27. september 2019
100 leiguíbúðum úthlutað hjá Bjargi
Bjarg íbúðafélag hefur nú úthlutað 100 íbúðum í Reykjavík og á Akranesi og er áformað að afhenda 50 íbúðir til viðbótar það sem eftir er árs og verða þá íbúar orðnir á fjórða hundrað. Fyrsti leigjandi félagsins fékk afhenta íbúð við Móaveg í Grafarvogi um miðjan júní og frá þeim tíma hefur leigjendum heldur betur fjölgað.
Framkvæmdir á vegum Bjargs hafa gengið afar vel það sem af er ári. Félagið er nú með um 400 íbúðir í byggingu. Þær eru flestar í Reykjavík; við Móaveg í Grafarvogi, Urðarbrunn og Silfratjörn í Úlfarsárdal, Hallgerðargötu við Kirkjusand og við Hraunbæ. Þá er 32 íbúða fjölbýlishús í byggingu við Guðmannshaga á Akureyri. Lesið meira á vef BSRB
Hægt að sækja um íbúð á netinu
Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignastofnun stofnuð af BSRB og Alþýðusambandi Íslands. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði, félagsmönnum í BSRB og ASÍ, aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.
Hægt er að sækja um íbúðir á vef Bjargs. Þar hefur verið sett upp reiknivél þar sem áhugasamir geta kannað hvort þeir falli í þann hóp sem getur leigt íbúðir hjá félaginu.