Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

13. september 2019

Formannaráð BSRB skorar á stjórnvöld

Formannaráð BSRB skorar á stjórnvöld að semja án frekari tafa um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar í þeim kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi og ganga þannig á undan með góðu fordæmi á vinnumarkaði.

Í ályktun formannaráðsins, sem samþykkt var á fundi ráðsins og birt er á vef BSRB er bent á að kjarasamningar þorra félagsmanna bandalagsins hafa verið lausir frá því í byrjun apríl. Óásættanlegt sé hversu hægt hafi gengið í viðræðum um nýjan kjarasamning.

„Formannaráð BSRB kallar eftir því að viðsemjendur semji án frekari tafa um styttingu vinnuvikunnar þar sem horft er til þeirrar aðferðafræði sem viðhöfð var í tilraunaverkefnum ríkis og Reykjavíkurborgar,“ segir meðal annars í ályktun ráðsins.

„Stytting vinnuvikunnar skilar gagnkvæmum ávinningi fyrir bæði starfsfólk og atvinnurekendur. Starfsfólk í almannaþjónustu upplifir mikið álag, sér í lagi vaktavinnufólk. Sífellt fleiri finna fyrir sjúklegri streitu og einkennum kulnunar og hverfa jafnvel af vinnumarkaði í lengri eða skemmri tíma með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Tilraunaverkefni sýna að stytting vinnuvikunnar er góð leið til að vinna gegn þessari þróun. Þau sýna líka að styttingin bitnar ekki á afköstum eða þeirri þjónustu sem starfsfólk í almannaþjónustu veitir,“ segir þar ennfremur.

Formannaráðið hafnar alfarið hugmyndum um að gefa eftir kaffitíma eða önnur réttindi félagsmanna í skiptum fyrir styttingu vinnuvikunnar. „Kostir styttingar eru augljósir fyrir atvinnurekendur ekki síður en starfsfólk enda bein verðmæti fólgin í bættri líðan starfsfólks og lægri tíðni veikinda,“ segir í ályktuninni.

 

Ályktunina í heild má finna á vef BSRB