7. nóvember 2019
Samningaviðræður á fullu
Fulltrúar okkar í samninganefndum eiga fundi með öllum stærstu viðsemjendum okkar í dag. Eins og fram hefur komið þá hefur þokast örlítið áfram í umræðum við ríkið er varðar styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki, en nú er setið yfir því hvernig við getum einnig stytt vinnuvikuna hjá vaktavinnufólkinu okkar. Auk þess er rætt um möguleikana á jöfnun launa milli markaða en við höfum lagt mikla áherslu á þann þátt viðræðnanna. Hvað varðar viðræður við Reykjavíkurborg, Sambandið, Rarik og aðra aðila þá höfum við lagt fram drögin að tillögum ríkisins um styttingu vinnuvikunnar á borð þeirra og stefnum að sjálfsögðu á sama árangur þar.
Bæði Sonja Þorbergsdóttir formaður BSRB og Árni Stefán formaður Sameykis hafa látið hafa eftir sér að nú sér róðurinn allur á styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki og jöfnun launa auk þess að tryggja að launaskriðstryggingin verði inni í samningum. Þessi atriði eru grundvallaratriði og opinberir starfsmenn munu ekki skrifa undir samninga án þess að þetta verði tryggt með einhverjum hætti.