverfi og bæta upplýsinga- og samskiptamál til þess að skapa umhverfi sem ylli sem minnstum núningi. Þá þyrfti stjórnandinn einnig að hafa varann á sér og líta eftir sjálfum sér og læra að deila ábyrgð og verkefnum.

Sverrir Jónsson skrifstofustjóri Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og Ragnhildur Ísaksdóttir starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar tóku síðan þátt í pallborðsumræðum í lokin. Hjá þeim báðum kom fram mikil ánægja með málþingið og tækifærið til þess að eiga samtal um þetta mikilvæga málefni og geta þannig lært hvert af öðru. Ragnhildur sagðist sjá þess skýr merki í könnunum að verkefnin hjá Reykjavíkurborg væru sannarlega að skila árangri og sagði þau ætla að halda áfram ótrauð á sömu braut.

Það er skemmst frá því að segja að málþingið var afar fjölmennt og mikill áhugi var á efninu. Um 200 manns skráðu sig á örfáum dögum og bæta þurfti við stólum til að allir kæmust að. Sameyki þakkar fyrirlesurum og þessum góðu viðbrögðum og þátttöku, enda sýnir hún að samtalið milli stjórnenda og fulltrúa stéttarfélaga er afar mikilvægt.



  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd