3. október 2019
Viðræður við Strætó og Faxaflóahafnir að komast í gang
Viðræðum við þrjá stærstu viðsemjendur Sameykis hefur nú verið vísað til sáttasemjara og enn hefur enginn fundur verið boðaður á þeim bæ. Við höfum lagt áherslu á að samningar náist sem fyrst enda hafa þeir verið lausir nú í rúmt hálft ár. Það var okkar mat að ekki myndi þokast lengra í þeim endalausu viðræðum sem við höfðum átt við fulltrúa ríkis, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Eitt af stærri málunum sem á strandaði var stytting vinnuvikunnar eins og fram hefur komið. Svo virðist sem samninganefndir þeirra hafi ekki lesið um góðan árangur eigin tilraunaverkefna um styttingu vinnuvikunnar og enn síður hlustað á jákvæða afstöðu forstöðumanna og stjórnenda um mikilvægi hennar, að minnsta kosti hefur sú reynsla ekki skilað sér inn í tillögur viðsemjanda okkar. Meðan ríkissáttasemjari liggur undir feldi mun félagið halda áfram með viðræður við Isavía og Fríhöfnina auk þess sem fundir hafa verið boðaðir með Strætó og Faxaflóahöfnum, en það er Garðar Hilmarsson varaformaður Sameykis sem stýrir þeim umræðum fyrir hönd félagsins.