24. október 2019
Baráttudagur kvenna!
Sameyki óskar félagsfólki til hamingju með baráttudag kvenna í dag. Í dag eru 44 ár síðan fyrsti kvennabaráttudagurinn var haldinn. Dagurinn sem jafnan er nefndur Kvennafrídagurinn eða Kvennaverkfallið eins og okkur hugnast betur var fyrst haldinn árið 1975 í tilefni af því að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna helgaði árið málefnum kvenna. Um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störfin sín til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og til að krefjast sömu réttinda og launakjara og karlar. Það er vel við hæfi að minna að minna á daginn nú þegar Sameyki ásamt öðrum aðildarfélögum BSRB standa nú í löngum og hörðum kjarasamningaviðræðum. En félagar í aðildarfélögum BSRB eru að stórum meirihluta konur og margar þeirra vinna innan heilbrigðis- og umönnunargeirans sem greiðir hvað lægstu launin. Árið 1975 var talið að yfir 25.000 konur hafi komið saman á baráttufundi og íslensk kvenréttindasamtök vöktu athygli innanlands og í erlendum fjölmiðlum. Á þessum degi hefur reglulega verið blásið til fundahalda og baráttuganga, nú síðast í fyrra. Ekki er skipulagður fundur eða ganga í ár utan þess að Kvenréttindafélagin býður til Kvennasögugöngu í Reykjavík. Forysta félagsins og samninganefndir munu hins vegar leggja áherslu á daginn á fundum sínum hjá ríkissáttasemjara í dag.
Myndirnar eru úr safni BSRB frá baráttufundum 24. október, 2016 og 2018.