23. maí 2019
Sumarferðir lífeyrisdeildar
Sumarferð félaga í lífeyrisdeild / eftirlaunadeild Sameykis verður á sínum stað í sumar. Að þessu sinni verða farnar tvær ferðir í Hvalfjörð og Borgarfjörð. Ferðirnar eru alveg eins og í báðum ferðum verðum við með tvær stórar rútur. Fyrri ferðin er miðvikudaginn 26. og hin fimmtudaginn 27. júní. Þetta er gert til þess að fleiri geta komið með og því er ekki leyfilegt að skrá sig báða dagana.
Blað lífeyrisdeildar ætti að vera að detta inn um lúguna hjá flestum sem þar eru skráðir og þar má finna ítarlega lýsingu á ferðinni. Verðið er 6000 kr. og innifalið í því er fararstjórn, léttur hádegisverður, kaffihressing og kvöldverður.
Nú þarf að greiða fyrir ferðina um leið og fólk skráir sig og það er hægt að gera í gegnum orlofsvefinn eða með því að smella hér. Frestur til að skrá sig og greiða er til 19. júní 2019.
Eins og áður er leyfilegt að bjóða með einum gesti, gestur utan félags getur þó ekki komið með nema með félagsmanni.
Hvalfjörður og Borgarfjörður
Farin verður dagsferð í Hvalfjörð og Borgarfjörð og hægt er að velja um tvær dagsetningar, þ.e. 26. eða 27. júní. Ekki er hægt að skrá sig nema annan daginn þar sem um er að ræða nákvæmlega samskonar ferðir.
Þetta fyrirkomulag er haft á til þess að hægt sé að gefa fleirum kost á að fara í sumarferðina.
Athugið að nú þarf að greiða ferðina fyrir fram í gegnum orlofsvefinn þ.e. í síðasta lagi 19. júní á skrifstofu félagsins eða s. 525 8330.
Lagt verður af stað frá Grettisgötu 89 kl. 9:00 að morgni stundvíslega. Ekið verður sem leið liggur út úr bænum og inn í Hvalfjörð. Fyrsta stoppið okkar verður Meðalfellsvatn en síðan verður haldið í Hvalstöðina. Þar munum við stoppa og fræðast um sögu staðarins, en við munum láta veðrið ráða því svolítið hversu lengi við stoppum á hverjum stað.
Næst liggur leiðin í Hernámssafnið að Hlöðum, þar munum við skoða safnið og snæða hádegisverð sem er innifalinn í verði ferðarinnar. Við munum einnig skoða Saurbæjarkirkju sem er þar skammt frá.
Við ökum upp úr Hvalfirðinum yfir Dragháls sem leið liggur fram hjá Skorradalsvatni og gegnum Lundarreykjadal til Reykholts í Borgarfirði með stuttu stoppi við Deildartunguhver. Í Reykholti stoppum við góða stund og skoðum söguslóðir Snorra Sturlusonar og fáum kaffisopa.
Síðdegis munum við síðan aka í rólegheitum að Hótel Hamri í Borgarfirði þar sem boðið verður upp á kvöldverð.
Komið verður til baka á Grettisgötu 89 kl. 21:00.